VW rúgbrauð á beltum
VW endursmíðar sjaldgæfan bíl með beltum eins og á skriðdreka
Hann hefur viðurnefnið „Half-Track Fox“ – eða „hálfbelta refurinn“
Klassíska bíladeildin hjá Volkswagen hefur endurgert það sem hún kallar óvenjulegusta „gluggabíl“ sem smíðaður hefur verið. Þetta „rúgbrauð“ var búið til árið 1962 og hlaut viðurnefnið „Half-Track Fox“ (sem vísar til „skriðdrekabílanna“ sem notaðir voru i seinni heimsstyrjöldinni) eftir að hann fékk öxla og belti eins og á skriðdreka til að komast yfir erfiðasta landslag í Ölpunum.
Kaupendur gátu ekki gengið inn í Volkswagen umboð og pantað rúgbrauð á beltum; Half-Track Fox var þróaður af vélvirkja í Vínarborg að nafni Kurt Kretzner.
Flestar heimildir eru sammála um að hann hafi verið ákafur skíðamaður sem fann markað fyrir sendibíl sem var auðveldur í akstri og hæfur til að komast á staði sem önnur farartæki komust ekki til.
Meðal markhóps hans voru „fjallaskálaverðir, veiðimenn, skógræktarmenn, læknar og viðhaldsverkfræðingar fyrir skíðalyftur, sjónvarps- og útvarpsmöstur, leiðslur og þess háttar,“ að sögn deildar skjalasafns Volkswagen.
Kretzner varði rúmum fjórum árum í að þróa Fox. Að framan er sendibíllinn með tveimur beygjuöxlum sem hver um sig er með fjórum dekkjum. Að aftan er hann búinn tveimur knúnum öxlum sem „keyra“ á ál- og gúmmíbeltum.
Krafturinn kemur frá loftkældum, 1,2 lítra flata fjögurra strokka VW-mótornum sem ekki var breytt við smíðina, sem þýðir að hann er að gefa um það bil 34 hestöfl.
Hann snýr afturhjólunum með fjögurra gíra beinskiptum gírkassa og Fox-sértæku tregðutengdu mismunadrifi. Þó að sendibíllinn væri gífurlega fær utan vega var hámarkshraðinn um 32 km/klst.
Volkswagen útskýrir að eintakið sem fyrirtækið endurgerði hafi sést í Vínarborg til ársins 1985. Það var keypt af Porsche safninu í Gmünd í Austurríki, sem er í einkaeigu, snemma á tíunda áratug síðustu aldar og síðar selt hópi áhugamanna um þessa gerð „glugga-rúgbrauða“ sem hugðust gera það upp, en ekki varð af þeim áformum.
Seint á árinu 2018 bættist Half-Track Fox í Volkswagen safnið og var settur í grunnuppgerð.
Vélvirkjar fjarlægðu málninguna, gerðu allar nauðsynlegar yfirbyggingarviðgerðir, ryðvörðu yfirbygginguna og máluðu sendibílinn aftur í upprunalega appelsínugulan litnum.
Vélin og skiptingin voru einnig endurbyggðar og innréttingin endurnýjuð að fullu. Volkswagen lauk endurgerðinni í febrúar 2022.
Flestir sagnfræðingar eru sammála um að tvö eintök af Half-Track Fox hafi verið smíðuð þegar framleiðslunni var hætt árið 1968. Aðeins eitt er talið hafa „lifað af“, þó hitt eintakið gæti leynst í hlöðu í dreifbýli í Austurríki; hafðu augun hjá þér ef þú ferð þangað!
(grein á vef Autoblog – myndir VW)
Umræður um þessa grein