Volkswagen hefur tekist ágætlega til með ID línu sinni, línu sem er tileinkuð sjálfbærum samgöngum. Ein nýjasta viðbótin við þessa fjölskyldu er Volkswagen ID.7, rafbíll sem kemur nú í stað Passatsins sem hefur um árabil verið flaggskip fólksbíla innan VW.
Með ID línunni ætla þeir að færa Volkswagen yfir í nýjustu tækni og tileinka sér um leið vistvænni bíla.
Við höfðum samband við Heklu sem lánaði okkur splunkunýjan ID.7 sem við tókum léttan snúning á í borginni. Hér á eftir segjum við ykkur frá þeirri upplifun.
ID.7 er glæsilegur bíll og höfðar án efa til fjölbreytts hóps kaupenda.
Virkilega fallegur fólksbíll
Þegar við sáum nýja Volkswagen ID.7 hugsuðum við strax, ætli þetta sé ef til vill nýjasti keppinautur Tesla Model Y? Hönnunarmálið er fullkomin blanda af nútímavæðingu og fágun.
Yfirbragði bílsins fylgja rennilegar og loftaflfræðilegar útlínur, sem gefur til kynna skilvirknimiðaða verkfræði hans.
Stuðull loftmótsstöðu er 0,23 cd. Framhliðin, skreytt LED-aðalljósum og áberandi upplýstu merki Volkswagen gefur frá sér framúrstefnulega skírskotun.
ID lína Volkswagen samanstendur af flottum bílum sem lúkka þéttir og nýtískulegir.
Nóg pláss fyrir alla
Við sjáum veglegan og frekar stóran fjölskyldbíl í ID.7, með hallandi þaklínu sem gefur sportlegt yfirbragð án þess að skerða innra rýmið.
Rétt tæpir þrír metrar eru á milli fram- og afurhjóla sem gefur meira pláss.
Stóru álfelgurnar auka ekki aðeins fagurfræðina heldur stuðla einnig að heildarskilvirkni ökutækisins með því að lágmarka veltimótstöðu.
Við efumst ekki um að þessi bíll gæti orðið vinsæll í leiguakstri því hann er eins og sérhannaður fyrir gott aðgengi.
Vandaðra en áður
Þegar sest er inn tekur á móti okkur rúmgott og vel frágengið innanrými. ID.7 státar af mínimalískri hönnun að innan sem kemur mjög vel út og með úrvals efnum og innsæi vinnuvistfræði.
Skjárinn í þessum bíl er mun stærri en í ID systkynum hans en þar er nýtt mælaborð sem er nú innbyggt í stað þess að vera staðsett ofan á stýrinu. Mun flottari hönnun og meira í anda hefðbundinna fjölskyldubíla.
Það má greinilega sjá umbætur í efnisvali, mjúk efni í mælaborði, litaður saumur og sérlega flott alcantra á sætum.
Einfaldara stýrikerfi
Þungamiðja mælaborðsins er nokkuð stærri upplýsinga- og afþreyingarskjár, sem fellur nokkuð vel saman við stafræna mælaklasann og myndar fína heild.
Kerfið er móttækilegt og notendavænt og hefur fengið jákvæða yfirhalningu, þar á meðal myndrænni heimaskjá og þægilegra leiðakerfi.
Og ID.7 hlustar vel því stundum greip fröken Google fram í, en með því að nýta sér þá aðstoð gerir okkur kleift að stjórna ýmsum þáttum bílsins án þess að taka hendurnar af stýrinu.
Aðeins of lítil lofthæð aftur í
Þægindi eru í fyrirrúmi í ID.7, með nægu fótarými en höfuðrými fyrir afturfarsætis farþega mætti alveg veira meira.
Sætin halda mjög vel við og mjög stillanleg, sem tryggir afslappaða akstursupplifun, jafnvel á löngum ferðum. Loftræstingin kann að þykja nýstárleg en hún er eingöngu skjástýrð og þarf að venjast.
Hins vegar virkar loftræstingin mjög vel og heldur ákjósanlegu hitastigi inni í farþegarýminu og eykur þægindi farþega enn frekar.
Fínt pláss fyrir fullvaxna einstaklinga en höfuðpláss má ekki vera minna fyrir hávaxna aftur í.
Mjúkur og þægilegur er rétta lýsingin
Með rafmagnsaflrásinni skilar Volkswagen ID.7 þægilegum og mjúkum akstri. Þetta er ef til vill einn af fáum rafbílum sem þú færð talsverða ánægju af að aka.
