Þýskur snillingur sem klikkar ekki

Tegund: BMW I4 eDrive 40

Árgerð: 2023

Orkugjafi: Rafmagn

Aksturseiginleikar, hönnun, drægni, tækni
Verð, höfuðpláss afturí
227
DEILINGAR
2.1k
SMELLIR

Nú streyma inn rafbílar á markaðinn sem aldrei fyrr. Jafnt nýir sem rótgrónir framleiðendur reyna nú allt til að standast kröfur markaðarins sem eru orðnar ansi stífar.

Við erum í rauninni að tala um tölvur á hjólum og stærri skjár í bílnum því betri er hann og vinsældirnar ógurlegar.

Flottur bíll eins og BMW er von og vísa.

En hvað er það sem gerir að verkum að milljónir manna velja einn bíl framyfir aðra? Í dag er það svo að kaupferlið er orðið það gegnsætt að enginn sölumaður getur einn og sér logið inná þig vöru sem stenst ekki kröfur markaðarins.

Við erum orðin svo vel undirbúin fyrir kaup að við tökum upplýstar ákvarðanir.

I4 er glettilega líkur hefðbundnum BMW þó svo að hann sé að fullu rafdrifinn.

Auðvitað spilar svo nýjungagirni, verð og tíska inní að auki.

Byggður á gömlum grunni

Þriðji þátturinn er síðan bifreiðin sjálf, hvernig er að aka henni, hvernig er hún smíðuð, hvernig er kramið, hvernig er sagan og umboðið?

Bílaframleiðendur beggja megin Atlantsála geta margir státað af góðu orðspori í öllum ofangreindum atriðum. Sumir betur en aðrir.

„Nýrna-lúkkið” er á sínum stað en nú með bláum ramma í kringum til að undirstrika rafaflið.

BMW I4 er einn besti akstursbíll af rafmagnsgerð sem undirritaðir hafa ekið. Það er ansi góðu einkunn eftir að hafa ekið til dæmis Tesla Model 3, Polestar, Kia EV 6, Hyundai Inoiq 5 og fleiri nýjum rafbílum á markaðnum.

Gunnlaugur Steinar Halldórsson reynsluekur BMW I4. Okkur bar saman um að hér væri bíll í sérflokki á ferð.

Sönn akstursánægja

Við erum að tala um meiri akstursánægju, akstur sem er líkari því sem við eigum að venjast í bíl með venjulega brunavél – eitthvað sem aðrir framleiðendur hafa ekki komist með tærnar þar sem BMW er með hælana – allavega í IX og I4.

Öll svörun bílsins er nánast óaðfinnanleg, hröðun, stýri og meðhöndlun.

Eina sem við sjáum sem hindrun er verðið – það er mun hærra en á bílum samkeppnisaðila.

Útlitið er sportlegt enda BMW ekki þekktir fyrir annað rennilega bíla.

Annað sem deila má um er rými. Ef við miðum við Polestar 2 er þessi bill með meira flótaplássi frammí, en þrengri en Tesla Model 3. Hins vegar eru sætin mjög vel formuð, hægt að lengja setur og setur í aftursætum eru djúpar og þægilegar.

Það er líka stokkur í miðjunni afturí sem gerir að verkum að síður fer vel um fimm fullorðna í bílnum en rafbílum með slétt gólf.

Fínt pláss. Afturhlerinn opnast þrælvel. Þokkalegt að ganga um skottið þó svo að það sé stallur ofan í það.

BMW I4 er byggður á fjarka fyrirtækisins sem aftur er byggður á þristinum. Það þýðir að við erum með bíl sem líkist meira hefðbundnum BMW en einhverju framúrstefnulegu rafmagnslúkki.

Það eitt er plús því alla jafna býður BMW upp á flotta og sportlega bíla.  IX er það svo sannarlega.

Vel búin grunngerð

I4 er svo sannarlega vel búinn bill. BL býður bílinn í tveimur útfærslum, 40 gerð og M50. Báðir eru búni 84 kWst. rafhlöðu en grunngerðin er með einum mótor og drifi að aftan.

