Þeir eru að breytast og það gerist hratt. Í ár munum við líklega sjá bíla sem okkur datt ekki í hug að myndu einu sinni vera annarsstaðar en í kvikmyndum eða hreinlega aðeins sem hugmyndasmíð.
Þessir eru sagðir á leiðinni – sumir jafnvel komnir inn á gólf hjá umboðum.
Kia EV5
Þetta er miðlungsstór jepplingur, mun minni en EV9 sem nýlega var kynntur. Hann hefur þegar verið kynntur í Kína en þar kostar bíllinn um 21 þúsund dollara. Drægnin á þessum bíl er frá 354 km. og upp í 482 km. eftir útfærslu.
Eitthvað verður þessi bíll dýrari í Evrópu.
Ráðandi í verði bílsins er að hann er búinn hinni byltingarkenndu „blade” rafhlöðu frá BYD en það fyrirtæki er sífellt að verða fyrirferðarmeira í bílaheiminum.
Í þessari Kiu getur þú spælt eggin þín aftur í ef þú ert í þannig stuði (sjá myndband).
Annars er Kia fyrirtækið að raða ansi mörgum nýjum bílum í EV línu sína. Áætlað er að bjóða enn minni sportjeppling sem heitir EV3 og EV4 sem er sambland af krossover og hefðbundum bíl eða það sem þjóðverjinn hefur kallað Sport Coupé.
Markmið Kia er að hasla sér völl í Bandaríkjunum enda eru stjórnvöld þar að bjóða skattaafslátt til að stækka rafbílaflotann.
Mercedes Benz
Mercedes ætla greinilega ekki að sitja eftir í rafbílaþróuninni. Undanfarin ár hafa þeir reyndar bara breytt gömlum Benzum í rafbíla en nú er öldin önnur. Hér kynna þeir CLA sem rafbíl og hann er hreint ekki illa útlítandi.
Þessi Benz er hugsaður til að keppa við Tesla Model 3 og er að svipaðri stærð.
CLA E er byggður á splunkunýjum rafbílagrunni Mercedes EQXX en sá er hugsaður til að koma bílnum sem lengst á sem minnstu rafmagni. Þeir segja 12 kWh á hverja hundrað kílómetra og á að komast eitthvað um 644 kílómetra á hleðslunni. Það er nú eitthvað.
Volvo EX30
Volvo kynnir splunkunýjan krossover sem hugsaður er fyrir meðaljóninn. Volvoinn er með 268 hestafla mótor og afturdrifi eða aldrifi og með næstum 450 hestöflum.
Sá á að komast um 442 km. á hleðslunni og þú getur komið honum í 100 km. á klst. á um 5 sekúndum.
Bíllinn verður að þokkalegu verði segir framleiðandinn eða um 35 þúsund dollara í Bandaríkjunum. Hann kostar frá 8,5 milljónum hjá Brimborg.
Tesla Model Y
Á að fá uppfærslu seinni hluta árs og verður væntanlega með „steer by wire” kerfi Cybertruck en það þýðir að engin tenging er milli stýris og hjóla heldur verður stýrið að fullu stafrænt. Það þýðir að þú snýrð stýrinu mun minna en áður.
Porsche Macan EV
Þessum er beðið eftir af bílaunnendum. Macan verður boðinn með einni eða tveimur aflrásum og á að geta gefið allt að 603 hestöfl með um 1000 Nm af togi.
Porsche segir að þessi bíll muni brjóta blað hvað afl og dýnamík varðar.
Long range útgáfa þessa bíls ætti að komast um 482 km. Macan er í raun krossover með nokkra af skemmtulegustu eiginleikum 911 bílsins.
Audi Q6 E-tron er áætlaður á árinu og nýr A6 avant E-tron (skutbíll) einnig.
Það er hins vegar risinn í austri sem er að vakna núna árið 2024 en Toyota hefur hannað línu af bZ bílum sem þeir ætla að kynna á árinu.
Þar erum við að tala um bíl eins og bZ3X sem er svipaður CHR í útliti og verður að segjast eins og er ansi flottur.
Innanrýmið er mjög flott og nær nýjum hæðum hvað Toyota varðar.
Skjáir verða kúptir og stýri eins og á einhverju framtíðarfyrirbæri. 58 kWh rafhlaða á að koma bílnum um 435 km.
Og verðið er bara nokkuð ljúft eða um 40 þúsund dollarar. Bíllinn á að fara í framleiðslu fyrir árslok 2024.
Við látum fylgja með ansi skemmtilegt myndband frá Future Lab en þar má sjá mismunandi skynsamlegar útfærslur af nokkrum rafbílum að auki.
Umræður um þessa grein