Vel búinn og sportlegur Tucson

TEGUND: Hyundai Tucson

Árgerð: 2021

Orkugjafi:

Akstursþægindi, tækni og hönnun
148
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Sérlega vel búinn og sportlegur Tucson

Það er kominn splunkunýr Huyndai Tucson. Sportlegur, fallegur og þægilegur og boðinn í rafmögnuðum útfærslum. Bíllinn markar að okkar mati tímamót í viðmóti, akstursþægindum og útlti. Í einu orði sagt geggjaður bíll.

Skemmtilegar línur í sportlegum Tucson.

Yfir sjö milljónir seldar

Hyundai á Íslandi býður nú fjórðu kynslóð af þessum sportjeppa í nokkrum vel heppnuðum útfærslum. Hyundai býður bílinn þremur megin útfærslum – mild-hybrid, hybrid og plug-in hybrid. Við hjá Bílabloggi fengum að prófa hjá þeim hybrid útgáfu og skemmtum við okkur ágætlega þá prófunarhelgi.

Nýr Hyundai Tucson hefur fengið veglega uppfærslu frá fyrri bíl en sá bíll hefur verið einn sá vinsælasti af tegundinni frá upphafi.

Brotin í hönnun hurðanna gera bílinn sérstakan í útliti.

Frá árinu 2004 þegar Tucson var fyrst settur á markað hefur hann selst í sjö milljónum eintaka – svo ekki er annað að sjá en að bíllinn höfði til fólks. Hyundai hefur lengt tíma verksmiðjuábyrgðar í sjö ár.

Úrval orkugjafa

Mild-hybrid eða mildur blendingur er með rafhlöðu sem drífur lítinn rafmótor á meðan mestu átökin í inngjöfinni standa yfir t.d. við hraðaukningu. Um er að ræða 48 volta rafhlöðu sem knýr rafmótorinn. Að auki er í bílnum hefðbundin 1,6 lítra 136 hestafla dísel vél. Dísel vélin togar 320 NM. Hybrid bíllinn er með 1,6 lítra bensínvél sem gefur 230 hestöfl og togar 260 NM. Það er bíllinn sem við prófuðum. Að endingu er bíllinn boðinn sem plug-in hybrid eða tengitvinn. Sá bíll kemur með 1,6 lítra, 265 hestafla bensínvél sem togar 304 NM. Það er því kraftur í kögglum sem þessum bíl hefur verið útlhlutað af hönnuðum Hyundai. Bíllinn er búinn sex gíra sjálfskiptingu.

Hyundai Tucson hybrid er fáanlegur í Comfort, Classic, Style og Premium útfærslum – allar með sama vélarkosti en mismiklum lúxus. Bíllinn sem við reynsluókum er af Style gerð og með leðri og rafmagni í öllu. Sá bíll er að kosta 7.890 þús. Miðað við þennan búnað erum við að tala um ansi gott verð.

Bíllinn er aflmikill og þægilegur í akstri. Hann liggur vel og er búinn nýtísku fjöðrunarkerfi sem stillir fjöðrun hvers hjóls fyrir sig eftir vegyfirborði og átaki.

Öflugur afturendinn.

Nýtt og öflugt fjórhjóladrifskerfi gerir að verkum að þú finnur ekki endilega að bíllinn sé aldrifinn en það kikkar svo sannarlega inn þegar á þarf að halda.

Farangursrýmið er um 620 lítrar.
12 volta tengi í farangursgeymslu.

Flott hönnun og topp efnisval

Hyundai sparar ekki varðandi efni. Mælaborðið er búið tveimur kýrskýrum skjám, annar er mælaborðsskjár og hinn margmiðlunarskjár. Eftirtektarvert er hve skjáirnir eru skýrir og hve þeir næmir eru fyrir snertingu. Báðir eru rúmlega 10 tommur og mælaborðsskjárinn er haganlega hannaður inn í mælaborðið og myndar töff heild  í smartri hönnun þess. Við tókum líka eftir því hve auðvelt er að stilla miðstöð og til dæmis útvarp. Útvarpið er mjög myndrænt og á stórum skjánum er auðvelt að sjá hvaða rás er í gangi.

Flott hönnun og allt innan seilingar.

Ég var með hanska og skjárinn skynjaði alveg snertingu mína í hönskunum.

10.25 tommu stafrænn mælaborðsskjár.

Plássgóð þægindi

Plássið er gott. 620 lítra farangursgeymsla, rafdrifinn hleri, 40:20:40 skipting á aftursætum þannig að til dæmis ef fjölskyldan ætlar á skíði er ekkert mál að setja skíðin í miðjuna – og þannig geta fjórir setið í bílnum. Ef öll sætaröðin er felld niður fer plássið upp í tæpa 1800 lítra.

Plássið aftur í er þrælgott, fóta- og höfuðpláss með því besta sem gerist í ekki stærri bíl. Seturnar eru djúpar og maður fer beint út og inn úr bílnum en sest ekki niður í hann.

Vandaður frágangur og gott pláss afturí.

Style útgáfan er búin leðursætum og bíllinn sem við reynsluókum var með hita og kælingu í sætunum. Einnig upphitað stýri.

Hurðir opnast vel og þægilegt er að stíga inn og út úr bílnum – bæði frammí og afturí.
Þú sest beint inn í bílinn en ekki ofan í hann.

Tæknilega sinnaður

Að sjálfsögðu er nýr Hyundai með allri nýtískutækni eins og skynvæddum hraðastilli, akreinastýringu, akreinavara og sjálfvirkri neyðarhemlun. Hann er líka með sjö loftpúða og þar af einn á milli framsætanna sem er nýlegur og öflugur öryggisþáttur. Við erum líka að tala um LED aðalljós, LED þokuljós og upphituð aftursæti í Style bílnum.

Falin LED framljós eru sérstök og framúrstefnuleg.

Síðan eru toppgræjur frá Krell í þessari gerð með átta hátölurum.

Hentar fjöldanum

Hyundai Tucson er bíll sem boðinn er í breiðu úrvali. Þú getur valið þinn bíl eftir þínum þörfum.

Vel heppnaður Hyundai Tucson árgerð 2021.

Ef bíllinn er hefðbundinn fjölskyldubíll sem nota á í borg og sveit er ef til vill gott að taka Classic bílinn sem er með öllu því nauðsynlega – eða Comfort bílinn sem býr yfir meiri þægindum.

Ef þú vilt allan pakkann eru Style og Premium bílarnir valkostur.

Helstu tölur:

Verð frá: 6.490 þús. (Verð á Style reynsluakstursbíl 7.890 þús.).

Vél: Bensínvél og rafmagnsmótor.

Hestöfl: 230 hestöfl / 42,2 kW rafmótor.

Newtonmetrar: 260.

0-100 k á klst: 8 sek.

Hámarkshraði: 193 km.

CO2: 130 g/km.

Eyðsla bl. ak: 4,9 l / 100 km

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar