Að taka sumarbílinn út og aka fyrsta rúntinn er sérstök seremónía. Því fylgir alltaf spenna enda eru sumarbílar flestra fornbílar og þeir gjarnan hafðir í geymslu yfir veturinn. Þess vegna er spennan nokkur þegar aldraðir herramenn eru gangsettir.
Liggur stundum við að maður tárist þegar þeir gömlu hrökkva í gang, rétt eins og þegar nýfætt barn grætur við komuna í heiminn. Það er mögnuð stund og nagandi óttinn víkur fyrir fölskvalausri gleði.
Dálítið ýkt dæmi en þó ekki endilega svo galið.

Vinkona mín fór með mér að ná í BMW-inn í vetrargeymsluna sumardaginn fyrsta 2020. Ég ar auðvitað alveg í skýjunum að hitta þann gamla og svo þegar rafgeymirinn var tengdur og bíllinn rauk í gang (eins og vanalega) mun ég víst hafa brosað allan hringinn. Það sagði vinkona mín mér og ég brosti reyndar allan daginn. Þetta er nefnilega alltaf svo frábært. „Þú bara ljómar,“ hafði hún á orði.
Hvað þarf að hafa í huga?
Ef það eru einhverjir sem ekki hafa mikla reynslu af öldruðum sparibílum þá eru hér nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga þegar bíllinn er tekinn í gagnið og sóttur í skúrinn/geymsluhúsnæðið.

Þeir sem eru jafnvel eldri en elstu fornbílar vita þetta auðvitað allt og geta þeir bara skoðað myndirnar eða bætt góðum punktum við í athugasemdum á Facebooksíðunni okkar.
Rafleiðslur og almenn athugun
Gott er að horfa vel og vandlega á allt sem undir vélarhlífinni er og kanna hvort einhverjar leiðslur eru nokkuð farnar í sundur eða nokkuð kvikt hafi gert sér bústað á „góðum“ stað. Það er betra að komast að því áður en haldið er af stað.

Olían
Sumir eru á því að það breyti engu hvort skipt hafi verið um olíu eða ekki áður en bíllinn fór í geymslu; alltaf skuli skipta áður en farið er af stað eftir vetrargeymslu.
Nú er ég ekki sérfræðingur í þessu nákvæmlega en þetta hlýtur að eiga sérstaklega við í þeim tilvikum þar sem bíllinn hefur verið voðalega lengi í geymslu. Þ.e. lengur en bara yfir vetrarmánuðina október til apríl.

En þetta er í það minnsta ráðlegging frá ekki ómerkara apparati en sjálfu Audi-bákninu og er minnst á að brúsi af olíu og filter sé nú ekki sérlega dýrt í heildarsamhenginu og það er vissulega rétt.
Rétt er að kanna stöðu annarra vökva í leiðinni; hvort eitthvað hafi lekið af bílnum og bæta á eftir þörfum.
Loftþrýstingur
Á hálfu ári eða svo er næsta víst að loftþrýstingurinn í dekkjunum hefur minnkað eitthvað og því gott að freta aðeins í dekkin þannig að þrýstingur verði réttur.

Svo er það bara þessi gamla góða regla: Að horfa vandlega á dekkin til að sjá hvort einhverjar sprungur séu farnar að myndast eða gúlpar o.s.frv.

Eftir að rafgeymirinn hefur verið tengdur og bílnúmerin sett á sinn stað (hafi þau verið tekin af út af tryggingafélögum sem stundum skilja ekki eðli fornbíla) þá er tímabært að setja í gang, leyfa bílnum aðeins að hitna og hlusta vel á nývaknaðan öldunginn.

Gangi allt „smurt“ og ekkert óvenjulegt sem eyru og augu nema þá ætti fátt ef nokkuð að vera því til fyrirstöðu að hreinlega setja á sig hvítu leðurhanskana og pípuhattinn og aka af stað á gömlu drossíunni.
Þá er sumarið komið.
Tengdar greinar:
„1955. Árið, sem bílar voru bílar“
Hagnýt ráð í bílaviðgerðum
Að standast bifreiðaskoðun 101
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein