Top Gun aðdáandinn Hamilton á hvolfi
Þetta er flókið mál! Enda er Lewis Hamilton ekki vanur að vera á hvolfi en hér á myndinni er hann engu að síður á hvolfi í þotu af gerðinni Aero L-39 Albatros.
G-krafturinn er mikill og þó um sjöfaldan heimsmeistara í Formúlu 1 sé að ræða þá eru lögmálin öðruvísi og „G-in“ fleiri en í kappakstrinum. Nema hvað! Hamilton hefur sagt frá því að hann hafi dreymt um að fljúga herþotu (orrustuþotu) frá því að hann var pjakkur. Þess vegna þótti honum ekki leiðinlegt að fá að vera með í auglýsingu fyrir IWC-úr (Top Gun útgáfuna) og fara aðeins á flug (og í flug).
Hamilton er mikill Top Gun aðdáandi og reyndar hafði Tom Cruise lofað honum hlutverki í Top Gun: Maverick og átti ökumaðurinn að leika flugmann. En það gekk ekki upp því tökudagar og keppnisdagatalið stönguðust á. Um það má lesa í nýlegu viðtali sem birtist í Vanity Fair.
Við tökur á meðfylgjandi myndbandi er sagt að Hamilton hafi misst meðvitund því hann hafi ekki gert öndunaræfingar eins og honum var uppálagt en ég fann nú ekki áreiðanlegar heimildir fyrir því. Hvernig sem því var háttað virðist Hamilton kátur í myndbandinu.
Umræður um þessa grein