Verksmiðjuinnkallanir bíla
Það hafa sennilega flestir heyrt af þeim og margir átt bíla sem þurfti að kalla inn vegna lagfæringar á einhverju atriði að beiðni framleiðanda bíls.
Þetta getur verið allt frá einhverju lítilfjörlegu atriði eins og prentvillu í verksmiðjunúmeri yfir í alvarlega öryggisgalla og allt þar á milli.
Hver á frumkvæði að því að kalla inn bíl?
Oftast er það framleiðandi bílsins, þegar upp kemst um vandamálið sem getur gerst alveg frá því bíllinn er enn í verksmiðjunni eða mörgum árum eftir að bíllinn var seldur. Bílaframleiðendur þráast sjaldan við ef viðkomandi yfirvöld óska eftir því að þeir kalli inn bíla enda liggja strangar refsingar við eins og sektir og jafnvel leyfissviptingar.
Stundum eru innkallanirnar að frumkvæði samgönguyfirvalda í mörgum löndum sérstaklega ef ástæðan er eitthvert öryggisatriði eins og loftpúðar (líknarbelgir) frá einum framleiðanda sem eru notaðir í mörgum gerðum bíla.
Hvernig fer innköllunin fram?
Bílaframleiðandinn sendir lista með verksmiðjunúmerum til seljenda bílanna sem hafa uppi á eigendum bílanna og láta þá vita hvað þarf að gera og hvenær er hægt að gera við bílinn.
Samgönguyfirvöld erlendis gætu mögulega líka haft samband við Samgöngustofu.
Hvað getur farið úrskeiðis?
Upplýsingar seljanda bílsins eru úreltar eða skráningin hefur brugðist á einhvern hátt. Bíllinn gæti hafa gengið kaupum og sölum og eigandi er með nafnleynd í bílaskrá.
Ef innköllunin fer fram mörgum árum eftir að bíllinn var seldur gæti fyrirtækið sem flutti bílinn inn verið hætt störfum og jafnvel enginn tekið við bíltegundinni.
Bíllinn gæti verið afskráður ónýtur
Bíllinn er fluttur inn sem búslóðarbíll og framleiðandinn hefur ekki upplýsingar um eigandann.
Bíllinn er fluttur inn á óhefðbundinn hátt oft kallaður grár innflutningur (grey import) af Amerískum bílaframleiðendum því hafa þeir engar upplýsingar um hvar bíllinn er niður kominn en verksmiðjuinnköllunin er alltaf í gildi, alls staðar.
Bíllinn var afskráður ónýtur í upprunalandinu en fluttur til Íslands og skráður hér.
Þá er ekki gott að segja hvort verksmiðjuinnköllunin nái yfir hann. Bíllinn er tæknilega séð ekki til lengur.
Það hefur komið fyrir að bíleigendur hafa komist á snoðir um að þeirra bílar séu partur af verksmiðjuinnköllun en enginn haft samband við þá. Það geta verið eðlilegar skýringar á því eins og að innköllunin sé ný og umboðið ekki komið með lista yfir verksmiðjunúmerin frá framleiðandanum. Það getur líka verið vegna einhverrar af skýringunum hér fyrir ofan. En líklega eru öll umboðin og söluaðilarnir með einhvern sem hefur umsjón og eftirlit með verksmiðjuinnköllunum.
Lausnin er verri en gallinn sem gert var við.
Lokaorð
Bíleigendur bregðast misjafnlega við þegar haft er samband við þá vegna verksmiðjuinnköllunar. Sumir verða glaðir yfir því að framleiðandinn skuli vera ábyrgur og vakandi yfir gæðum og kostum bílsins og vilji halda bílnum í eins góðu lagi og hægt er. Aðrir bregðast reiðir við og vilja skila „gölluðum“ bílnum og fá endurgreitt. Viðbrögðin geta oltið á bíltegund eða jafnvel hvernig gengur að greiða af bílaláninu.
Bílaframleiðendur eru misharðir á því að fylgja þessum innköllunum eftir en sumir af þeim alhörðustu hafa sent bifvélavirkja til Íslands til að framkvæma viðgerðirnar á bílunum. Algengast er þó að viðgerðirnar fari fram á umboðsverkstæðunum.
Það eru ekki endilega framleiðendur dýrustu og fínustu bílanna sem eru harðastir í að kalla inn bíla. Sumir neita að viðurkenna vandamálið til að reyna að halda gæðaímyndinni.
Það er nánast öruggt að það næst aldrei að gera við alla bílana ef fjöldi bílanna í innkölluninni er mjög stór.
Vönduð verksmiðjuinnköllun er af hinu góða en sumir bílaframleiðendur hafa þó farið offari í þeim og skapað ný vandamál með „lausninni“.
Umræður um þessa grein