Í hvaða tilgangi taka menn bílpróf?
Auðvitað til að geta ekið bíl áfallalaust, án þess að slasa sjálfan sig eða aðra. Aukinheldur til að komast á milli staða, stunda vinnu, auka lífsgæði eða til að geta skroppið á gamla góða rúntinn og fengið sér einn með dýfu.
Ef maður horfir á úr fjarlægð þá sér maður glögglega að eitthvað er brogað við bílprófsmál landans. Það er án efa af því góða að læra að aka hjá góðum kennara sem leiðbeinir og leiðréttir, fer yfir meginatriði námsefnis og þjálfar ökunemann fyrir bílprófið almennt. En er ekki eitthvað að þegar að sjálfu bílprófinu kemur?
Ótrúlegt fall
Árið 2019 var rúmlega 40% fall á bílprófum hjá þeim sem þreyttu prófið í fyrsta sinn. Þá veltir maður fyrir sér hvort kennslan sé svona léleg eða prófin of erfið? Nemandinn þarf auðvitað að kunna skil á efninu en hann greiðir fyrir hvert próf sem hann þreytir hjá einkafyrirtækinu Frumherja – jafnoft og hann tekur prófið. Það gjald er í dag rétt undir fimm þúsund krónum. Er þetta ekki bara gróðastarfsemi?
Bílpróf þarf að vera sett upp með þeim hætti að það hafi að markmiði að kanna raunverulega þekkingu nemandans en ekki að virka eins og „ódýrt lygapróf” sem tekið er af viðkomandi undir árvökulum augum glottandi prófdómara. Ef þú fellur þarftu að þreyta prófið aftur – en ekki fyrr en að viku liðinni frá síðasta prófi. Það þarf svo sem ekki að hafa áhyggjur af þeim tímamörkum þar sem fullt er í prófin langt fram í tímann.
Tyrfin og ruglingsleg
Prófin eru þvælin og gerð með það fyrir augum að rugla nemandann. Þarf ökunemi virkilega að greina í þaula rétt ökumanns við mjög sérstök og einhliða skilyrði? Eru þau mál ekki á borði lögreglu?
Maður sér fyrir sér ökunema með kennara í umferðinni á háannatíma þar sem upp kemur atvik þar sem ökunemi verður vitni að umferðarlagabroti. Stöðvar þá ökukennarinn bifreiðina við fyrsta tækifæri, teiknar upp atvikið og lýstir því út frá lagalegum forsendum fyrir ökunemanum? Nei, svo aldeilis ekki.
Er þá ekki sanngjarnt?
Vegna ofangreinds legg ég til að ökukennarar þurfi að taka bóklega ökuprófið fjórum sinnum á ári til að halda sér í formi og geti þannig kennt nemendum sínum átakalaust við hverju er að búast við á skriflega prófinu. Ekki fyndist mér heldur neitt fráleitt að ökukennari missti kennararéttindi við fyrsta umferðarlagabrot og þyrfti að þreyta próf áður en hann fengi réttindin aftur.
Einnig þyrfti ökukennari að hafa flekklausan feril í akstri og ekki hafa átt sök á árekstri, slysi eða tjóni á bifreið.
Auðvitað er ég að bulla. Hver haldiði að myndi standa í að vera ökukennari við ofangreind skilyrði – ekki nokkur maður með viti.
Hvað gengur mönnum til með að hafa skrifleg ökupróf þannig að nemendur þurfa mörg sálfræðiaðstoð vegna kvíða fyrir bílprófinu? Af hverju má ekki spyrja þannig að nemendur sanni að þeir kunni það sem til er ætlast? Það yrði eflaust gert með einföldum spurningum þar sem nemendum er frekar hjálpað en hitt að fá rétt svar við spurningunni – það er partur af fræðslu.
Er ekki kominn tími til að menn girði sig í brók þarna í ökuprófadeildinni og hætti að semja próf sem eru illleysanleg og fjandsamleg ökunemum? Auðvitað með öryggið á oddinum eins og áður.
Umræður um þessa grein