Þegar umferðarljósin komu til Íslands
Þriðjudaginn 25. október 1949 birtist eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu:
Byrjað að vinna við uppsetningu umferðarljósanna
„Í gærdag var byrjað að undirbúa uppsetningu hinna mjög svo langþráðu umferðarljósa.
Byrjað var á að brjóta upp göturnar og gangstéttarhellum lyft á þeim gatnamótum sem ljósin eiga að koma upp við.
Einhvern næstu daga er væntanlegur breskur sérfræðingur í umferðarljósmerkjum, en hann á að sjá um uppsetningu þeirra – óvíst er hve langan tíma þetta tekur.“
Ljósin tekin í notkun
Laugardaginn 5. nóvember 1949 kemur frétt í Morgunblaðinu með fyrirsögninni:
Umferðarljós auka öryggið
Nauðsyn að fara eftir þeim
Kveikt verður á ljósunum á þriðjudaginn
„Lögreglustjóri skýrði blaðamönnum frá því í gærkvöldi að næstkomandi þriðjudag verði hin nýju umferðarljós hér í miðbæ Reykjavíkur tekin í notkun. Einnig gerði lögreglustjóri nokkra grein fyrir þeim ráðstöfunum, er lögreglan hyggst koma á í miðbænum, í sambandi við breyttar umferðarvenjur með tilkomu umferðarljósmerkjanna.“
Í fréttinni kemur einnig fram að lögreglustjóri hafi lagt mikla áherslu á hið stórlega aukna umferðaröryggi sem umferðarljósin hefðu í för með sér.
Athyglisvert er að virkni ljósanna er vandlega útskýrð fyrir lesendum Morgunblaðsins þennan dag, enda var þetta nýjung í umferðinni:
Rauða ljósið: Öll umferð sem á móti því kemur, verður að nema staðar og bíða uns græna ljósið kviknar.
Gula ljósið: Kviknar sem snöggvast (logar í um það bil 4 sek.) en það táknar að komið sé að skiptingu ljósanna og að rýma verði gatnamótin áður en rauða ljósið kviknar og einnig að vegfarendur skuli vera reiðubúnir að halda ferð sinni áfram, þegar græna ljósið kviknar.
Græna ljósið: Táknar haldið ferð ykkar áfram, en með fullri varúð. Þegar fólk gengur inn á gangbrautirnar, skal það hafa gát á umferð bíla, sem aka kunna inn á gangbrautirnar.
Liðlega 72 ár frá fyrstu ljósunum í Reykjavík
Í dag eru liðin liðlega 72 ár frá því fyrstu umferðarljósin voru tekin í notkun á Íslandi en þau voru staðsett á gatnamótum Austurstrætis og Pósthússtrætis, og voru tekin í notkun árið 1949. Í beinu framhaldi komu svo ljós á þrenn önnur gatnamót í miðbæ Reykjavíkur; við Lækjartorg, á Laugavegi við Ingólfsstræti og Skólavörðustíg.
„Uppi var fótur og fit á Pósthússtrætishorninu“
„Það var uppi fótur og fit á Pósthússtrætishorninu skömmu fyrir hádegið í gærdag, þegar umferðarljósin voru reynd í fyrsta skipti. Vegfarendur námu staðar og sumir horfðu undrandi á nýjungina. Og margir lögðu orð í belg, sögðu sitt álit. Flestir töldu þetta harla gott, aðrir hristu höfuðið og leist auðsýnilega ekki á,“ sagði í Morgunblaðinu 3. nóvember 1949.
Fram kom að margir hefðu spurt „hvort ljósmerkin væru eingöngu fyrir bílaumferðina og ekkert hugsað um rétt fótgangandi,“ en greint frá því að fótgangandi ættu „sinn rétt og öryggi“ ef farið væri eftir settum reglum. „En ekki er hægt að stýra fyrir það, að samvinna verður eftir sem áður að vera milli ökumanna og fótgangandi. Þegar t.d. bifreið þarf að beygja inn á hliðargötu frá Austurstræti, fer ekki hjá því, að hún verði að fara yfir brautina, sem fótgangandi er ætlað. En ef varúðar er gætt, á það ekki að koma að sök.“
Í fréttum frá þessum tíma kemur fram að ljósin við Skólavörðustíg hafi verið tekin í gagnið þann 8. nóvember og þeir Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri og Einar B. Pálsson verkfræðingur, sem fylgst hafði með uppsetningu ljósanna hafi fylgst vel með þegar þau voru tekin í notkun. Margir vegfarendur hópuðust einnig að.
Voru ljósin talin „hin sanngjörnustu og stöðva engan lengur en bráðnauðsynlegt er til að viðhalda góðri reglu á umferðinni“ eins og segir í frétt Morgunblaðsins.
Var brýnt fyrir öllum ökumönnum að fylgja götuvitunum skilyrðislaust. Undan því voru þó þegnir slökkviliðsbílar, lögreglubílar og bifhjól. Í Vísi sagði: „Annars er mikil prýði að ljósunum, er rökkva tekur, þau setja nýjan og skemmtilegan svip á bæinn, og óhætt er að fullyrða, að menn myndu sakna þeirra, er þau hyrfu“.
Þar segir enn fremur að á þessum árum hafi átt sér stað miklar breytingar. „Fjöldi umferðarljósa og fjöldi bíla hefur margfaldast og einnig hafa átt sér stað gífurlegar tækniframfarir. Mikil þróun hefur átt sér stað í skynjurum, ljósabúnaði og stýringu ljósanna, en í dag er um helmingur umferðarljósa samstilltur um miðlæga stjórntölvu og með hjálp skynjara eru ljós aðlöguð umferðarþunga hverju sinni.“
Lengi hefur verið reynt að láta umferðarljós í Reykjavík stjórnast af aðvífandi umferð.
Í upphafi var ljósunum stýrt af umferðinni sem kom akandi að þeim. Fyrstu skynjararnir voru litlir gúmmípúðar sem voru felldir niður til hálfs í götuna og þegar bíll ók yfir skapaði það loftþrýsting sem sendi merki til stjórnbúnaðarins. Það má því segja að fyrstu ljósin í Reykjavík hafi þannig verið „loftstýrð“ en þau höfðu hins vegar þann galla að inn á kerfið lak vatn og umhleypingar og frost varð til þess að þessi stjórnbúnaður virkaði ekki alltaf sem skyldi. Litlu gúmmípúðarnir voru fjarlægðir um eða upp úr 1970 og síðan hafa „málmskynjarar“ undir malbikinu séð um það að skynja umferðina og stýra ljósunum þar sem það á við, en miklum hluta umferðarljósa í Reykjavík er stjórnað frá miðlægri stjórnstöð í dag
Svona var fjallað um innleiðingu ljósanna á sínum tíma, en enn í dag eru margir ekki sammála ágæti þeirra, telja að það megi samstilla þau betur þannig að ferðahraði verði betri og minni tafir verði í umferðinni.
En „rauði“ og „græni“ kallinn eru komnir til að vera.
Umræður um þessa grein