Þegar hlutirnir ganga smurt fyrir sig eða hjólin snúast liðugt
- Smurefni, sagan og tilgangurinn
Þegar hjólin þurftu að snúast hraðar eins og var nefnt í þessari grein þá fóru að koma vandmál með hita sem skapaðist vegna núnings.
Elstu vagnarnir voru með öxli sem var trjábolur sem fór í gegnum gat á tréhjólum. Þeir voru hægfara og það dugði að bleyta vel í öxlinum og hjólunum með vatni áður en haldið var af stað og hella svo vatni yfir af og til á meðan á ferðinni stóð til að koma í veg fyrir að öxullinn þornaði og hitnaði.
En þegar stríðs- og kappaksturkerrur komu til sögunnar þá dugði vatnið ekki lengur. Líklega hefur kviknað í einhverjum hjólum áður en einhverjum datt í hug að nota eitthvað annað en vatn til að kæla niður hjólin og öxlana.
Það hafa fundist ummerki um að efni sem er kallað calsium soap (ekki kunnugt um íslenskt heiti á þessu efni nema þetta sé kalsíumsterat) á öxlum vagna (chariot) um 1400 árum fyrir okkar tímatal. En annars voru smurefnin í árdaga ólífuolía, repjuolía og dýrafita (tólg). Sumar heimildir segja að Forn-Egyptar hafi verið að nota smurefni í kringum 1700 fyrir okkar tímatal eða jafnvel fyrr en í öðrum tilgangi. Sama má segja um Mesapótamíu en það hafa ekki fundist neinar beinar sannanir fyrir því.
En aftur að ártalinu 1400 fyrir okkar tímatal, þá voru Egyptar hinir fornu að prófa sig áfram með smurefni fyrir hjól á kerrum og vögnum.
Þeim til furðu þá tóku þeir eftir því að sumir seigfljótandi vökvar dreifðu ekki aðeins hitanum heldur komu þeir einfaldlega í veg fyrir að hiti myndaðist. Þeir tóku líka eftir því að hjólin snerust liðugt.
Árin 1858 og 1859 var borað eftir olíu í Kanada og í Bandaríkjunum. Fram að þeim tíma höfðu verið notaðar grænmetisolíur, dýrafita og jafnvel hvallýsi unnið úr búrhvölum sem smurning.
Jarðolían sem hafði verið notuð fyrir þann tíma kom úr yfirborðslindum en þar gátu þeir sem það vildu náð sér í olíu í fötu.
Á þriðja áratug síðustu aldar urðu framfarir varðandi olíur m.a. í hreinsum á olíu en bílaiðnaðurinn sem fór ört stækkandi þurfti meiri gæði í olíum en áður þekktist. Olíuhreinsun í einhverri mynd hafði þekkst í næstum 2000 ár en hreinsuð jarðolía virðist almennt ekki hafa verið notuð sem smurning nema með einni þekktri undantekningu:
Li Daoyuan sem var kínverskur landfræðingur, rithöfundur og stjórnmálamaður kynnti aðferð til að hreinsa olíu, í þeim tilgangi að búa til ýmiskonar smurefni, í riti sem hét Shui Jing Zhu (Commentary on the Water Classic) en þetta var á árunum 512 – 518.
Á fjórða og fimmta áratugnum komu fram íblöndunarefni sem bættu gæði olíunnar. Þau komu í veg fyrir oxun olíunnar, voru tæringarvörn, bættu seigjustuðulinn o.fl.. Kerfisbundnu gæðaeftirliti með olíum var komið á hjá járnbrautaiðnaðinum.
Á sjötta áratugnum komu fram tilbúnar olíur eða gerviolíur (synthetic oils) ætlaðar fyrir flug- og geimferðir fyrst og fremst. Þá komu líka fram fyrstu fjölþykktarolíurnar ætlaðar bílaiðnaðinum.
Eftir þetta hefur verið stöðug þróun í olíum til að gera þær hreinni, endingarbetri og jafnvel náttúruvænni.
Mótorolíur nútímans eru mikið betri en upprunalegu jarðolíurnar sem voru óhreinsaðar en það þurfti að skipta um þær eftir að vélarnar höfðu gengið í á milli 80 og 100 klukkustundir.
En að lokum þá er tilgangur smurefna að draga úr núningi á snertiflötum og kæla þá og koma þar með í veg fyrir ótímabært slit. Mótorolíur smyrja, kæla, hreinsa og verja gegn tæringu. Þær bæta líka þéttni á milli stimpla og strokka í vélum.
Næstu greinar munu fjalla um legur og fóðringar og ýmsar þéttingar í vélbúnaði.
Umræður um þessa grein