Þegar frysta fer þá leggjast sumardekkin í dvala
Það er ekki sama hvernig hjólbarðar eru geymdir. Það skiptir máli hvernig er gengið frá þeim fyrir geymslu og hvar þeim er komið fyrir. Þetta á að sjálfsögðu við um alla hjólbarða en ekki bara sumardekkin. Förum aðeins yfir þetta.
Fyrst þarf að þvo og þurrka hjólbarðana og felgurnar líka ef dekkin eru geymd á þeim. Ekki setja nein efni á hjólbarðana fyrir geymslu, það er óþarfi og gæti í sumum tilfellum stytt endingu dekkjanna.
Setjið dekkin helst í poka og lofttæmið þá t.d. með ryksugu.
Geymið dekkin þar sem sólin aldrei skín. Þ.e.a.s. sólarljósið eða útfjólubláu geislarnir eru slæmir fyrir dekkin.
Ákjósanlegur geymslustaður fyrir hjólbarðana er þurrt og svalt rými laust við miklar hitasveiflur. Það mega ekki vera hitagjafar og engin efnavara nálægt dekkjunum. Einn versti óvinur dekkjanna er ósón en það verður til þegar rafmótorar með kolburstum eru í gangi.
Ef dekkin eru ekki geymd í pokum og það eru hvítir hringir eða stafir á dekkjunum þá má hvíta gúmmíið ekki snerta svart gúmmí því það veldur litabreytingum.
Best er að geyma dekk sem eru á felgum í hóflega háum stöflum (þyngri dekk í minni stöflum en þau léttari) eða hengja þau upp. Dekk sem eru ekki á felgum verða að standa upprétt. Þau aflagast ef þau eru látin liggja á hliðinni eða eru hengd upp.
Látum þetta duga að sinni.
Umræður um þessa grein