Þegar ökumenn halda að enginn sjái til gera þeir eitt og annað sem aldrei ætti að komast í hámæli. Þökk sé bandarískri rannsókn getum við vísað í aðra og bent á þátttakendur – þó við vitum auðvitað að þetta er okkur ekki endilega framandi.
Já, það er nú gott að geta vísað í erlenda rannsókn á ósiðum ökumanna. Látum liggja á milli hluta að þetta er sennilega þverskurður af ósiðum hins almenna vestræna ökumanns.
Óséðir ósiðir?
Ósiðir. Eru ósiðir líka ósiðir þegar enginn sér til? Nú er undirrituð að vísa í rannsókn sem 4.000 bandarískir ökumenn tóku þátt í en niðurstöðurnar voru birtar fyrir rúmum fimm árum.
Það er ekki nógu langt síðan til að hægt sé að vona að þetta „hafi bara verið svona í gamla daga“ en látum skellinn koma.
Það sem blasti nú eiginlega við í niðurstöðunum er að einbeiting ökumanna er álíka góð og hjá „sex ára ofvirku barni sem er ekki búið að fá Rítalínið sitt.“ Þarna var ég að vísa í umfjölllun The Thrilllist um niðurstöður sömu rannsóknar.
Þessir athyglisbrostnu ökumenn játuðu ýmsa ósiði og á þetta við um gjörðir manna og athafnir þegar þeir töldu víst að enginn væri að fylgjast með.
66% sögðust bora í nefið
60% laumuðust til að kíkja á samfélagsmiðla til að athuga hvað félagar þeirra væru að bauka
52% borðuðu heila máltíð meðan á akstri stóð
43% höfðu fataskipti (klæddu sig í flík eða úr)
35% struku af mælaborði eða framrúðu
24% greiddu sér
20% settu á sig svitalyktareyði eða máluðu sig. Því eins og allir vita er nú alveg lífsnauðsynlegt að líta þokkalega út þegar á leiðarenda er komið
20% horfðu á myndband
17% tóku sjálfu
7% notuðu tannþráð
2% naglalökkuðu sig
Hvað skilaboðasendingar snertir þá sögðust 8% senda skilaboð daglega meðan á akstri stendur en 13% sögðust gera það um það bil einu sinni í viku. 51% kvaðst hreinlega aldrei hafa látið sér svo mikið sem detta í hug að senda skilaboð undir stýri.
Liturinn virðist segja eitthvað
Það vill nú þannig til að rannsakendur tóku líka saman litina á bílum þátttakenda og settu í samhengi við niðurstöðurnar.
Eigendur svartra bíla eru líklegastir til að senda skilaboð við akstur en eigendur grænna bíla eru ólíklegastir til að gera slíkt.
Svona var litadreifingin og hlutfallið:
Svartur – 24%
Silfur – 22%
Hvítur – 21%
Rauður – 19%
Gulur/appelsínugulur – 19%
Blár – 19%
Drappaður – 16%
Grænn – 12%
Þetta er kúnstugt og niðurstöðurnar eru sannarlega áhugaverðar. Mun ítarlegar er greint frá þeim hér hafi lesendur áhuga.
Ljósmyndir: Unsplash.com
Fleira furðulegt um akstur og ökumenn:
Einkenni lélegra bílstjóra
Eru fuglar líklegri til að drita á rafbíla?
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein