Toyota efast um að rafbílar séu eini rétti kosturinn
Stjórnarformaður Toyota nefnir „þögulan meirihluta“ sem rök gegn framtíð með eingöngu rafbíla
Umskiptin yfir í rafbílaöld virðast vera komin á beina braut sé horft á velgengni Tesla, en hinn rótgróni bílaframleiðandi Toyota er enn ekki fullkomlega sannfærður um að rafbílar séu eina leiðin fram á við.
Í nýlegum ummælum sagði Akio Toyoda, stjórnarformaður Toyota, að hann væri hluti af „þöglum meirihluta“ bílaiðnaðarins sem efast um einhliða framgang á rafknúnum ökutækjum.
Fjölmargir bílaframleiðendur fjárfesta um þessar mundir mikið í rafknúnum bílum, sem hefur verið stutt af mikilli eftirspurn eftir þeim takmarkaða fjölda rafbíla sem nú eru fáanlegir á markaðnum.
Hins vegar hafa komið fram nokkrar áskoranir fyrir vaxandi rafbílageira, svo sem að tryggja íhluti og hráefni fyrir rafhlöður rafbíla.
Mikil eftirspurn eftir rafbílum hefur einnig leitt til þess að verð á rafbílum hefur hækkað á þessu ári.
Í heimsókn til Tælands, virtist stjórnarformaður Toyota harma áherslu iðnaðarins á framtíð sem byggist eingöngu á rafbílum.
Toyoda benti á að fólk í bílaiðnaðinum væri í raun „þögull meirihluti“ og þeir velta því fyrir sér hvort rafbílar séu í raun eina leiðin fram á við.
Þar sem rafbílar eru stefnan núna, tók Toyoda hins vegar fram að „þögli meirihlutinn“ gæti í raun ekki talað hreint út.
„Fólk sem tekur þátt í bílaiðnaðinum er að mestu leyti þögull meirihluti”.
Þessi þögli meirihluti veltir því fyrir sér hvort það sé í raun í lagi að hafa rafbíla sem einn valkost.
En þeir halda að þetta sé þróunin, svo þeir geta ekki talað hátt,“ sagði Toyoda.
Á meðan aðrir gamalreyndir bílaframleiðendur eins og General Motors (GM) og Honda hafa sett sér markmið um að bílaframleiðsla þeirra mun eingöngu samanstanda af rafbílum, hefur Toyota þess í stað valið að sækjast eftir fjölbreyttu úrvali farartækja sem innihalda vetnisknúna bíla og tvinnbíla.
Toyota hefur ekki skuldbundið sig til að skipta yfir í alrafmagnaða línu.
Efasemdir stjórnarformanns Toyota í garð rafknúinna farartækja hafa vakið áhyggjur meðal fjárfesta og neytenda um að hinn rótgróni bílaframleiðandi gæti verið á eftir öðrum í þróun rafbíla.
Á helstu mörkuðum eins og í Bandaríkjunum hefur Toyota verið áberandi hægari en keppinautar þeirra að kynna rafknúnar gerðir.
Þar sem Toyoda er opinskár um fyrirvara sína um alrafmagnsbíla, hefur Toyota hins vegar lýst áformum sínum um að taka rafbíla alvarlega.
Seint á árinu 2021 benti fyrirtækið á að það ætlaði að eyða allt að 35 milljörðum dollara í rafbíla-línuna sína. Viðleitnin lenti hinsvegar á einhvers konar hraðahindrun, ef svo má að orði komast, þar sem alrafmagnaður crossover Toyota, bZ4X, lenti í vandræðum í kjölfar innköllunar á hjólabunaði ökutækisins, þar sem felgur gætu dottið af meðan á notkun bílsins stendur.
(vefur Auto Spies)
Umræður um þessa grein