Tvö hjól undir bílnum – kannski!
Langþráð rafmögnuð Toyota hefur litið dagsins ljós en þó ekki alveg enn. Frá því að bíllinn kom fyrst á markað hefur ekki mátt aka honum vegna innköllunar.
Toyota kvað hjólin geta dottið undan bílnum vegna rangrar hönnunar á boltakerfi hjólanna.
Eitthvað sem bílaframleiðandi ætti ekki að láta hanka sig á í framleiðsluútgáfu bílsins.
Ekkert blaður um okkur
Í kjölfarið veltir maður fyrir sér einurð þessa risa bílaframleiðanda við framleiðslu á þessum rafmagnsbíl enda hefur ferlið tekið langan tíma og verið grýtt á köflum.
Bíllinn er hins vegar samstarfsverkefni Toyota og Subaru enda aldrifsbúnaður bílsins þaðan.
Þegar forstjóri Toyota segir opinberlega að rafmagn sé nú ekkert endilega það sem koma skal í bílaheiminum, fallast einföldum bílaáhugamönnum eins og okkur hendur. Veltir maður jafnvel fyrir sér áhugaleysi Toyota á verkefninu.
Það hefur ekki verið auðhlaupið að fá að reynsluaka Toyota BZ4X. Við fórum því alla leið til Póllands til að fá að prófa og þá eftir krókaleiðum – því Toyota er ekkert upp með sér að bloggarar, og bílagagnrýnendur séu eitthvað að blaðra um það sem þeir hafa ekkert vit á.
Toyota á Íslandi taldi reyndar ekki réttlætanlegt að taka okkur með öðrum bílablaðamönnum í reynsluakstur í Danmörku á síðasta ári – enda erum við ekki „prentmiðill“, en fengum samt tæpa hálfa milljón smella á síðuna okkar á síðasta ári.
Til að færa ykkur, lesendur góðir fréttir af þessum nýja fáki Toyota, skelltum við okkur sjálfir á eigin kostnað til Póllands að prófa hann.
En að bílnum sjálfum
Toyota BZ4X er glæsilegur bíll og verulega flottur rafdrifinn fólksbíll sem boðinn er bæði með fram- og aldrifi. Framdrifsbíllinn er um 204 hestöfl og togar um 266 Nm á meðan aldrifsbíllinn gefur 218 hestöfl og togar 338 Nm.
Athygli vekur lítið hestaflabil miðað við auka orku sem aldrifið þarf.
Við fengum bílinn til afhendingar í útjaðri Lublin í Póllandi og nutum þess að aka um sveitavegina í kringum héraðið.
BZ4X er rúmgóður og það fer vel um mann í þægilega formuðum sætum bílsins. Hann er aflmikill miðað við stærð og hann stýrir ákaflega vel.
Manni finnst maður vera að aka mun stærri bíl. Bíllinn liggur vel á vegi og athygli vekur að hann er stinnur og nákvæmur í stýri – eitthvað sem kannski hefur ekki verið sterkasti þátturinn í aksturshönnun Toyota.
Mælaborðið er með ferskum andblæ og tekur vel á móti manni þegar sest er undir stýri.
Stór miðjuskjár kemur vel út í hönnun mælaborðsins. Hægt er að tengja tvo síma samtímis við margmiðlunarkerfið í bílnum en það hefur verið endurbætt talsvert frá fyrri bílum.
Nú er hægt að nota bæði Android Auto og Apple Carplay í Toyota og nýtt og öflugt raddstýringakerfi er í boði. Það sem hins vegar vantar er heimaskjár með því helsta sem þú vilt sjá eins og útvarp, sími, og kannski hluti af leiðsögukerfi.
Bakkmyndavélin er óskýr og nær ekki yfir allan skjáinn – sem er skrítið því skjárinn er stór og nokkuð skýr.
Grafíkin í stýrisskjánum þar sem allar akstursstillingar eru aðgengilegar eins og t.d. akreinavari, stilling á skynvæddum hraðastilli hefur hins vegar ekki fengið sérstaka uppfærslu og er frekar gamaldags – miðað við aðrar gerðir samkeppnisbíla á markaðnum.
Ekkert hanskahólf
Það er nú kannski bara allt í góðu lagi. Góð geymsluhólf eru í hurðum og milli sæta og handbókin góða er best geymd á netinu.
Enda er gott fótapláss fram í fyrir farþega og vel fer um mann í ökumannssætinu hvað fótapláss varðar.
Rafhlaða bílsins geymir um 73kWst. og hægt er að hlaða bílinn með allt að 150 kW á klukkustund. Það gerir kleift að ná inn hleðslu frá 10-80% á um hálftíma – mjög svipað og aðrir rafbílaframleiðendur eru að bjóða.
Í heimahleðslu er bíllinn að taka við um 6 kW á klukkustund sem er ívið minna en til dæmis VW ID.4 og Peugeot 3008 bjóða.
Snyrtilegur frágangur
Farangursrýmið á reynsluakstursbíl var með setti af Toyota mottum sem klæddu rýmið að innan. Mjög skemmtilegur kostur og verndar teppin í farangursgeymslunni.
Farangursrýmið rúmar um 452 lítra og með niðurfelld sætin má koma allt að 1000 lítrum fyrir aftan framsætin.
Gott að aka
Toyota BZ4X er glæsilegur bíll sem mjög gott er að aka. Það fer vel um mann í sætum bílsins og hann er prýðilega hljóðeinangraður.
Gott afl er í bílnum og hann stýrir vel.
Hann leggst ekki í beygjurnar og er nokkuð stinnur á vegi – en alls ekki neitt of mjúkur. Þessi bíll hentar án efa breiðum hópi notenda – bæði sem fjölskyldubíll til borgarnotkunar eða sem ferðabíll.
Helstu tölur:
Verð frá 7.350.000 kr. og upp í 9.350.000 kr.
Rafhlaða: 73 kWh.
Drægni: 415-511 km. eftir gerð.
0-100 km á klst.: 6.9 sek.
CO2: 0 g/km.