Vél með náttúrulegt sogafl
Við vorum á dögunum að fjalla um nýja útgáfu af Chevrolet Corvettu og fengum svohljóðandi athugasemd frá einum lesanda: „með eðlilegu innsogi“ og „flata V-8-vél“ er svolítið einkennilegt orðalag. Vegna þessa breyttum við textanum yfir í útskýringuna „án forþjöppu“ til að taka af allan vafa um hvað væri verið að ræða.
En hugtakið „náttúrlegt sogafl“ er mjög algengt í bíliðnaðinum, og var mikið notað fyrst þegar túrbóvélar voru að koma fram á markaðinn. Sumir framleiðenda sem áður framleiddu bíla með einni eða jafnvel tveimur forþjöppum, breyttu um aðferð vegna þess að viðskiptavinirnir voru óánægðir með „hikið“ eða biðina sem kom þegar stigið var á eldsneytisgjöfina, og vélin svaraði ekki strax vegna þess að forþjappan átti eftir að komast á snúning.
Þegar „túrbóið“ virkaði ekki!
Sá sem þetta skrifar upplifði þetta á eigin skinni fyrir alvöru fyrir mörgum árum á hraðbraut í Þýskalandi. Við vorum nokkrir bílablaðamenn að prófa nýjasta sportbílinn á þeim tíma frá Nissan; ZX 300 sem þá var kominn með tvær forþjöppur sem virkuðu þannig að fyrst kom önnur forþjappan inn og síðan hin andartaki síðar.
Við byrjuðum í Hollandi og héldum til Þýskalands í nágrenni Dusseldorf þar sem var að finna langan kafla á hraðbraut eða „Autobahn“ sem var án takmörkunar hámarkshraða.
Þegar þar var komið var upplagt að prófa þetta og nú var sko gefið inn.
Og þá kom þetta sérstæða „augnablik“ – því það var gefið í botn og það gerðist nákvæmlega ekki neitt! En örstuttu seinna tók vélin við sér og bíllinn rauk af stað eins og þota í flugtaki. Nálin á kílómetramælinum rauk upp og var komin vel yfir 200 km hraða (nær 280), þegar Mercedes-Benz birtist framundan á akreininni lengst til vinstri, og konan sem þar var undir stýri var ekki tilbúin að víkja til hægri (þó plássið væri til staðar) og þar endaði þessi hraða- og túrbínuprófun!
Nánari skýring
Bílvél með náttúrulegt sogafl, einnig þekkt sem vél með venjulegt sogafl eða „NA“ (naturally aspirated engine), er hefðbundin bílvél með brunahólfum þar sem loftinntak er eingöngu háð loftþrýstingi andrúmsloftsins og hefur ekki þvingaða aukningu í gegnum túrbó eða forþjöppu. Margir sportbílar nota sérstaklega vélar með náttúrulegt sogafl til að forðast töfina sem forþjappan eða túrbó getur stundum myndað, því í slíkum vélum myndast oft töf þar til að aflið tekur við sér.
En við munum fjalla um „flötu V-8 vélina síðar
Umræður um þessa grein