Sá er um 340 hestöfl og með tog upp á 430 Nm. M50 bíllinn gefur 544 hestöfl og togið um 790 Nm.

Þú getur svo krossað við helling af þægindastöffi í pöntunarferlinu en þú þarft að borga vel fyrir það flest.

Reynsluaksturbíllinn var búinn sætaáklæði úr ljósu Sensatec leðurlíki. Sætin eru góð, halda sérlega vel við og seturnar breiðar og þægilegar.

Afturí er fínt pláss svo fremi að þú sért ekki hærri en 187 sm. Ég myndi ætla að stærri einstaklingur reki höfuðið uppundir. Sætin eru þægileg afturí eins og frammí.

Drægni sem telur

Drægnin fer að sjálfsögðu eftir því hvernig bílnum er ekið, aðstæðum og ýmsum öðrum þáttum en uppgefin drægni á grunngerðinni er 590 km. sem verður að teljast nokkuð gott skv. WLTP staðlinum.

Inni á EV database síðunni er talað um að í mildu veðri og borgarakstri komist bíllinn allt að 740 km.

Stysta mögulega drægni er miðuð við hraðbrautarakstur í köldu loftslagi en þá erum við að tala um 340 km. Það er svipuð tala og raundrægni Audi Etron 55 er hér á landi miðað við venjulegt sumarverður.

Drægnin á þessum bíl er því svo sannarlega athygliverð.

Hægt er að lengja seturnar þannig að þú fáir stuðning undir hnésbæturnar. Það er sérlega þægilegt á lengri ferðum.

Innréttingin í BMW er eins og BMW er von og vísa, vel byggð, efnisval til fyrirmyndar og frágangur uppá 10.

Við sáum alveg hart plast, til dæmis í miðjustokknum en er það ekki nánast í öllum nýjum bílum í dag – mismunandi mikið reyndar.

Kerfi sem virkar

Fyrir framan ökumann trónir langur skjár, mælaborðsskjár uppá rúmlega 12 tommur og í heildina er tæplega 15 tommu panorama skjár ofan á mælaborðinu.

Þar er allt nokkuð hefðbundið, vel sjáanlegar akstursupplýsingar, ágætur skjár fyrir leiðsögukerfið og nýjasta iDrive fyrir margmiðlunarkerfið.

Skjárinn svipar til skjánna í Mercedes. Margmiðlunarkerfið er þræleinfalt, hraðvirkt og hægt að stjórna því úr miðjustokknum með iDrive snúningstakkanum.

Aðalatriðið varðandi stjórnkerfi bílsins er að í miðjustokknum býður iDrive upp á snúningsskífu sem auðveldar allt aðgengi að skjá bílsins.

Vinstri hlut stýrisins er síðan fyrir akstursaðstoðarkerfin á meðan hægri hluti þess er með stýringu á síma og þessháttar búnaði.

Góður kostur en dýrari

Niðurstaðan er að hér er frábær rafdrifinn fólksbíll á ferðinni með toppaksturseiginleika.

Þessi bíll hentar án efa mörgum en ekki má samt gleyma að hann er liggur frekar lágt og gæti reynst sumum erfiður inngöngu – en sama má þó segja um keppinauta eins og Tesla Model 3 og Polestar 2.

Myndband

Helstu tölur

Verð: frá 9.900.000 kr. til 12.290.000 kr.

Afl mótors: 340 hö.

Tog: 430Nm.

Drægni: 590 km. skv. WLTP staðli

Hleðslugeta: 200 kW á klst.

Hleðslugeta með heimastöð: Allt að 11 kW á klst.

Stærð rafhlöðu: 84 kWst.

Lengd/breidd/hæð: 4.783/1.852/1.448 mm.

Myndir eru skjáskot úr myndbandi.

Myndband er tekið á Samsung S21 Ultra.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar