Toyota lærði margt af heimsreisu
NAGOYA, Japan – Ef hlutirnir hefðu gengið að óskum, þá hefði hópur Toyota bifreiða snúið aftur til Tókýó í þessum mánuði [september 2020] í aðdraganda sumarólympíuleikanna 2020 og þar með hefði Toyota lokið fordæmalausum sjö ára þolakstri um fimm heimsálfur.
Automotive News Europe segir okkur í dag söguna af þessari „heimsreisu“.
Þess í stað kom COVID-19 heimsfaraldurinn upp og ekki um annað að ræða en fella niður sumarólympíuleikana auk þess sem stytta þurfti þessa heimsreisu, sem Toyota kallaði „Five Continents Drive“ eða akstur um fimm heimsálfur, og þar með var síðasti áfanginn heim til Japan í styttri kantinum.
Þetta var sérstaklega óskemmtilegt fyrir Toyota vegna þess að þar sem fyrirtækið var aðalstyrktaraðili Ólympíuleikanna átti þetta að vera árið þeirra á alþjóðavettvangi.
Toyota hafði úrval af vélmennum, rafknúnum ökutækjum og öðrum „gizmóum“ til að sýna og heimkoman úr heimsreisunni átti að vera lokapunkturinn.
„Það er virkilega leitt,“ sagði Hiroshi Yokoyama, vörumerkjastjóri Gazoo Racing Co. hjá Toyota, akstursíþróttadeildinni sem hafði umsjón með akstursáætluninni. „En vegna kórónaveirunnar höfðum við ekkert val.“
En jafnvel þótt akstur Toyota hafi þurft að hætta skyndilega, er stærsti framleiðandi Japans upptekinn við að halda andanum lifandi. Nú kemur áfangi tvö: Að safna saman því sem menn lærðu af þessu og samræma þann lærdóm og smíði ökutækja sem passa betur við fjölbreytta markaði og viðskiptavini heimsins.
111.500 kílómetra akstur um fimm heimsálfur var hugarfóstur stjórnarformannsins Akio Toyoda í viðleitni til að innræta hugarfar hans, sem eru „betri bílar“, með áhrifameiri hætti í fyrirtækinu. Samkvæmt Toyoda kenna vegirnir fólkinu og fólkið smíðar bílana.
„Þú hefur upplifað veginn, bílana og fólkið sem notar þá, með eigin skynfærum,“ sagði hann við þátttakendur eftir heimkomuna úr akstrinum 2017. „Ekki treysta eingöngu á gögn. Ég vil að þú takir það sem skynjaðir með eigin skilningarvitum, takir raunverulegan kjarna hlutanna og notir það til að smíða sífellt betri bíla.“
Prógrammið náði til hundraða japanskra starfsmanna Toyota og staðbundinna samstarfsaðila og flutti þá um allan heim til að aka vegi hverrar heimsálfu á nokkrum árum. Ævintýrið hófst árið 2014 með Ástralíu og færðist síðan um Norður-Ameríku, Suður-Ameríku, Evrópu og Afríku. Í fyrra [2019] ók Toyota um Asíu, frá Mið-Austurlöndum til Indlands og Suðaustur-Asíu.
Árið 2020 beindist ferðalag Toyota að Kína, Suður-Kóreu, Mongólíu og Taívan áður en ferðahópurinn myndi snúa aftur til Japans til að koma saman í Tókýó í ágúst fyrir Ólympíuleikana og Ólympíuleika fatlaðra. En þegar COVID-19 kom til sögunnar var þessum síðasta leikhluta hætt áður en hann hófst.
Mikið lært af ferðalaginu
Þrátt fyrir snemmbúin ferðalok var árangurinn glæsilegur. Síðan 2014 tóku meira en 700 manns þátt í áætluninni og yfir 270 ökutæki – frá Land Cruiser og Tundra, til Camry og Corolla.
Liðsmenn hópsins óku í gegnum 55 lönd, allt frá norðurheimskautssvæðinu og svellandi eyðimörkum að vindsorfnum fjallstoppum og frumskógum til borga (menn frá Automotive News Europe tóku þátt í kafla þar sem ekið var um í Andesfjöllum í Argentínu). Liðsmenn skráðu minnispunkta, tóku myndir og myndbönd til að gera grein fyrir hverjum áfanga fyrir starfsbræður heima.
