Þegar þú vilt ekki fjölskyldujeppa
Renault Espace er án efa einn best hannaði fjölskyldubíll sem völ er á. Meðfærilegur og þægilegur í umgegni, með sæti fyrir sjö.
Ef þú ferð einhvern tímann til Parísar er heimsókn á Louvre listasafnið skylda. Það og Eiffel turninn. Þetta tvennt lýsir vel frönskum áherslum, list og byggingarlist. Ég hefði því verið til í að vera fluga á vegg hjá Renault þegar að þeir ákváðu hver skyldi hanna nýjustu útgáfuna af Espace. Espace á frönsku þýðir pláss, og þú færð það í Renault Espace. Sjö sæti og ellefu gluggar. Já, ellefu. Þú myndir halda að þá ætti Espace að vera kallaður Aquarium, sem er franska fyrir fiskabúr, en síður en svo. Allt þetta gler gerir hann bjartan og einstaklega skemmtilegan að ganga um og aka. Hönnunin á bílnum lætur þig upplifa hann minni en hann er. Mælaborðið er hátt og nálægt bílstjóranum sem gerir það mjög auðvelt að ná í öll stjórntæki. Hönnunin á gírstönginni stóð upp úr fyrir mér og minnti mig á staf Jafars í Aladdín.
Nægt pláss fyrir allt og alla
Byrjum á að ræða þarfir nútíma fjölskyldu. Þú vilt sæti fyrir þig og börnin, vin barnanna og barnapíuna líka. Svo viltu koma fyrir íþróttatöskum, bílstólum og innkaupapokum. Þú vilt svo að bifreiðin sem hefur verið valin sem strætisvagn fjölskyldunnar sé þægileg í akstri, mengi lítið, eyði litlu og sé frjáls við að bila mikið og sé ekki stanslaust á verkstæði í þjónustuskoðunum. Espace svarar öllum þessum þörfum.
Byrjum frammí þar sem sætin eru tvö. Þau eru þægileg, koma með slakandi nuddi bílstjóramegin. Á milli þeirra er stjórnborðið sem geymir stjórntækin fyrir afþreyingakerfið og stórt geymsluhólf. Undir því er svo staður til að geyma veski, lykla og þessháttar ásamt glasahöldurum. Sniðugast þar er þó að finna hólf sérstaklega gert til að geyma síma. Þar er líka að finna SD minniskorta rauf til að hægt sé að spila tónlist af því eða jafnvel bíómyndir. Hanskahólfið er síðan í laginu eins og skúffa og er innblásin frá vissri sænskri húsgagnaverslun.
Næst fyrir aftan koma þrjú sæti, öll á sleðum svo hægt sé að færa þau fram og aftur. Þau tvö sem eru til hliðanna leggjast frammávið til að hægt sé að komast í öftustu sætaröðina. Sólargluggatjöld í hurðunum eru mjög þægileg ef ungabörn snúa afturábak og vilja ekki fá sól í andlitið. Þar er líka að finna tvö USB hleðslutengi.
Þriðja sætaröðin er svo með tvö sæti sem falla niður í gólfið í skottinu. Þau eru einkar einföld og þægileg í notkun og falla niður bara með því að ýta á einn takka. Reyndar á það við öll aftursætin, það er hægt að láta þau falla niður sjálkrafa. Stjórntakka fyrir það má finna á stjórnskjánum frammí eða vinstra megin í skottinu.
Skemmtilegur í umgegni
Ég get síðan ekki hætt að hrósa hönnuninni á Espace. Hægt hefði verið fyrir Renault að hafa hann mun kassalagaðri í hönnun. Allar línur eru mjúkar og engu er ofaukið. Að utan eru línurnar fáar en vel tengdar og að innan eru þær flæðandi og tengja saman form og virkni. Mælaborðið er með skemmtilega bogalínu frá byrjun framhurðanna og tengist hún síðan saman í miðju mælaborðinu. Um alla innréttingu og loft bílsins er að finna stemningslýsingu sem hægt er að skipta um lit á. Nokkrir litir eru í boði og ættu flestir að geta fundið sinn uppáhalds lit.
Hurðirnar opnast mjög vel á Espace og jafnvel með fullt fang af innkaupapokum og ungabarni var ekkert mál að ganga um bílinn. Renault er líka með besta lyklalausa aðgengið á markaðnum þegar þessi orð eru skrifuð. Þú gengur upp að bílnum og hann opnast um leið og þú setur hendurnar á hurðahúninn. Það gera aðrir framleiðendur líka en það sem Renault gerir betur en aðrir framleiðendur er þegar þú gengur frá bílnum. Um leið og þú ert kominn í vissa fjarlægð þá læsir hann sér. Þú þarft ekki að snerta hurðarhúninn eða láta bílinn vita að þú sért búinn að nota hann, þú einfaldlega gengur í burtu frá honum. Þá læsir hann sér og pípir á þig bless.
Aksturseiginleikar á við smábíl
Aksturseiginleikar strumpastrætóa hafa oft þótt slappir. Mesta þyngdin hefur verið framarlega í bílnum og lítil dekk miðað við bifreiðina hafa skemmt fyrir bílum sem hafa samt verið góðir og praktískir í notkun. Espace svarar kallinu þegar kemur að góðum aksturseiginleikum. Hann er lipur þrátt fyrir stærðina og stór dekkin gefa gott grip á blautum og hálum vegum. Mjög lítið veghljóð er í bílnum og heyrist ekkert í díselvélinni. Hann líður áfram veginn og hjálpar þar gott tog á breiðu snúningssviði vélarinnar. Jafnvel ef þér finnst leiðinlegt að keyra ættir þú samt að njóta þess á Espace því hann er eins og hugur manns. Að leggja í stæði er heldur ekkert mál því speglarnir eru stórir, útsýnið gott um gluggana ellefu og hann mætir á svæðið útbúinn fjarlægðarskynjurum allan hringinn.
Lokaorð
Fjölskyldufólk sem þarf sjö sæta bíla hefur hingað til þurft að sætta sig við sendibíla sem hefur verið breytt til að svara kalli þeirra. Jafnvel hafa þau farið í sjö sæta jeppa, en jeppi er ekki fyrir alla. Fjölskyldur sem vilja halda áfram að vera á fólksbíl því rekstur á jeppa heillar þær ekki ættu að kíkja á Espace. Ég mæli með Espace fyrir allar þær fjölskuldur sem vilja komast auðveldlega á milli staða með nægt pláss fyrir lífið sjálft. Ég mæli með honum í hvítu eða bláu. Hvítum kannski frekar því á þeim sést minna af drullunni sem kemur af vegum landsins. Hvaða lit sem þú velur, taktu hann í Intense útfærslu því þá færðu tólf glugga!
Ef þér lýst áann’, keyptann.