Töffari, hlaðinn tækni og búnaði.
Við skruppum í bíltur á föstudags eftirmiðdegi nú í ágúst á þessum skemmtilega, mjúka töffaralega Citroen C3 Aircross. Hann lætur ekki mikið yfir sér en það breytist fljótt þegar maður sest inn, setur í gang og byrjar að aka honum.



Sniðuglega hannaður
Citroen fer ekki troðnar slóðir frekar en fyrri daginn enda bíllinn einstaklega sniðuglega hannaður og með að leiðarljósi að hafa nauðsynlega hluti svolítið öðruvísi. Tökum sem dæmi ljósin. Aðalljósin eru staðsett undir LED dagljósum og horfa á mann eins og saklaus augu ef maður stendur fyrir framan bílinn. Reynsluakstursbíllinn okkar var af SHINE gerð sem er dýrari gerðin af þessum þekkilega bíl en hann kemur með 17 tommu álfelgum sem undirstrika sérstaka fegurð bílsins með stóru striki.



Vel búinn tæknilega
Helsti staðalbúnaður í Citroen C3 Aircross er meðal annars ökumannsvaki sem skynjar aksturslag ökumanns miðað við merkingar á akbraut. Þannig gefur bíllinn ökumanni aðvörun ef ökulagið er ekki eins og það best getur verið. C3 Aircross er einnig búinn brekkuaðstoð sem hjálpar ökumanni að taka af stað í brekku.

Veglínuskynjari er búnaður sem kikkar inn ef ökumaður fer yfir akreinamerkingar og heldur þannig ökulaginu eins og það á að vera. Loftkæling með frjókorna og mengunarsíu og kælingu í hanskahólfi. Við héldum til dæmis kókinu köldu á meðan við vorum að reynsluaka þannig að það var ískalt með pulsunni á leiðinni heim. Við erum að tala um rafdrifna og upphitaða spegla og í SHINE útgáfunni eru rafdrifnar rúður afturí með klemmuvörn.
Yndi í akstri
Citroen C3 Aircross er yndi í akstri. Bíllinn er dúnmjúkur á malbiki og töffari á möl. Við tókum snúning á bílnum á malarkafla í Heiðmörkinn og prófuðum aksturstillingarnar sem eru í boði í SHINE útgáfunni. Hægt er að velja um akstursstillingar fyrir snjó, mjúkan jarðveg eins og sand og holóttan og harðan jarðveg sem virkaði mjög vel á Heiðmerkurveginum enda eins og þvottabretti. Stýrið er ef til vill full létt á grófari vegyfirborði en skapar frábærar akstursupplifun á malbkinu.

Vélin passar bílnum
Vélin í þessum smá sportjeppling er svo sem enginn kettlingur en hún er 1,2 ltr. þriggja strokka PureTech vél sem Citroen hefur haft í boði undanfarin ár og reynst vel. 1,2 bensínvélin er að gefa 110 hestöfl og sjálfskipti bíllinn er eyða um 5,7 ltr. á 100 km. Beinskipti bílinn er að eyða um 4,8 ltr. á 100 km. Um er að ræða blandaðan akstur. Citroen C3 Aircross er einnig fáanlegur með 1,6 Blue Hdi dísel vél sem er 1,6 ltr. fjögurra strokka dísel vél og gefur um 100 hestöfl. CO2 á bensínbílunum er frá 109 og upp í 131 gr. á km og 105 gr. á km í dísel vélinni.

Aksturseiginleikar Citroen C3 Aircross er með eindæmum skemmtilegir. Hann heldur vel við í beygjum og fjöðrunin nægilega stinn til að manni finnist bílinn ekki svagur. Stýrið er nákvæmt og sjálfskiptingin er æði. Citroen hefur uppfært sjálfskiptinguna og núna er hún silkimjúk og nákvæm.

Ekkert plássleysi
Innarými í Citroen C3 Aircross er eins og að setjast inn í mynd tekna með víðlinsu. Sætin eru breið og djúp og halda sérlega vel við. Bíllinn er þannig hannaður að þú situr hátt og eins og á stól og gott pláss í allar áttir fyrir fætur og hendur.
Citroen C3 Aircross er bíll á snjalltækjaöld og er búinn 7 tommu upplýsingaskjá með öllu því helsta eins og Apple Carplay, Android Auto, Mirror Link tengibúnaður við snjallsíma, blátannarbúnaði, tölvustýrðri miðstöð og leiðsögukerfi. Skjárinn er þægilegur og hægt að breyta stemningu hans með mismunandi litastillingum. Mælaborðið er stílhreint og í miðju þess er upplýsingaskjár fyrir stjórnkerfi bílsins. Bakkmyndavélin er skýr og með hjálparramma.

Fimm fullorðnir í bíltúr
Plássið afturí er ekki af verri endanum. Við buðum vinum og vandamönnum í bíltur og fylltum bílinn af fólki og tókum rúnt niður í miðbæ. Vel fer um fimm fullorðna í bílnum. Hann er búinn Isofix barnabílstólafestingum og hægt er að fella niður aftursætin 40/60. Miðjustætið aftur í er með opnun fyrir skíði eða golfkylfur. Glasahaldarar frammí mættu þó vera dýpri og þarf maður að teygja sig óþarflega langt í hólfin. Einnig söknuðum við armpúða í framsætunum, þeir eru svo þægilegir.
Brimborg býður Citroen C3 Aircross með veglegum búnaði en þó má alltaf bæta við þægindin. Til dæmis er hægt að panta sem aukabúnað, lyklalaust aðgengi, þráðlausa símhleðslu, framrúðuskjá (Head up display) og panorama glerþak með sóllúgu svo eitthvað sé nefnt. Einnig er hægt að sérpanta flottar litasamsetningar, orange, silver og white ásamt fjórum mismunandi innréttingapökkum.

Helstu tölur:
Verð frá: 3.490.000 kr. (SHINE reynlusakstursbíll 4.040.000 kr.)
Vél: 1.200rms
Hestöfl: 110 við 6.000 sn.
Newtonmetrar: 205 við 1.500-3.200sn.
0-100 k á klst: 11,8 sek.
Hámarkshraði: 187 km
CO2: 131 g/km
Eigin þyngd: 1.203kg
L/B/H 4155/1768/1648 mm
Eyðsla bl ak: 5,7 l/100 km
?