Af hverju var hætt að ryðverja?
Í gamla daga var þessi spurning vinsæl á bílasölum: „Veistu hvort það er eitthvað ryð í honum?” Þá voru flestir ef ekki allir bílar ryðvarðir. Í dag er eina ryðvarnarfyrirtækið sem er sjáanlega eftir, Bílaryðvörn á Bíldshöfða 5 í Reykjavík.
Hvað er ryðvörn?
Bílablogg.is sendi Bílaryðvörn tölvupóst fyrir nokkru og óskaði eftir að fá upplýsingar um af hverju bílaumboð á Íslandi létu ekki ryðverja lengur. Ekkert svar hefur borist.
Við vitum þó (bara af því við höfum séð bíla á planinu hjá þeim í Bílaryðvörn) að Suzuki og Toyota láta Bílaryðvörn enn ryðverja nýja bíla sem þeir selja.
Ekki allir sammála
Leó heitinn Jónsson hafði á þessu sterka skoðun en hann sagði eftirfarandi árið 2004 um íslensk ryðvarnarfyrirtæki:
„Mín reynsla er því sú að íslensk ryðvörn sé óþörf og jafnvel til þess líkleg að flýta fyrir tæringu fremur en tefja hana. Ég er þeirrar skoðunar að íslenska ryðvörnin hafi engan annan tilgang en að svíkja fé af bílakaupendum með blekkingum. Ég er einnig þeirrar skoðunar að það sé í raun og veru hneyksli að hagsmunasamtök á borð við FÍB skuli ekki vera búin að stöðva þessa makalausu svikamyllu fyrir löngu.”
Koma klárir til notkunar
Nú á dögum koma bílar með verksmiðjuryðvörn og sú á að duga vel, fullyrða framleiðendur. Hér áður fyrr lentu margir bíleigendur í basli með tæringu í bílum sínum.
Til dæmis átti faðir minn Fiat 125 árgerð 1971, gullfallegur bíll, vel búinn og vandaður. Sá var farinn að ryðga á einu ári.
En hvaða bílar ryðga mest? Fróðlegt væri að vita hver reynsla lesenda er af því.
Blandan batnað
Stál er framleitt úr járni og að meðaltali eru um 900 kg. af stáli í einum bíl. Og hvaðan haldið þið að stálið í bílana komi í dag? Frá Kína, auðvitað. Stálið sem mest hefur verið notað er í bílaframleiðslu er svokallað Advanced High Strenght Steel (AHSS).
Það stál er sterkara, léttara og formast betur en eldri gerðir stálblandna. Stál með AHSS eiginleikum kom fram um 1990.
Það eru hins vegar til þeir sem vilja hafa „rusty look” á bílum sínum. Hér á eftir eru myndir af nokkrum, en aðeins einn af bílunum á myndunum er „orginal” ryðgaður.
Myndir: Ýmsar bílavefsíður.
Umræður um þessa grein