Þegar spindilboltinn brotnaði!
- Þegar það var stundum raun að eiga gamlan bíl….
Ég var að skrifa um gamla tímann á dögunum, og þá rifjaðist upp sá tími þegar ég eignaðist fyrsta bílinn minn, sem þá var 22ja ára gamall! Sem sagt fimm árum eldri en ég sjálfur!
Eins og hjá öllum var það draumur hjá mér að eignast bíl þegar ég fengi bílprófið 17 ára gamall.
Stundum ganga hlutir upp og svo var í þessu efni. Þannig var að ég kynntist ágætum bátasmið í Hafnarfirði sem leigði pláss í einu af húsum fjölskyldunnar.
Hann átti gamlan Morris, 1939 árgerð, sem gekk ágætlega og leit alls ekki illa út. En á svipuðum tíma og ég fékk bílprófið var bátasmiðurinn svo óheppinn að vera stöðvaður á bílnum við „óheppilegar“ aðstæður og missti í kjölfarið prófið í eitt ár.
Flottu „innfelldu“ framljósin, sem voru ekki ósvipuð og á VW bjöllunni, voru horfin og í staðinn voru komin framljós af Austin 8, sem þá voru fest sitt hvoru megin á vélarhúsið.
Vélin í bílnum var einnig úr Austin 8. Menn kunnu að bjarga sér á þessum árum!
Hann var staðráðinn að fá sér betri bíl þegar „próflausa“ árið væri yfirstaðið, en var með „gott“ þriggja stafa bílnúmer á bílnum, og hann bauðst til að selja mér bílinn fyrir lítinn pening – að því tilskildu að ég myndi vera með númerið á bílnum þetta ár, en hann myndi síðan fá það á nýja bílinn og ég myndi fá mér annað númer.
Þetta gekk eftir og ég varð ánægður bíleigandi!
Spindilboltinn brotnaði á Keflavíkurveginum
Ég átti þennan ágæta Morris í nokkur ár og hann þjónaði mér ágætlega. Á því tímabili var ég að vinna sem kokkur á Flugvallarhótelinu á Keflavíkurflugvelli, og vann á hálfs mánaðar vöktum.
Á vaktatímabilinu bjó ég á Vellinum, en fór stundum heim í vaktafríum.
Gamli Keflavíkurvegurinn sem þá lá með Vatnsleysuströndinni og síðan yfir Vogastapann til Keflavíkur var á þessum tíma malarvegur og stundum var ástand hans ekki gott; lítill ofaníburður og stórar klappir í vegyfirborðinu.
Í einni ferðinni suður var ég rétt kominn suður fyrir Voga og í beygjunni upp á Stapann var vegurinn hreinlega illfær og þar skipti engum togum að þegar framhjólin hoppuðu á einni klöppinni heyrðist hár smellur og bíllinn datt niður að framan.
Spindilboltinn brotnaði úr auganu á framöxlinum vinstra megin og hjólið datt af!
Næsta verk var að fá kranabíl frá Vöku til að draga bílinn með framendann á lofti heim á hlað í Setbergshverfið ofan Hafnarfjarðar, og koma mér svo aftur suðureftir í vinnuna.
Í næsta „vaktafrí“ var farið af stað að leita að varahlutum, og þá kom í ljós að Vaka átti til sams konar framöxul eða frambita, sem var keyptur snarlega.
En þetta kallaði á nýja spindilbolta og fóðringar! Spindilboltinn í þessu tilfelli var lítill öxull sem gekk í gegnum lóðrétt gat á frambitanum og utan um hann gekk síðan „klafi“ með fóðringum sem virkaði eins og „lamir“ fyrir framhjólin svo hægt væri að beygja.
Spindilboltinn var festur í gatinu á bitanum með fleygmynduðum „lásbolta“ þannig að hann héldist kyrr á sínum stað.
Gott að eiga góða að
Það var ekki hlaupið að því að finna varahlut í 22ja ára bíl þá frekar en í dag, og þá var ég svo heppinn að einn af félögum mínum í Hjálparsveit Skáta í Hafnarfirði, Snorri Magnússon, var að læra rennismíði hjá Agli Vilhjálmssyni.
Snorra þekkja fjölmargir vegna þess að hann var umsjónarmaður sporhundanna hjá Hjálparsveitinni í fjöldamörg ár, og ég greip stundum í það með honum að þjálfa hundana og „týndist“ reglulega í hrauninu við Hafnarfjörðinn.
En Snorri fékk málin á gatinu í „nýja“ frambitanum og klafastykkið fyrir hjólið, og hann var snöggur að renna nýjan „spindilbolta“ með smurgangi og nýjar fóðringar. Þarna sannaðist vel að það er „gott að eiga góða að“!
Tveimur dögum síðar var búið að raða þessu saman á hlaðinu heima og Morris farinn út að aka.
En það var ekið ákaflega „varlega“ um erfiðu vegarkaflana á Keflavíkurveginum í næstu ferðum.
Umræður um þessa grein