Vinsælir bílar nefndir eftir dýrum
Bílaframleiðendur leggja oft mikla áherslu á að koma með grípandi nöfn á nýjar gerðir sínar. Sum fyrirtæki nefna bíla sína eftir þekktum einstaklingum.
Til dæmis Enzo Ferrari (Ferrari Enzo) og Ayrton Senna (McLaren Senna).
Aðrir nota ákveðna staði eins og Ferrari 360 Modena eða Chevrolet Malibu. Hins vegar hafa sumir af flottustu bílum sem hafa komið á markað á liðnum árum verið með nöfn sem fengin eru að láni frá dýraríkinu!
Dýr, hvort sem þau eru snögg eins og villtur hestur eða hörð eins og hrútur, hafa ekki aðeins lánað farartækjum okkar nöfn sín heldur einnig verið uppspretta innblásturs fyrir hönnun þeirra.
Því miður hefur tilhneigingin til að nefna bíla eftir dýrum farið minnkandi síðan nokkrir framleiðendur fundu upp stafafræðilega aðferð (t.d. Audi A3, A4, A6, o.s.frv.) til að nefna gerðir þeirra.
Þess vegna höfum við tekið saman lista yfir núverandi og klassíska bíla með nokkrum af flottustu nöfnunum sem sótt hafa innblástur í dýraríkið.
Núverandi bílar nefndir eftir dýrum
1. Ford Mustang
Sennilega þekktasti bíllinn í þessum flokki, Ford Mustang – nafnið hefur verið til síðan á sjöunda áratugnum.
Um uppruna Mustang nafnsins hefur verið harðlega deilt og sumir fullyrða að bíllinn hafi fengið nafn sitt af P-51 Mustang orrustuflugvélinni úr seinni heimsstyrjöldinni, sem John Najjar, meðhönnuður Mustang frumgerðarinnar, var hrifinn af.
Aðrir halda því fram að 2ja dyra sportbíllinn dragi nafn sitt af fyrstu hestunum sem fluttir voru frá Spáni til Bandaríkjanna.
Sama hvaðan nafnið er upprunnið, Ford Mustang er bíll elskaður af milljónum Bandaríkjamanna.
Ford Mustang var í raun mest seldi sportbíllinn á heimsvísu annað árið í röð árið 2020, með nokkur hundruð eintök seld í Ástralíu, Bretlandi og Indlandi!
2. Ford Bronco
Nákvæmlega svona var fyrsti Broncoinn sem sá sem þetta skrifar átti á sínum tíma, frá 1971 til 1980.
Ford endurvakti þetta gamla og góð nafn nýlega eftir 25 ára hlé. Ford Bronco var einu sinni uppáhaldsjepplingur Bandaríkjanna og keppti við nokkuð nytsamlega torfærubíla eins og Jeep CJ-5 og International Harvester Scout.
Þann 17. júní 1994 varð Ford Bronco alræmdur þegar löggan elti Al Cowlings og ákærða vin hans O.J. Simpson í 60 mílur áður en sá síðarnefndi gafst að lokum upp.
Bronco-eltingaleiknum var sjónvarpað um allan heim og talið er að 95 milljónir Bandaríkjamanna hafi horft á hann í beinni útsendingu á sjónvarpsskjám sínum!
Bronco er nú aftur í nýrri gerð og er seldur í tveimur útgáfum – hinn fullkomni torfærubíll sem kallast Bronco og fjölskylduvænni útgáfa sem kallast Bronco Sport.
3. Ram pallbílar
Bílaframleiðendur nefna ekki bara bíla sína eftir dýrum heldur nefna þeir oft sín eigin vörumerki eftir þeim.
Jafnvel þó að Ram hafi komið upphaflega frá Dodge Ram pallbílunum, valdi það að halda nafninu „Ram“ sem opinberu vörumerki, en „Ram“ þýðir „fjallahrútur“.
Ram úrval pallbíla endurspeglar sterkan og harðgerðan kjarna fjallahrúta, svo þetta er skynsamlegt.
4. Chevrolet Corvette Stingray
Stingray er gælunafn fyrir Chevrolet Corvette, fyrst framleidd árið 1963.
Stingray er sléttur og mjög hraðskreiður, rétt eins og sjávardýrið – hin risastóra og barðamikla skata, og 1963 árgerð Corvette var sú sem gaf bílnum þetta nafn.
Í áttundu kynslóðinni er nýi Stingray fyrsta Corvettan sem notar uppsetningu með vélina í miðjum bílnum.
