Úlfur í sauðagæru: reynsluakstur MG4 XPower

Tegund: MG4 Xpower

Árgerð: 2023

Orkugjafi: Rafmagn

Verð, afl, akstursupplifun
Stuttar setur í framsætum, hart plast
325
DEILINGAR
3k
SMELLIR

Rafbílamarkaðurinn hefur verið að hita upp undanfarin ár og MG, hið sögufræga breska bílamerki, er einn af spilurunum á þeim markaði. Við fengum nýlega tækifæri til að taka snúning á þessum „saklausa“ fjölskyldubíl og ég get sagt ykkur, við góluðum af gleði í akstrinum.

Þegar við fylgdum bílnum í myndatöku var aðalmálið að halda í við hann því bíllinn æðir áfram, svo mikið er aflið.

Hönnun sem vekur athygli

Það fyrsta sem vekur athygli við MG4 XPower er ansi flott hönnun bílsins. Framendinn er með áberandi grilli með MG-merkinu og töff LED-aðalljósum. Boddýið og brotnar línur þess sem liggja eftir endilöngum bílnum gefa XPower sportlegt og nútímalegt útlit.

Þetta er alveg svona bíll sem snýr höfðum þar sem hann fer. Reynsluakstursbíllinn er mattlakkaður í sportlega grænum lit (já, hann er grænn – ég spurði konuna).

Sportlegur.

Blanda af þægindum og tækni

Þegar inn er komið kemur yfir mann sportleg tilfinning. Það er aðeins búið að stífa innréttinguna upp og sætin eru með alcantra áferð og leðurlíki á köntum.

Ef maður vissi ekki betur gæti þetta alveg verið bara venjulegur MG4.

Stýrið er svolítið grannt að okkar mati en mælaborðið er vel uppsett og hentar ágætlega í svona sportara.

Reyndar er það nákvæmlega eins og í grunntýpu bílsins sem við höfum þegar reynsluekið og má lesa um hér. Upplýsinga- og afþreyingarkerfið birtist á stórum snertiskjá en smámyndir eru frekar litlar og svara ekkert mjög vel þegar þú snertir skjáinn.

Sætin eru ágæt en setur mættu vera aðeins lengri.

Framsætin eru fín þó svo að seturnar mættu ná betur undir hnésbæturnar. Í bílnum eru nokkuð flottir sport-stólar.

Sportleiki mætir skilvirkni

Það er nánast ekkert undir vélarhlífinni – allavega ekki vél. Í þessum bíl eru hins vegar tveir rafmótorar, einn á hvorum öxli þannig að bíllinn er með drifi á öllum hjólum.

Þeir eru að gefa þessum litla bíl um 435 hestöfl sem gerir hann að sannkölluðum úlfi í sauðagæru.

600 Nm togkrafturinn þrýstir manni niður í sætið þegar maður botnar bílinn. Tölvustýrð togkraftsstýring (sjá útskýringu á Torque vectoring neðar í textanum) stýrir aflinu til hjólanna með ágætum árangri en það á einmitt að minnka undirstýringu í beygjum.

Tölvustýrð togstýring

Torque vectoring er tækni sem notuð er í nútíma bílum til að bæta meðhöndlun, stöðugleika og grip með því að stjórna nákvæmlega dreifingu afls til einstakra hjóla.

Það er fyrst og fremst notað í sportbílum en er einnig að finna í sumum betur búnum bílum í dag.

Hér er allt nokkuð stílhreint og þægilegt.

Torque vectoring virkar með því að stilla virkt tog (snúningskraft) sem sent er á hvert hjól, venjulega í beygjum. Kerfið getur aukið aflið hjólanna en minnkað það á öxlinum og stuðlað að betri afköstum í beygjum.

Þessi aðgerð hjálpar bílnum að snúast á skilvirkari hátt og dregur úr hættu á undirstýringu (þar sem framhjólin missa grip og bíllinn bregst illa við stýrinu) eða yfirstýringu (þar sem afturhjólin missa grip og afturendinn vill renna út).

Það eru ýmsar aðferðir til að vinna með togvektor, þar á meðal kerfi sem byggjast á bremsu og mismunadrifi.

Torque vectoring sem byggir á hemlum felur í sér að þeim er beitt sértækt á ákveðin hjól til að ná tilætluðum áhrifum, á meðan mismunadrifskerfi er stýrt í gegnum tölvukerfi til að dreifa afli á skilvirkan hátt.

