Ljóst er að engin tenging er á milli þess að eiga flottan ofurbíl og þess að kunna að aka. Af einhverjum ástæðum eru kjánar á flottum sportbílum meira áberandi en eigendur sportbíla sem ekki eru kjánar. Það fer auðvitað meira fyrir klaufum og kjánum. Sérstaklega þegar þeir koma saman.
Í Hollandi er klúbbur fyrir vel stætt fólk sem á flotta bíla. Þessi klúbbur heitir Cars and Business og er árgjaldið litlar 500.000 krónur. Þau myndbönd sem undirrituð hefur séð (og þau eru nokkuð mörg) gefa ákveðnar vísbendingar um að þetta sé klúbbur handónýtra ökumanna. Ökumanna sem eiga hrikalega flotta bíla en hafa, fljótt á litið, ekki hugmynd um hvernig eigi að meðhöndla slík ökutæki.
Á vefsíðu klúbbsins er allt auðvitað um bíla en samt stendur að þetta sé „viðskiptaklúbbur“ en ekki „bílaklúbbur“. Jæja, þetta er kannski innanklúbbshúmor en í það minnsta eru bílarnir fínir sem klúbbfélagar eiga.
Meðlimir klúbbsins eru 225 talsins og þegar þeir koma saman virðist það fréttast auðveldlega því þegar glæsikerrurnar koma hver á eftir annarri að „klúbbhúsinu“ er allt morandi í ljósmyndurum sem vilja endilega ná myndum af öllu saman. Auðvitað! Þetta eru æðislegir bílar!
Það sem gerist þá er eftirfarandi:
Vondu bílstjórarnir á fínu bílunum verða svo spenntir að þeir fara að gefa í og gera alls kyns gloríur til að sýna sig (bílinn) fyrir myndavélafólkinu. Það er ekki sniðugt að gefa í þar sem hámarkshraði er 30, allt fullt af fólki, þétt umferð og 100 metrar að gatnamótum.
Í meðfylgjandi myndbandi er hluti myndefnisins tengt klúbbnum en ekki allt. Þetta er þó allt myndefni með fínum bílum og miskjánalegum bílstjórum að gefa í til að leyfa nærstöddum að heyra!
Uppfært kl. 18: Það er eins og fregnin hafi flogið um að hér stæði til að gera smá sprell í meðlimum klúbbsins því þegar undirrituð birti þá var fyrrnefndu myndbandi eytt út… Það er fátt við því að gera og birtist hér vikugamalt myndband (frá sama náunga) sem er í ætt við hitt. Vonandi geta lesendur haft gaman af þessu samt.
Skjáskotin hér að ofan eru fengin úr myndbandinu dularfulla sem hvarf.
Umræður um þessa grein