Nýja uppsetningin gerir hann að verðugum keppinaut annarra öflugra sportbíla með miðjusettan mótor eins og Ferrari 488 GTB og Audi R8.
5. Ford F-150 Raptor og Ranger Raptor
Raptor, nefndur eftir ránfuglum, er nafnið sem Ford skellir á afkastamikla jeppa og pallbíla þeirra. Ford F-150 Raptor, sem fékk nokkrar uppfærslur á þessu ári, er sennilega sá villtasti.
Hann keppir á móti öðrum villtum en jafnhæfum pallbílum eins og Toyota Tundra TRD, Dodge Ram TRX og Jeep Gladiator Mojave.
Knúinn af 3,5 lítra V6 vél með forþjöppu sem skilar 450 hestöflum og 690 Nm togi, er Raptor fær um að komast í gegnum hvaða hindrun sem setur fyrir bílinn.
Hann hefur meira að segja akstursstillingar sem heita Slippery, Tow haul, Sport, Normal, Deep Snow, Baja og Rock Crawl til að koma þér út úr hvers kyns viðkvæmum aðstæðum.
?
Nokkrir bílar kenndir við dýr – en ekki lengur í framleiðslu
1. Dodge Viper
Dodge Viper er eitt grimmasta nafn bíls frá upphafi og er þekktur um allan heim fyrir ofurbíladrepandi frammistöðu sína. Innblásinn af næsta bíl á listanum, hinum þekkta Shelby Cobra, notaði Dodge Viper risastóra V10 vél til að framleiða á bilinu 400 til 660 hestöfl í ýmsum gerðum.
Viper var draumasportbíll margra unglinga sem ólust upp á tíunda áratug síðustu aldar og í byrjun þess næsta. Sérstakt útlit bílsins og öflug vélin gerði hann einstakan.
2. Shelby Cobra
Shelby Cobra, litli roadsterinn sem kom fótunum undir Carroll Shelby sem bílasmið, er vel þekktur.
Hann lítur út fyrir að vera hraðskreiður, jafnvel þegar hann er í bílastæði, og hann hefur nóg af afli til að styðja það.
Shelby Cobra á réttilega skilið orðspor sitt. Frekar en að treysta á markaðsbrellur einbeitti Carroll Shelby sig að því sem hann gerði best: að smíða mjög hraðskreið farartæki. Cobra 427 var öflugasti bandaríski sportbíllinn í mörg ár.
Hann náði 0-100 km/klst á rúmlega 4 sekúndum með keppnispakkanum og þótti mjög öflugur á sjöunda áratugnum.
3. Chevrolet Impala
Chevrolet Impala er einn vinsælasti bandaríski bíll allra tíma, en hann hefur verið til síðan á fimmta áratugnum.
Eitt af táknum bílaiðnaðarins í Bandaríkjunum, Impala, var fyrst kynntur árið 1958. Chevrolet framleiddi yfir 17 milljónir Impala á næstu sex áratugum, sem gerir hann að mest selda bíl Chevy allra tíma.
Það kemur kannski ekki á á óvart að hann er á meðal þeirra farartækja sem mest var stolið af í sumum ríkjum, eins og Chicago.
Tenging Impala við dýraheiminn er að „Impala“ er nafnið á antílópu-tegund sem er víða í Suður- og Austur-Afríku.
Impala var einu sinni þekktur fyrir sérstaka hönnun á afturenda bílsins sem og einstök grill.
Hins vegar, eftir því sem tíminn leið, þróaðist hann í nútímalegri form í þágu virkni og hagkvæmni áður en hann varð að lokum rólegur fjölskyldubíll.
4. VW Bjalla
VW Beetle er einn þekktasti bíll í heimi. Að hluta til vegna uppruna síns í Þýskalandi nasista á þriðja áratug síðustu aldar.
Vinsældir bjöllunnar jukust upp úr 1960, einkum í Bandaríkjunum, þökk sé snjöllu auglýsingaátaki.
Bjallan varð uppáhalds smábíll Bandaríkjanna vegna þess að hann var ódýr, „glaðvær“ og áreiðanlegur.
Margir Bandaríkjamenn keyptu bjöllu sem fyrsta bíl eftir að hafa útskrifast úr háskóla eða sem annan bíl fyrir fjölskylduna.
Alls voru 21.529.464 eintök smíðuð af bjöllunni á sínum líftíma.
(Byggt á grein á vef way.com)
Umræður um þessa grein