Mercedes veðjar á að kaupendur grunngerða rafbíla muni sætta sig við styttri drægni
Framleiðandinn mun nota ódýrari litíum járnfosfat rafhlöður fyrir smærri bíla
Mercedes-Benz mun skipta yfir í ódýrari og kraftminni rafhlöður til að halda í skefjum hækkandi verði á sumum málmum í framboði grunngerða bíla á markaðinum. Bílaframleiðandinn mun nota litíum járnfosfat rafhlöður fyrir næstu kynslóð bíla eins og EQA og EQB frá 2024 og 2025, sagði forstjóri Ola Kallenius í viðtali í Atlanta.
Með þessu er verið að forðast að nota dýrari rafhlöður byggðar á nikkel, sem skila afköstum og drægni í gerðum eins og EQS, fullrafmagnsútgáfu flaggskipsins S-Class.
Veðja á minni bíla með styttri drægni
Kallenius veðjar á að neytendur muni sætta sig við styttri drægni fyrir ódýrari gerðir þar sem verð á grunnefnum í rafhlöðum hækkar.
„Við teljum að það verði fullt af þéttbýlismiðuðum viðskiptavinum sem þurfa ekki E63 AMG-bílinn,“ sagði Kallenius og vísaði til sportlega bílsins frá Mercedes. “Fyrir þessar grunngerðir, í framtíðinni, erum við að skoða „litíum járnfosfat“-rafhlöður,“ sagði hann.
Mercedes leggur yfir 40 milljarða evra í að rafvæða framboð sitt á þessum áratug. Áætlanir þess fela í sér að framleiða rafhlöðubíla á þremur grunnum fyrir rafknúin ökutæki frá 2025 og setja upp átta rafhlöðuverksmiðjur um allan heim með samstarfsaðilum.
Flestir treysta á nikkel og kóbalt
Flest fyrirtæki í bílaiðnaði treysta á nikkel og kóbalt í litíumjónarafhlöðum til að auka afköst rafbíla. Samt eru birgðir af báðum efnum takmarkaðar. Nikkel, sem hjálpar til við að veita afl og drægni, er einnig viðkvæmt fyrir eldi; áhættu sem kostar iðnaðinn milljarða við að reyna að takmarka.
Forstjóri Tesla, Elon Musk, sagði í síðustu viku að bílaframleiðandinn væri að skipta yfir í litíum járnfosfat rafhlöður á heimsvísu fyrir venjulegar gerðir. Tesla notar LFP rafhlöður í Kína frá Contemporary Amperex Technology Co., eða CATL, sem hefur skilað aðferðum til að ná betri afköstum frá íhlutunum.
CATL útvegar einnig rafhlöður á grunni nikkel í Mercedes EQS. CATL og Mercedes eru með samning sem felur í sér LFP rafhlöður með „cell-to-pack“ verkfræði CATL, sem sparar þyngd og kostnað með því að samþætta sellur beint í rafhlöðupakka.
Með samstarfi um rafhlöður, langtímasamninga um hráefni og horfur á byltingarkenndri tækni sagði Kallenius að hann væri viss um að Mercedes muni hafa nægar rafhlöður til að knýja nýju rafbílalínuna sína.
„Við erum búin að „dekka“ okkur, já,“ sagði hann. „En það er ekki þannig að þú getir bara hallað þér aftur á bak og sagt: „Jæja, allt mun lagast af sjálfu sér.“ Þú verður að taka virkan þátt og reyna að stjórna aðfangakeðjunni þegar við göngum inn í öld rafbílsins.“
(Bloomberg – Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein