Varahlutir í Gamla-Ford
– flibbar og gaddavír –
Jökull Jakobsson, þá blaðamaður á Tímanum, ræddi við eigendur elstu bíla landsins árið 1960. Ótrúlegustu hlutir komu þar við sögu og svei mér ef sýn manns á bílaviðgerðir fortíðar er ekki breytt eftir lestur greinarinnar!
Rætt við eigendur elztu bíla landsins
„Í skýrslu sem greinir frá bifreiðaeign landsmanna er érstök skrá um aldur bifieiða. Þar sést að árið 1955 hafa flestar bifreiðar verið fluttar inn, 3427 að tölu. Hins vegar höfðum við upp á tveimur bifreiðaeigendum sem munu eiga elztu bifreiðir á landinu. Það eru Geir Magnússon viðskiptafræðingur Reykjavík og Bjarni Erlendsson á Víðistöðum við Hafnarfjörð.
Geir keypti fyrir fjórum árum Ford-bíl K-2989 frá árinu 1923, mesta kostagrip og sómakerru. Bjarni á Víðistöðum á einnig Ford-vörubíl, G-347, smíðaár 1925 og er hann enn gangfær og notaður.
Við hittum Geir að máli í gær og báðum hann að segja okkur sitthvað af Gamla-Ford. Geir var á förum til Ameríku á vegum Sölumiðstöðvarinnar en gaf sér tíma til að rabba við okkur meðan frúin hellti á könnuna.“ skrifaði blaðamaður Tímans. Blaðamaðurinn var enginn annar en Jökull Jakobsson og greinin að vonum skemmtileg!
Best að fara aftur á bak upp brekkur
Jökull hefur fengið kaffisopann hjá þeim hjónum og Geir sagði frá:
„Ég keypti bílinn fyrir fjórum árum af hvítasunnupresti í Hafnarfirði, Nikulási trésmið Jónssyni. Kaupverðið var 300 krónur. Bíllinn er kominn hingað til lands frá Svíþjóð, árið 1923 og var notaður sem slökkviliðsbíll á Akureyri. Þá voru settar langsumfjaðrir á hann að aftan þar sem slökkvidælan var en sæti fyrir tvo fram í. Síðan var bíllinn nokkurn tíma á Ólafsfirði en þaðan fluttur til Hafnarfjarðar og settur út úr embætti sem slökkviliðsbíll.
Þó var hann hafður um tíma á Selfossi í forföllum, og þá varð að fara á honum Þingvallaleiðina því hann komst ekki upp Kambana. Það var alsiða að fara aftur á bak upp brekkur á gömlu bílunum, vegna þess að engin olíudæla var í þeim og síður hætta á að þeir bræddu úr sér ef ekið var aftur á bak upp,“ sagði Geir um þann gamla.
Flibbar og gaddavír
Geir hélt frásögninni áfram enda frá fjölmörgu að segja:
„Ég smíðaði sjálfur hús á bílinn þegar ég fékk hann og ók á honum hér um göturnar í fjögur ár. Þegar heitmey mín sá hann fyrst, sór hún þess dýran eið að láta aldrei sjá sig nálægt honum en það fór á aðra leið. Við fórum bæði á leikhús og böll í bílnum og hann stóð sig með mestu prýði. Þetta eru vandaðir bílar og þarf ekki aðra varahluti í þá en flibba og gaddavír.“
Hér hváði Jökull: „Flibba?“
„Já, venjulega skyrtuflibba,“ sagði Geir. „Í þessum bílum er ekki gírkassi eins og nú tíðkast, heldur var að eins um tvö hraðastig að ræða, „high og low“. Utan á hjólunum sem stilltu hraðann voru eins konar bremsuborðar og það vildi brenna við að þeir ónýttust. Þá var einfaldast að taka af sér flibbann eða sokkabandið og setja í staðinn. Þess vegna komu karlarnir oft flibbalausir úr ökuferðum í gamla daga.“
Kúnstin að sprengja hljóðkútinn og æra beljur
„Ef fjöður hrökk í sundur var hægur vandinn að taka næsta girðingarstaur og setja í staðinn. Þeir þóttu mestir ökuþórar í gamla daga sem kunnu þá kúnst að sprengja hljóðkútinn undan bílnum þegar minnst varði. Það þótti gífurlegt sport að þeytast um sveitir, sprengja allt í einu hljóðkútinn og æra beljur í heilum sveitum. Já, þetta var mesta sómakerra,“ sagði Geir og bætti við „ég minnist þess til dæmis þegar ég var staddur upp á Fæðingardeild og var að færa kvenmanni þar blóm.
Þá kom þar maður og spurði hvort ég gæti dregið bílinn sinn í gang. Hann var á splunkufínum lúxusbíl af nýjustu tegund og var sá nú hnýttur aftan í gamla Ford. Ég dró bílinn í gang og varð að fara talsverðan spotta, það þótti mönnum furðuleg sjón.
Nú er ég búinn að selja Benedikt á Vallá gamla bílinn, hann keypti hann fyrir nokkru þegar þurrð var á vörubílum og Gamli-Ford sómir sér vel í bílaflota Benedikts,“ sagði Geir Magnússon í samtali við Jökul Jakobsson í mars 1960.
Gríp ég aftur niður í grein Jökuls sem birtist í Tímanum (hlekkur á blaðið er neðst á síðunni):
„Við hittum einnig að máli Bjarna Erlendsson á Víðistöðum við Hafnarfjörð. Hann er búinn að eiga gamla Fordinn sinn í 30 ár og notar hann enn á sumrin þegar hann ber á túnið. Bjarni hefur nokkrar kýr og kindur og eitthvað af hænsnum.
Bjarni tekur máli okkar strax vel en segist þó heldur vilja sýna okkur bílinn að sumarlagi þegar búið er að flikka upp á hann.
Bjarni telur að bíllinn muni vera frá árinu 1917 en sennilega er hann þó eitthvað yngri. Sjálfur er Bjarni orðinn 79 ára gamall og ber aldurinn vel, gengur að útiverkum og er hinn sprækasti,“ skrifaði blaðamaður en hér hefst frásögn Bjarna:
„Upphaflega var þetta vörubíll, en síðar var byggt yfir hann og hann notaður í farþegaflutningum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Þá hafði Steindór byrjað á þessum ferðum á nokkrum bílum en tók 3 krónur fyrir hvern mann. Þá tóku nokkrir menn sig til, byggðu yfir þessa vörubíla svo þeir tóku 13 farþega og lækkuðu fargjaldið niður í 75 aura. Þetta varð auðvitað mikil sprenging. En þegar ég keypti bílinn árið 1930 þá var aftur búið að breyta honum í vörubíl. Ég nota hann enn á sumrin við að bera á túnið.“
Jökull Jakobsson lauk greininni með skemmtilegri samlíkingu:
„Bjarni Erlendsson er Árnesingur að uppruna en hefur lengst af búið í Hafnarfirði. Hann var verkstjóri enskra fiskikaupmanna á árunum 1912 til 1921 en þá varð fyrirtækið gjaldþrota vegna verð hruns. Síðan hefur hann stundað ýmsa atvinnu og lengi búið á Víðistöðum. Þeir hafa lengi fylgst að, Bjarni og Gamli-Ford og eiga sammerkt í því að bera aldur sinn vel.“
Svo mörg voru þau orð og nokkuð ljóst að margir hafa séð skyrtuflibba, gaddavír og girðingarstaura í nýju ljósi eftir lesturinn á sínum tíma og jafnvel í dag líka!
Hér er hægt að lesa blaðið frá 17. mars 1960 en greinin er á baksíðu þess og framhaldið á síðu þrjú.
Tengdar greinar:
„Það er bara karbaratorinn”
Þá seldu Íslendingar Rússum Lödur
Manstu? Bílauppboð Sölunefndar varnarliðseigna
Þegar braskað var með bílnúmer: Hátt verð fyrir lágt númer
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein