VW ID.3 blæjubíll – hvað finnst þér?
Viðbrögðin létu ekki á sér standa á veraldarvefnum þegar tveir af aðalmönnum Volkswagen og VW Group birtu teikningar af VW ID.3 blæjubíl sem ef til vill fer í framleiðslu. Síðastliðinn sólarhring hafa hinir ýmsu sérfræðingar og áhugamenn velt hugmyndinni fyrir sér og tjáð sig um bílinn. Bílinn sem enn er bara hugmynd – en hugmyndin er alla vega farin á gott flug. Og til þess var leikurinn gerður: Hvað finnst þér, lesandi góður, um hugmyndina?
Þetta hófst þegar framkvæmdastjórinn Ralf Brandstätter birti á LinkedIn síðu sinni færslu þar sem hann kynnti hugmyndina um frekari útfærslu á rafbílnum vinsæla ID.3, sem gæti „skapað alveg nýja og einstaka frelsistilfinningu“ eins og hann komst að orði.
„ID.3 blæjubíll? Það hljómar vel: Að njóta náttúrunnar og augnabliksins með blæjuna niðri, knúinn af rafmagni,“ eða eitthvað á þá leið sagði Brandstätter í færslunni.
Hann varpar hugmyndaboltanum til lesenda því í lok færslunnar spyr hann: „Stóra spurningin er: Hvað finnst ÞÉR?“ Væri það hreinasta lukka í krukku að bruna um í rafblæjubíl og leyfa loftinu að leika um mann?
Eru rafblæjubílar það sem koma skal?
Ef rafbílar eru það sem koma skal þá hlýtur rafblæjubíllinn að fylgja með. Verði ID.3 blæjubíllinn að veruleika þá yrði hann ekki fyrsti rafblæjubíllinn á markaðnum. Önnur kynslóð Tesla Roadster (nú sem fjögurra manna blæjurafbíl)l er væntanleg á næsta ári. Aðeins á eftir áætlun en þó á leiðinni.
Svo má nefna fleiri bíla á borð við Smart, Fiat 500e, Mini og aðra rafblæjubíla sem nýir eru á markaði eða væntanlegir.
Á vefsvæði bílaframleiðandans er fólk hvatt til að segja sína skoðun beint við mennina sem ráða og það má gera með því að smella hér en svo þætti okkur líka gaman að vita hvað ykkur finnst og þá er Facebook-síða Bílabloggs kjörinn vettvangur.
Til að fylgjast með „tísti“ um ID.3 blæjubílinn þá ætti myllumerkið #VWID3 að skila einhverju. Verður fróðlegt að sjá hvort bíllinn verði framleiddur þó svo að Ísland komi ekki til með að verða vagga blæjubílamenningar í Evrópu. Samt er þetta spennandi og gaman þegar almenningur er spurður álits, eins og í þessu tilviki.
Umræður um þessa grein