Niðurstaðan er aukinn stöðugleiki og snerpa, sérstaklega við krefjandi akstursskilyrði eða í miklu átaki.

Hér er þokkalegasta rými og fínt að ganga um skottið því það er enginn stallur niður í farangursrýmið.

Lipur og þægilegur

Í akstri er bíllinn fjörugur og lipur. Hann liggur ágætlega en eins og með svo marga kraftmikla hatchback bíla sem hafa komið á markaðinn er það eiginlega allt.

Gríðarlegt aflið togar það vel að bíllinn á til að undirstýra eilítið en það er ekkert til að draga úr fjörinu við að aka honum.

Fjöðrun hefur verið stýfð um 25% enda er bíllinn nokkuð stífur í anda alvöru sportbíla.

Munið þið eftir Nissan Sunny GT og Opel Astra OPC? Þessi er svolítið í þeim hópi. Ofurafl, en lítið unnið með aksturseiginleikana frá grunntýpunni. Hins vegar er kannski ekki hægt að ætlast til að maður fái allt í einum litlum bíl á meðan bílar eins og Audi etron GT eru ekki einu sinni að ná 3,8 sek. í hundraðið.

Með launch control

Launch control er eiginleiki sem almennt er að finna í kraftmiklum sportbílum, sérstaklega þeim sem eru með öflugar vélar og sjálfskiptingu.

Þetta er kerfi sem er hannað til að hjálpa ökumönnum að ná sem sneggstri hröðun úr kyrrstöðu, til dæmis í kappakstri.

Svona virkar launch control venjulega

Ökumaður notar launch control með því að fylgja tiltekinni aðferð sem getur falið í sér að slökkva á spólvörn, setja gírkassann í tiltekinn ham og stíga á bremsur.

Þegar launch control hefur verið virkjað og tölva bílsins búinn að stilla spyrnukraftinn, stígur ökumaðurinn inngjöfina í botn á meðan hann heldur bremsupedalnum niðri.

Þegar ökumaðurinn sleppir bremsupedalnum stjórnar innbyggð tölva bílsins afli og gripi til að hámarka hröðun. Kerfið getur takmarkað snúning hjóla sem tryggir mjúkt og öflugt start.

Hugarró

Bíllinn er hinn ágætasti þegar kemur að öryggi. Fimm stjörnu EURONCAP úttekt og það ekkert er til spara.

Við erum að tala um MG Pilot sem er nokkurskonar gervigreind og skynjar alla skapaða hluti – eins og til dæmis hraða næsta bíls fyrir framan, hjálpar til í umferðarteppum og skynjar gangandi vegfarendur – allt það sem við viljum sjá í nútíma bílnum.

MG4 Xpower er með 64 kW rafhlöðu, með drægni upp á 385. km skv. WLTP staðlinum. Virkilega á pari við aðra bíla í þessum stærðarflokki.

Raundrægni ætti að vera einhversstaðar í kringum 200 km. í vetur miðað við blandaðan akstur innan borgarmarkanna.

Þið vitið að rafbíll eyðir meiru í langkeyrslu öfugt við bíl með brunavél.

Þú getur svo stillt bílinn eftir því hvernig þú hyggst aka. Við reyndar vorum með hann í SPORT stillingunni mest allan tímann – enda vorum við í skemmtiferð en ekki á leiðinni á starfsmannafund.

Ef þú ert að leita að rafmagnsbíl sem fer vel með þig í borginni, kemur þér í sumarbústaðinn eða í ísbíltur austur fyrir fjall á methraða (að sjálfsögðu innan leyfilegra hraðatakmarka) er MG Xpower bíllinn fyrir þig. Þú færð mikið fyrir tiltölulega lítið.

Bíllinn kostar 6.190.000 sem er eiginlega hlægilega lágt verð fyrir bíl af þessu kaliperi.

Myndband

Helstu tölur:

Verð: 6.190.000 kr.

Afl mótors: 435 hö.

Tog: 600 Nm.

Drægni: 385 km. skv. WLTP staðli

Hleðslugeta: 140 kW á klst. DC

Hleðslugeta með heimastöð: Allt að 11 kW á klst. AC

Stærð rafhlöðu: 64 kWst.

Lengd/breidd/hæð: 4.235/1.825/1.603 mm.

Akstur og myndir: Gunnlaugur Steinar Halldórsson og Pétur R. Pétursson

Myndir teknar á Samsung S21 Ultra.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar