Volvo 245 DL frá árinu 1978 er hluti af hinni vinsælu 200-seríu frá Volvo, sem naut mikilla vinsælda á sínum tíma, sérstaklega á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum.
Bíllinn, sem er station-bifreið (skutbíll), er þekktur fyrir áreiðanleika, endingu og sérstaka kantaða hönnun sem gerði hann að valkosti margra sem voru á höttunum eftir rúmgóðum fjölskyldubíl á þeim tíma.
Hönnun og útlit
Volvo 245 DL er með kassalaga yfirbyggingu sem er einkennandi fyrir Volvo-bíla á þessum árum. Þessi kassalaga hönnun gaf bílnum mjög góða nýtingu á innanrými og stórt farangursrými.
Bíllinn er í fjögurra dyra station-útfærslu, Farangursrýmið var nokkuð stórt og hentaði sérlega vel fyrir allskyns farangur, sem gerði hann vinsælan fyrir fjölskyldur og fólk sem þurfti pláss fyrir ferðalög og flutninga.
Vél og afl
Í þessum árgangi var algengt að finna B21A-vélina, sem var fjögurra strokka 2.1 lítra vél sem gaf 97 hestöfl. Þetta var einföld og áreiðanleg vél, byggð til að þola álag.
Hægt var að fá hann bæði með fjögurra gíra beinskiptum gírkassa eða sjálfskiptingu (þó var handskiptur vinsælli í Evrópu á þessum árum) – enda var bíllinn frekar slappur þegar var komin í hann sjálfskipting.
Munið þið ekki eftir hljóðinu í vélinni á lágum snúningi?
Afl og hröðun voru tiltölulega hófleg miðað við suma aðra bíla frá þessum tíma, en það var meira lögð áhersla á endingu og hagkvæmni.
Öryggi
Volvo 245 var á þeim tíma talinn einn af öruggustu bílunum í sínum flokki. Volvo lagði mikla áherslu á öryggi, og 200-serían hafði fjölmarga öryggiseiginleika eins og styrktar stálstoðir og stóra og mikla stuðara sem áttu að taka högg við árekstur.
Einnig var bíllinn með sérstaklega hannaða höfuðpúða, sem jók á öryggi í aftanákeyrslum.
Höfuðpúðar voru yfirleitt til skrauts í bílum á þessum árum en ekki sem öryggistæki. En Volvo var með öryggið á hreinu.
Innanrými og þægindi
Innanrýmið var hannað með þægindi í huga. Sætin voru þægileg og rýmið var mikið, en það gerði hann mjög vinsælan fyrir lengri ferðir og stórar fjölskyldur. Sætisáklæðið var afar sérstakt, eins og nælon viðkomu en níðsterkt.
Það sem maður man eftir í þessum bílum var að öryggisbelta hljóð og ljós fór ekki fyrr en þú spenntir beltið.
Einfaldleiki var ríkjandi í hönnun mælaborðsins og stýrikerfa bílsins. Allar helstu upplýsingar voru þó við hendina og þóttu mjög nýtískulega framsett árið 1978.
Þol og ending
Volvo 245 DL frá 1978 var byggður til að þola mikla notkun og er enn í dag þekktur fyrir endingu. Eitthvað er til af þessum bílum enn í dag – en ekki mikið skv. sölulýsingu bílsins á myndunum.
Með reglulegu og góðu viðhaldi hafa margir 245-bílar náð að fara yfir hálfa milljón kílómetra.
Volvo 245 DL frá 1978 hefur náð að byggja upp stöðu sem klassískur bíll, sérstaklega meðal Volvo-áhugamanna.
Bíllinn á myndunum
Þessi Volvo skutbíll var afhentur nýjum eiganda 8. september 1978. Liturinn er Cimarron Brown með brúnu tauáklæði. Aðeins fimm eigendur hafa verið skráðir á bílinn síðan hann kom á götuna. Hefur verið allan sinn líftíma í Bretlandi.
Bíllinn er keyrður rétt um 106 þúsund kílómetra frá upphafi. Þessi Volvo hefur fengið gott viðhald í gegnum árin en það eina sem hefur þurft að taka upp í bílnum er sjálfskiptingin vegna vökvaleka.
Skv. sölulýsingu er bíllinn einn af þrettán skráðum í heiminum í dag – af þessari árgerð, týpu og gerð.
Myndir og upplýsingar af bílasölu á vefnum. Bíllinn á myndunum er staðsettur í Bretlandi.
Umræður um þessa grein