Og það sem meira er og eftirtektarvert er hvað hann er hljóðlátur á veginum. Hvorki mikið vind- né veghljóð. Aflið sem er um 286 hö vinnur saman með togi upp á 550 Nm.
Þú getur stillt á orkuendurheimt en hún skiptir mjúklega á milli fríhjólunar og hraðaminnkunar til að hámarka endurheimt orku. Vissir þú að bremsjuljósin virka með þessum búnaði?
Það er langt því frá æskilegasti eiginleikinn að geta komist á sem stystum tíma upp í 100 km/klst. Það sem gerir þennan bíl einstakan er akstursmýkt, fjöðrun og auðveld stýring. Hljóðeinangrun er mun betri en í mörgum samkeppnisbílum, minna veghljóð og lítið hljóð frá hjólbörðum.
Stútfullur af tækni
ID.7 er hárnákvæmur og þægilegur í akstri. Undirvagninn er vel stilltur og nær fullkomnu jafnvægi milli þæginda og lipurðar.
Hvort sem ekið er um götur borgarinnar eða ekið á þjóðveginum vekur ID.7 sjálfstraust með yfirvegaðri meðhöndlun og viðbragðseiginleikum.
Þú getur stillt á milli nokkurra akstursstillinga en hægt er að fá rafvirka fjöðrun sem aukabúnað.
Nýr 15 tommu skjár er kynntur í ID.7. Nýtt og endurbætt viðmót, auðveldara að finna það sem leitað er að. Þráðlaus hleðsla ásamt Apple CarPlay og Android Auto.
Drægni og hleðsla
Drægni heyrir fortíðinni til með Volkswagen ID.7, þökk sé tilkomumikilli rafhlöðugetu og skilvirkri orkustjórnun. ID.7 er að taka við allt að 175 kW á klukkustund í hraðhleðslu en getur tekið 11 kW í heimahleðslustöð.
Það þýðir að þessi bíll er að hlaða frá 10-80% á um hálftíma. Drægnin er um 615 km. á hleðslunni en VW mælir með að ekki sé hlaðið meira en 80% af rafmagni inná batteríið alla jafna.
Ef við tökum hitatap á Íslandi miðað við síðustu daga má reikna með að heildarkílómetra fjöldi á 80% hleðslu sé í kringum 300 km.
Öryggi er forgangsatriði hjá Volkswagen og ID.7 er hlaðinn fjölda háþróaðra akstursaðstoðarkerfa til að tryggja örugga akstursupplifun. Allt frá sjálfvirkum hraðastilli til akreinavara er bíllinn búinn nýjustu tækni sem kemur í veg fyrir slys og dregur úr alvarleika árekstra.
Sætin eru þægileg, halda vel við bak og læri. Aftursætin eru ekki síður þægileg.
Í reynsluakstrinum fengum við tækifæri til að upplifa þessa eiginleika af eigin raun og við vorum hrifin af skilvirkni þeirra og áreiðanleika. ID.7 samþættir tækni og öryggi á einfaldan hátt.
Hjálpartæki eins og vörpun hraða, akreinavara og skynvædda hraðastillisins upp á framrúðuna gerir aksturinn enn þægilegri.
VW skynjar umhverfi sitt mjög vel og til dæmis þegar ekið er að hringtorgi dregur bíllinn úr ferð og undirbýr komu að hringtorginu.
ID.7 Pro kemur á 19 tommu felgum en hægt er að fá flottar 20 tommu undir bílinn sem aukabúnað. Fimm flottir litir eru í boði á ID.7 hjá Heklu.
ID.7 er „game changer“
Með fallegri hönnun, lúxus innanrými, spennandi afköstum og háþróaðri tækni setur ID.7 nýjan staðal fyrir vistvænan bílaiðnað.
Hvort sem þú velur þér bílinn sem hefðbundinn fjölskyldubíl eða skellir þér oft út úr bænum á skíði eða golf, þá býður ID.7 upp á fullkomna blöndu af stíl, þægindum og sjálfbærni.
Volkswagen ID.7 er svo sannarlega verðugur keppinautur á tæknivæddum bílamarkaði.
Myndband
Helstu tölur:
Verð: 9.990.000 kr.
Afl mótors: 286 hö.
Tog: 550 Nm.
Drægni: 613 km. skv. WLTP staðli
Hleðslugeta: 175 kW á klst. DC
Hleðslugeta með heimastöð: Allt að 11 kW á klst. AC
Stærð rafhlöðu: 77 kWst.
Lengd/breidd/hæð: 4.961/1.862/1.536 mm.