Aksturinn gaf tilefni til fjölda endurbóta:
- Bæta við nýjum síls á Corolla til að auðvelda þrif.
- Bæta við svampi á framhornin í sumum ökutækjum til að draga úr vindhávaða.
- Notkun á hitara á millimetra ratsjár til að koma í veg fyrir að þær frjósi.
En forsvarsmenn Toyota segja að raunverulegur ávinningur sé óáþreifanlegur. Verkfræðingar, sölufólk, vöruáætlunarmenn og „baunateljarar“ frá Japan komust í snertingu við smekk, kröfur og aðstæður vinnufélaga, viðskiptavina og söluaðila á fjarlægum svæðum, fjarri heimsveldi Toyota. Aksturinn bætti samskipti, stuðlaði að félagsskap og gerði einn stærsta bílaframleiðanda heims aðeins minni. Mikilvægast er að þetta fékk fólk út og það ók – það gerði fólk næmara fyrir bílunum og viðskiptavinum.
„Þetta var raunverulegur vilji stjórnarformannsins, að fá fólk til að vinna út fyrir landamæri og fægja skynjarana,“ sagði Harold Archer, verkefnastjóri sem skipulagði aksturinn og tók þátt í öllum heimsálfum. „En ef þú elskar ekki bíla og notar þá ekki geturðu ekki gert þá betri.“
Að dreifa andanum
Toshiyuki Sekiya, 44 ára, einn af eldri reynsluakstursmönnunum, ver mestum tíma sínum í að meta virkni og afköst bíla á Higashi-Fuji prófunarbraut Toyota nálægt Fuji-fjallinu. Hann varði að jafnaði 15 mínútum inni í bílunum sem hann var að prófa.
Síðan gekk hann til liðs við fólkið sem tók þátt í akstrinum um heimsálfurnar fimm og var þá settur undir stýri í mánuð á erlendum vegum og ók allt að 700 kílómetra á dag.
Hann uppgötvaði til dæmis að í Japan eru krókóttir vegir með lágan aksturshraða algengir. En í öðrum löndum er reglan önnur, beinir vegir með hratt umferðarflæði. Og ólíkt því sem er í Japan, þar sem vegirnir eru óaðfinnanlegir og hljóðlátir, þá eru erlendir vegir grófari og mynda miklu meira hljóð inni í bílnum.
Það sem hann lærði af þessu: Erlendir markaðir hafa meiri þörf á stöðugleika í akstri og hljóð í innanrými en viðskiptavinir í Japan.
„Mesti lærdómurinn var sá að ég gat séð framan í viðskiptavini okkar um allan heim,“ sagði Sekiya, sem ók um allar heimsálfur frá 2014 til 2019. „Áður var ég aðeins að ímynda mér aðstæður þeirra. Nú eru andlit viðskiptavina okkar sýnileg. Þú gætir sagt að hér hafi orðið forgangsbreyting.“
Næsta stóra verkefni Toyota verður að dreifa þessum lærdómi um allt fyrirtækið.
Reynsluboltar eins og Sekiya verða að kenna með dæmum og miðla af reynslu sinni. Yokoyama sagði að engin áform væru um að skipuleggja annan svona akstur um fimm heimsálfur, að minnsta kosti ekki af þessari stærðargráðu. Toyota hefur ekki gefið upp kostnaðinn en útgjöldin voru umtalsverð í heild- frá því að fljúga starfsmönnum til áfangastaða víðs vegar um heiminn til að taka sér tíma frá venjulegum störfum.
Einn valkostur gæti verið svæðisbundinn akstur á vegum dótturfélaga á staðnum, sagði Yokoyama.
Næsti akstur á tunglinu?
Annað gæti sannarlega verið utan þessa heims: Toyota leggur metnað sinn í það sem þeir kalla „sjöttu heimsálfuna“ – tunglið. Sá metnaður hvílir á áætlun Toyota um að senda sexhjóla ökutæki, sem framleiðandinn kallar Lunar Cruiser, þangað árið 2029. Villtasta ferðin enn er rétt að byrja.
Umræður um þessa grein