Tveir ólíkir bílar í einum
Suzuki Across tengitvinnbíllinn er sá nýjasti sem Suzuki bílar hafa bætt í flota sinn hér á landi. Eflaust hafa einhverjir furðað sig á að sjá Toyota RAV4 með Suzuki merki í grilli og afturhlera en er þó ekkert dularfullt við það. Across og RAV4 er á meðal þess sem komið hefur út úr samstarfi framleiðendanna tveggja og nánar má lesa um það hér.

Ég ætla ekkert að fara í launkofa með þá skoðun mína að Across þykir mér sniðugur bíll og mun ég útskýra hvernig sú skoðun varð niðurstaða þessa reynsluaksturs.
306 hestöfl og umhverfisvænn
Across er sem fyrr segir tengitvinnbíll. Hann er 306 hestöfl og hér er uppskriftin:
2,5 lítra bensínvél, rafmótor sem skilar 134kW og 270Nm togi og sækir hann orkuna úr 18,1kWh litíumjónarafhlöðu. Og til að kóróna herlegheitin knýr 40kW rafmótor fjórhjóladrif bílsins.

306 hestöfl er prýðilegasta útkoma að mínu mati! Bíllinn er 6,0 sek úr 0 í 100 km hraða.
Co2 útblástur í blönduðum akstri er 26g/km og verður það að teljast æði gott og með því lægsta sem fjórhjóladrifnir tengitvinnbílar í þessum stærðarflokki komast niður í.
Tengitvinnkerfið hefur þrjár mismunandi stillingar. Hægt er að aka allt að 75 kílómetra á rafmagnshleðslunni (EV stilling) einni saman, skv. upplýsingum frá framleiðanda. Í hefðbundnu íslensku hrakviðri tókst að komast 46 kílómetra án nokkurra afskipta bensínvélarinnar. Þetta er glöggt merki um að við veðuraðstæður sem eru t.d. ekki fallnar til hliðarvindsprófana á farþegaþotum, má pottþétt komast töluvert lengra á hleðslunni.
EV/HV stilling er næsti möguleiki; ekið er á rafmagni og bensínvélin kemur sjálfkrafa inn eftir þörfum. Þá er að nefna HV stillinguna en þar styður bensínvélin við hleðslu inn á rafhlöðuna.
Hér er alveg gráupplagt að vísa í aðra grein á Bílabloggi þar sem tæknilegir þættir tengitvinnkerfa eru úskýrðir.
Eiginleikarnir sem í ljós komu
Nú hefur verið stiklað á stóru um tæknileg atriði og þá er komið að því skemmtilegasta: Hvernig ég heillaðist af tveimur bílum í einum og sama reynsluakstrinum!
Fyrst ók ég í baneitraðri svifryksmettaðri mollu höfuðborgarinnar á rafmagni einu saman. Daginn fyrir hrakviðrið. Þetta var á háannatíma og héldu viðkvæmir sig innandyra vegna mengunarinnar. Þá var dásamleg tilfinning að aka hljóð- og mengunarlaust út úr lítt gagnsærri svælunni með það í huga að ekki ætti maður þátt í að bæta í óloftið. Á fínum skjám úr ökumannssætinu mátti meira að segja fylgjast með hversu góða hluti við Across vorum í sameiningu að gera fyrir umhverfið. Já, nú er ég orðin væmin! En þetta var upplifunin af því að aka bílnum í umhverfisvænni stillingu, þ.e. í ECO og EV. Þetta átti vel við mig.

Þá er það næsta akstursstilling sem Across býr yfir og er hún hefðbundin (Normal stilling). Svo sem ekkert meira um það að segja.
Svo kom skemmtilegur og eldsprækur bíll í ljós þegar Sport stillingin var notuð. Vá! Þetta var æðislega skemmtileg upplifun því þetta er svo gjörólíkt. ECO stillingin er rosalega vel hugsuð og frábært að nýta hana innanbæjar og eins mikið og mögulegt er. Síðan er það þessi virkilega lipri bíll, eins konar felusportari! Gripið náttúrulega frábært og ekki amalegt að geta „svissað“ yfir í nánast allt annan bíl.
Eyðslan var að jafnaði 6,3 L/100 km en rauk vissulega upp þegar aðeins var gefið í. Þá sáust hærri tölur sem ekki eru marktækar þar sem maður leikur sér auðvitað ekki eins og asni í umferðinni!

Þarf ekki kallkerfi til að eiga samskipti
Við fjölskyldan tölum iðulega mikið saman þegar við förum í bíltúr. Nema þegar fréttir eru. Þá er oft „skrúfað frá“ útvarpinu (eins og afi sagði alltaf).
Sá sem situr aftur í bílnum á það til að detta hratt og örugglega út úr samtalinu (oftast sonurinn sem er svo óheppinn að þurfa að sitja þar) og missir af öllu því sniðuga sem skemmtilega fólkið í framsætunum ræðir um.

Í Across var þetta ekki vandamál og segir sonur kampakátur á Reykjanesbrautinni: „Nei sko! Ég heyri í ykkur. Heyrið þið vel í mér líka?“ Og jú, það gerðum við!
Nú kann einhver að hugsa að blessað barnið hafi mátt þola að skrölta um í bölvuðum skrjóðum og traktorum með peltor fyrir eyrum til að hljóta ekki varanlegan skaða af. Nei, það er ekki þannig þó að maður hafi átt þá misjafnlega góða bílana. Veghljóð í bílum í þessum stærðarflokki gerir það oft að verkum að lítið heyrist á milli „farrýma“. Það er gaman að greina frá því að hér er það ekki vandamál.
Með fangið fullt að opna afturhlera
Sjálf þoli ég ekki verslunarferðir og þykir óheyrilega leiðinlegt að brölta á milli búða með pakka og pinkla. Hvað þá að koma að bílnum og þurfa að byrja á því að leggja herlegheitin frá sér til að finna lyklana og opna afturhlerann. Sérstaklega er þetta sóðaverk í slabbi og tilheyrandi saltpækli höfuðborgarsvæðisins um vetur.
Across opnar afturhlerann ef sá sem lyklavöldin hefur (lykill/fjarstýring má vera lengst ofan í vasa eða jafnvel ferðatösku, ef því er að skipta) laumar fæti létt undir afturstuðarann miðjan og hlerinn opnast einn-tveir-og-þrír. Reyndar virkaði þetta ekki alltaf þegar þetta var prófað – kannski af því ég var í svo ljótum skóm seinni daginn…
Hlýtt stýri og sætishiti fyrir alla
Það er algjör munaður að geta kveikt á stýrishitara. Across er með svoleiðis og það sem meira er; það er hiti í fram- og aftursætum! Það er oft eins og „annað farrýmið“, þ.e. farþegarýmið aftur í, þurfi ekkert að vera notalegt. Það er fúlt ef það er í notkun á annað borð.

Í þetta skiptið (gleymdist síðast) prófaði undirrituð að planta sér aftur í og það fór vel um mig. Ekki dvaldi ég þar lengi enda hefði það verið undarlegt í miðjum reynsluakstri en það ætti ekki að væsa um farþega. Svo mikið er víst.
Í heildina litið
Þegar allt kemur til alls þá tókst ekki að finna alvarlega galla á Suzuki Across í þessum reynsluakstri en nokkuð greiðlega gekk að finna kostina. Jú, einn ókostur er fjarlægð aðgerðarhnappa frá ökumanni. T.d. miðstöðin, sætishitari og fleira sem virtist í órafjarlægð og truflaði athyglina eilítið. Ekki skal útiloka að þetta venjist skjótt eins og svo margt annað sem nýtt er.

Árekstrarvari, blindblettavari, veglínu- og skiltalesari og svo margt annað er í bílnum til að auka öryggi ökumanns og farþega. Rúmgóður er hann og 490 L farangursrýmið ætti t.d. að henta fjölskyldufólki vel.
Verðmiðinn á Across er 8.590.000 kr. Svo við berum saman verð á sambærilegum bílum þá kostar Mitsubishi Outlander PHEV frá 5.190.000 kr. til 6.190.000 kr. Ford Kuga tengitvinnbíll fæst eingöngu framhjóladrifinn og því ekki í sama flokki en sá kostar frá 5.390.000 kr. til 6.490.000 kr. Kia Sorento Hybrid kostar frá 10.390.977 kr. en væntanlegur er á markað Kia Sorento PHEV og liggur verð ekki fyrir.
Ljósmyndir: Óðinn Kári og Malín Brand.