BYD í Kína ætlar að sækja fram í Evrópu með 3 rafknúnum gerðum
Viðmið BYD í Evrópu eru vörumerki eins og VW og Hyundai/Kia
HAAG – Kínverski bílaframleiðandinn BYD, einn af stærstu söluaðilum heimsins á rafbílum, mun auka framboð sitt í Evrópu frá og með þessu ári með þremur gerðum: Atto 3, litlum crossover, Tang stærri fjölnotajeppa og Han stórum fólksbíl, sögðu stjórnendur.
Samkvæmt frétt Automotive News Europe byrjaði BYD að selja Tang (á myndinni hér að ofan) í tilraunaskyni í Noregi í ágúst 2021. Í fyrsta áfanga markaðsóknarinnar mun sala hefjast í næsta mánuði í Belgíu, Danmörku, Hollandi, Svíþjóð, auk Ísrael. Annar áfangi, sem hefst fyrir árslok, mun verða á stærstu evrópsku mörkuðunum: Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi.
Fyrirtækið tilkynnti stefnuna í vikunni á viðburði í Haag, Hollandi, þar sem það bauð blaðamönnum reynsluakstur og aðgang að stjórnendum.
Engin verð fyrir Atto 3, Han eða sölumarkmið voru gefin upp; BYD sagði að frekari upplýsingar yrðu gefnar út í október á bílasýningunni í París, þar sem allar þrjár gerðirnar verða sýndar (sjá upplýsingarkassa hér neðar í fréttinni).
Brian Yang, aðstoðarframkvæmdastjóri BYD Europe, sagði að engin dagsetning væri ákveðin fyrir þriðja söluáfanga, sem myndi ná til ríkja eins og Ítalíu og Spánar, þar sem BYD hefur byrjað að byggja upp sölunet. Alþjóðleg stækkun BYD nær til Ástralíu og Japan, þar sem það er einnig að hefja sölu árið 2022.
Evrópulína BYD
* Tang stór sportjeppi: 86 kWh rafhlaða býður upp á 400 km samanlagt í WLTP drægni. Tveir rafmótorar framleiða samtals 380 kW. BYD hefur selt 2.216 í Noregi frá september 2021 til júlí 2022.
* Han stór fólksbifreið: 85 kWh rafhlaða býður upp á 521 km samanlagt í WLTP drægni; afköst eru 380 kW frá tveimur rafmótorum. BYD seldi 26.000 einingar í Kína í júlí einum.
* Atto 3 minni crossover: Búist er við að hann standi undir mestu af sölu BYD í Evrópu, hann er búinn 60 kWh rafhlöðu, hefur 420 km samanlagt í WLTP drægni og einn rafmótor sem framleiðir 150 kW.
Stjórnendur BYD lýstu staðsetningu vörumerkisins sem „aðgengilegu úrvali“. Fjórhjóladrifinn, 380 kW 7 sæta Tang er verðlagður í Noregi á jafnvirði 64.000 evra (rétt um 9 milljónir ISK); til samanburðar kostar 240 kW BMW iX rafmagnsjeppinn í Noregi um 86.500 evra eða sem svarar til 12,2 milljóna ISK.
Atto 3, sem búist er við að verði mest seldi BYD í Evrópu, er á nýjum grunni (e-platform 3.0) sem er með hefðbundinni varmadælu og rafdrifna aflrás sem samþættir mótor, inverter, rafeindatækni og innbyggt hleðslutæki. Verðið á kínversku útgáfunni af Atto 3, sem kallast Yuan Plus, byrjar í 22.500 evrum fyrir niðurgreiðslur (um 3,1 milljín ISK).
Yang sagði að viðmið BYD í Evrópu séu almenn vörumerki eins og Volkswagen og Hyundai/Kia, sem bæði hafa hleypt af stokkunum nýjum rafbílum á nýjum grunni á síðasta ári.
Hann sagði að helsta söluáhersla BYD gæti verið rafhlöðutækni fyrirtækisins. Fyrirtækið, sem var stofnað árið 1995 sem rafhlöðuframleiðandi og sneri sér aðeins að því að framleiða bíla árið 2003, er þriðji stærsti rafhlöðuframleiðandinn á eftir CATL og LG.
BYD var með tekjur upp á 31,4 milljarða evra árið 2021; það er skráð í kauphöllinni í Hong Kong og hefur markaðsvirði um 120 milljarða evra, það þriðja hæsta á eftir Tesla og Toyota. Warren Buffett frá Berkshire Hathaway er stór fjárfestir, með hlut að verðmæti 8 milljarða dollara.
Í Evrópu mun BYD einnig keppa við fjölda kínverskra þátttakenda, sem margir hverjir eru eingöngu rafbílar. Meðal þeirra eru SAIC MG, Nio, Aiways, XPeng, Hongqi og Great Wall. Sérfræðingur hjá Matthias Schmidt sagði í þessum mánuði að kínversku vörumerkin gætu fundið sölumöguleika í almennum flokkum, byggt á því sem hann kallaði „vonbrigði” í hágæða rafbílasölu í Noregi, sem hefur mesta sölu rafbíla allra markaða í Evrópu og er oft notað sem prófunarsvæði fyrir rafbílamerki.
Stóri Tang sport jeppinn hefur verið til sölu í Noregi síðan í september 2021. Hann er með fjórhjóladrifi og 86 kWh rafhlöðu sem býður upp á 400 km samanlagt WLTP drægni.
Hefðbundnir „sölubílar“
Öfugt við suma bílaframleiðendur, eins og VW, Mercedes og Stellantis, sem eru að fara í átt að „umboðsmódeli“ með beinni sölu til að selja rafbíla, mun BYD nota útgáfu af hefðbundinni smásöludreifingu, sem það kallar „dealer+“. BYD mun starfa sem innflytjandi fyrir hvert land og vinna með einum eða fleiri stórum söluaðilahópum að því að setja upp sölukerfi.
Þessir söluaðilar hafa þegar verið valdir fyrir löndin í fyrstu stigum stækkunarstefnunnar: Louwman í Hollandi, Hedin Mobility Group í Svíþjóð og Þýskalandi, Nic. Christiansen Group í Danmörku, RSA í Noregi og Shlomo Motors í Ísrael.
Evrópski sölustjórinn Pere Brugal sagði að ferlið sé til dæmis nokkuð langt komið í Hollandi þar sem BYD valdi einn hóp (Louwman) fyrir sölu og eftirsölu/þjónustu. Brugal sagði staðsetningar með eingöngu BYD-bílum myndu opna fljótlega í völdum borgum, en þjónustu eftir sölu gæti verið deilt með öðrum vörumerkjum.
Koma væntanlega líka til Íslands
Vatt, dótturfyrirtæki Suzuki á Íslandi, hefur þegar hafið sölu á sendibílnum BYD T3, og því má reikna með því að ofangreindir bílar muni koma hingað líka.
Ekki náðist í Úlfar Hinriksson forstjóra Suzuki bíla, en hann er væntanlega staddur á kynningarfundi BYD í Hollandi. En samkvæmt samtali við sölumenn hjá Suzuki þá reikna þeir með því að bílarnir þrír komi hingað, en ekki er vitað hvenær þeir komi eða hve margir.
Bílablogg mun fjalla um það þegar nánari upplýsingar liggja fyrir.
Umræður um þessa grein