X-944. Það var númerið á fyrsta bílnum mínum. Hann var frá árinu 1987 og númerið ágætt en bíllinn fremur vondur, en það er önnur saga. Þótt X-númerin væru upphaflega á bílum í Árnessýslu vorum við nú ekki þaðan en svo skemmtilega vildi til að bíll foreldra minna bar sömuleiðis X-númer. Bílarnir voru keyptir eftir númerabreytinguna (þ.e. eftir 31.12.1988) og höfðu númerin því ekkert með búsetu að gera.
Ekki vissi ég þá að hefði þetta verið R-númer og það tíu árum fyrr, þá hefði ég getað selt það fyrir fúlgur fjár!
Það þótti nefnilega mjög flott og eftirsóknarvert að aka um á bíl með sem lægstri tölu á númeraplötunni.
„Tveggja stafa helzt“
Einhverjir kannast við jóla- og bílnúmerarevíu Jóns Múla og Jónasar Árnasona, Delerium Bubonis, frá árinu 1954. Það var útvarpsleikrit í upphafi en síðar breytt með tilliti til sviðsflutnings og frumflutti Leikfélag Reykjavíkur verkið árið 1959.
Í verkinu er áberandi persóna, kona nokkur sem er forrík forstjórafrú. Hún vill láta taka eftir sér „og „deyr“ af smán yfir því að vera svo „púkaleg“ að aka í bíl með tveggja stafa númeri. Einn skal stafurinn vera,“ eins og gagnrýnandi Fálkans komst að orði.
Þetta var nú ekki úr lausu lofti gripið. Það skipti marga verulegu máli að hafa „fallegt“ númer. Í Þjóðviljanum frá 1971 segir til dæmis: „Sem kunnugt er hefur löngum þótt fínt meðal „betri“ borgara að eiga sem lægst bílnúmer – tveggja stafa helzt.“
Í grein frá lesanda sem birt var í sunnudagsblaði Tímans 1970 segir : „Allir vita, hvernig bílnúmer og símanúmer geta verið vitnisburður um manngildið. Öllum, sem eitthvað blakta í mannfélaginu, er metnaðarmál að hafa lágt númer á bílnum sínum. Það er til dæmis fjarskalega auvirðilegur sýslumaður sem ekki ekur um lögsagnarumdæmi sitt á bíl númer eitt.
Menn, sem bera virðingu fyrir sjálfum sér, kaupa lágt bílnúmer dýrum dómum, ef falt er, rétt eins og annað, sem getur sýnt og sannað manngildi þeirra.“
Kaldhæðni? Kannski. En mannlegt eðli er samt við sig og þarf ekki að hugsa sig lengi um til að finna dæmi um símanúmer, einkanúmer og annað sem gaman þykir að geta stært sig af.
Gott dæmi um þetta er að finna í þriðja tölublaði Frjálsrar verslunar frá árinu 1978 þar sem dálítið er skotið á flugstjóra. Segir þar:
„Það vekur athygli, að nokkrir flugstjórar hjá Flugleiðum, sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu, hafa látið flytja lögheimili sín út í dreifbýlið. Þetta kemur fram á skrásetningarnúmerum bíla þeirra, sem eru K-merkt og B-merkt t.d. Einhver hlunnindi munu fylgja ráðstöfun þessari þó ekki sé alveg ljóst hver þau eru.
Það fylgir líka sögunni að einn flugstjóri Flugfélagsins hafi tryggt sér bílnúmerið B 747, sem er einkennisnúmer Júmbóþotunnar hjá Boeing.
Kann þetta að vera einn liður í sálfræðihernaði gegn Loftleiðaflugmönnum, sem vilja hafa forgang að nýjum breiðþotum, þegar þær verða teknar í notkun hjá Flugleiðum!“
Skemmtileg hugrenningatengsl
Gömlu númerin, sem framleidd voru af Steðja, fóru á síðustu bílana í árslok 1988. Þá tóku við tveggja bókstafa og þriggja tölustafa númer. Bókstöfunum fjölgaði í þrjá og tölustöfunum fækkaði í tvo sumarið 2007, en það vita nú flestir.
Margar eru þær, sögurnar, sem tengjast gömlu númerunum og er tilvalið á sunnudegi að rifja einhverjar upp. Það má líka á öðrum dögum!
Einhvern tíma fyrir lifandis löngu, heyrði ég fyndna sögu af borgarbarni sem sá bíl með númeri úr Suður-Múlasýslu. Númerið var U-11. Á strákur að hafa sagt við eiganda bílsins: „Heyrðu manni? Af hverju stendur ull á bílum þínum?“
Ekki veit ég hvort sagan af ullarbílnum er sönn en hún er í það minnsta góð!
Í Sunnudagsblaðinu sumarið 1960 má finna sögu af séra Bjarna Jónssyni, vígslubiskupi, sem oft komst skemmtilega að orði:
„Séra Bjarni Jónsson vígslubiskup sagði eitt sinn frá því, að hér í gamla daga, þegar bílnúmerin voru ekki orðin eins svimandi há og nú, þá hafi hvert bílnúmer jafnan minnt sig á sálm með sama númeri í sálmabókinni,“ sagði í blaðinu.
„Og til eru þeir menn sem ekki mega sjá fjögurra stafa bílnúmer innan við 1960, að ekki opnist mannkynssagan eins og bók í huga þeim,“ sagði þar enn fremur.
Óskemmtilegt að vera með fimm tölustafi
Þarna, í kringum 1960 var fjöldi bíla orðinn slíkur að tölustafirnir á R-númeraplötunum voru komnir upp í fimm. Þótti mörgum það afleitt.
Í Vísi, haustið 1961, heyrði blaðamaður þess blaðs tvo félaga ræða bílnúmer yfir kaffibollanum:
„Þeir höfðu báðir mikinn áhuga á að fá á bílana sína lág númer, helzt þriggja stafa, því bílarnir þeirra bæru ekki öllu stærra númeraskilti,“ skrifaði blaðamaður sem blandaði sér í samræðurnar sem þróuðust svona:
„Þeir bentu á, að svo virtist sem yfirvöldin myndu hreinlega lenda út í ógöngur með fyrirkomulagið á bílanúmerunum. Það er ógerningur að muna fimm stafa númer sagði annar þeirra, í því tilfelli að eitthvað beri að höndum, svo nauðsynlegt sé fyrir mann að muna númer viðkomandi bíls,“ og áfram hélt samtalið sem lauk á því að lausnin lægi í því að bókstafirnir yrðu tveir og tölurnar þrjár.
Jú, sú umræða fór fram og aftur næstu áratugina en mennirnir þrír hefðu án efa gapað ef einhver hefði sagt þeim á þeirri stundu að tæp þrjátíu ár myndu líða þar til númerakerfinu yrði breytt.
Um tíu árum seinna, sumarið 1971, greindi Þjóðviljinn frá að skrásett R-númer væru orðin 26.600 talsins. Það var þó ekki þar með sagt að bílarnir væru það margir. Guðmundur R. Brynjólfsson hjá Bifreiðaeftirlitinu var viðmælandi blaðamanns:
„Þá hafa verið lögð inn hjá bifreiðaspjaldskránni 2850 skrásetningarnúmer til lengri eða skemmri geymslu. Eru það bifreiðaeigendur er treysta sér ekki til þess að fara með bílinn í skoðun vegna mikils viðgerðarkostnaðar.
Þá fá menn lækkaða bifreiðaskatta og tryggingagjöld ef skrásetninganúmer á bensínbíl liggur inni hjá okkur í meira en þrjá mánuði og dieselbíl meira en einn mánuð. Bíllinn telst þá tekinn úr umferð,“ sagði Guðmundur í viðtali við Þjóðviljann fyrir fimmtíu árum.
Yfir 50.000 númer en 30.000 bílar
Þetta gerðist allt mjög hratt því aðeins fimm árum síðar, síðsumars 1976, var R-50407, hæsta bílnúmer í Reykjavík afhent. Greindi Dagblaðið frá að miklar eyður væru í bifreiðaskrá Reykjavíkur. Sagði Guðni Karlsson, þáverandi forstöðumaður Bifreiðaeftirlitsins, að engin væri aðstaðan til að endurnýja skrána jafnt og þétt. En það var ekki eini vandinn:
„Við erum einnig beðnir að geyma bílnúmer, sem ekki eru í notkun, svo að eyður er alls staðar að finna í skránni af ýmsum sökum. Um sl. áramót voru 28836 bifreiðir í Reykjavík og má af þeirri tölu nokkuð ráða hverjar eyðurnar eru í skránni.“
Það er áhugavert að á þessum tíma var ekkert geymslu- eða innlagnargjald fyrir númeraplöturnar. „Það væri þjónusta sem líklega þekktist hvergi annars staðar. Skapaði þetta nokkra erfiðleika, einkum vegna þröngs húsnæðis,“ sagði í frétt Dagblaðsins.
Hjá Bifreiðaeftirlitinu voru að jafnaði til á bilinu 50-100 númer en plöturnar voru framleiddar jafnóðum hjá Steðja og kostuðu þær, árið 1976, 1200 krónur á fólksbíla.
Braskað með bílnúmer
Þegar eitthvað verður eftirsótt en framboðið lítið, sjá margir sér leik á borði og voru bílnúmerin þar engin undantekning! Skreppum aftur til ársins 1973 með aðstoð Alþýðublaðsins.
„Þess munu dæmi, að menn, sem keypt hafa skrásetta bifreið á nauðungaruppboði, hafa boðið óeðlilega hátt verð fyrir slíkan grip, í þeim tilgangi að komast þannig yfir eftirsóknarvert skrásetningarnúmer, þegar enginn fyrirvari er gerður um, að númerið fylgi ekki í kaupunum. Þetta er ein aðferðin til að eignast „fínt“ bílnúmer.“
Í greininni sem vitnað er í hér að ofan, kemur einnig fram að öll viðskipti með skráningarnúmer bifreiða séu óheimil, og var þar vísað í orð fulltrúa lögreglustjóra. Guðni Karlsson, forstöðumaður Bifreiðaeftirlits ríkisins svaraði líka fyrirspurnum blaðsins og „kvað hann reynt að sporna við því, að menn seldu skrásetningarnúmer bifreiða. Þetta væri þó ekki alltaf hægt, vegna skorts á sönnun um slík viðskipti.“
Eins og sjá má á meðfylgjandi auglýsingum úr blöðum þess tíma fóru menn ekki leynt með númerabraskið. Í lok greinarinnar í Alþýðublaðinu segir:
„Það er alkunna, að einstaka maður leggur oft mikið upp úr því að hafa tveggja eða þriggja stafa númer á bíl sínum. Er ekki grunlaust um að slík númer hafi verið sett á verðlitlar bifreiðar, og þær síðan seldar á óeðlilega háu verði.“
Tæpum áratug fyrr, eða í árslok 1964, birtist þessi auglýsing í Morgunblaðinu. Það fór eflaust betur á því að vinna bílnúmer en að kaupa þau:
„Ég vil hafa mitt gamla R-958“
Sem fyrr segir var rætt fram og aftur um breytingar á númerakerfinu í marga áratugi án þess að nokkuð gerðist.
Í Tímanum sumarið 1974: „Til umræðu hefur verið að breyta númerakerfi landsins og lagði Bifreiðaeftirlit ríkisins fram allar sínar tillögur og gögn fyrir tveimur árum. Síðan hefur málið legið í ráðuneytisskúffu og ekkert gerzt.“
Tíminn, sumarið 1977: „Samkvæmt upplýsingum Friðjóns Sigurðssonar, skrifstofustjóra Alþingis, var flutt frumvarp um ný skráningarnúmer á síðastliðnu þingi. Málið var ekki útrætt þá.“
Tíu árum síðar, fyrrihluta árs 1987, í DV: „Með samþykkt frumvarpsins [umferðarlög] verða einnig teknar upp sektir fyrir að spenna ekki bílbeltin og bílnúmerakerfinu verður breytt. Ný númer með tveimur bókstöfum og þremur tölustöfum koma í stað gömlu númeranna.“
Þó svo að lítið hefði þokast í þessum málum í einhverja áratugi, þá fengu Íslendingar langan tíma til að mynda sér skoðanir á breytingunum á númerakerfinu. Bárust blöðum mörg erindi frá lesendum sem ekki voru á eitt sáttir.
Ófáir höfðu samband við Velvakanda og lýstu þar skoðunum sínum á númeramálum. Einn þeirra var Halldór nokkur Sigurðsson sem skrifaði árið 1975:
„Nýlega las ég í blaði, að til stæði að breyta öllum bílnúmerum, og um leið var sagt, að þeir, sem eiga númer með þriggja stafa tölu eða álíka muni ekki hafa þá ánægju lengur. Sjálfur á ég hátt númer og mér er sama þótt aðrir hafi lág, en mér er ekki sama um þessa dellu, því hún mun kosta ríkið milljónir.“
Í Vísi voru vegfarendur teknir tali síðla hausts 1974 og spurði hvernig fólki hugnaðist ný gerð skráningarmerkja. Minntust nokkrir á að gott yrði að losna við umstangið í kringum umskráningu númera en aðrir voru minna hrifnir. Ökukennarinn Geir Þormar var einn þeirra sem ekki var upprifinn yfir komandi breytingum: „Ég er algjörlega mótfallinn þessu.
Ég vil hafa mitt gamla R-958 eins og í undanfarin 30 ár. Ég held að öllum þyki vænt um númerin sín, hvernig sem þau hljóma.“
Eitt og annað spaugilegt frá þessum árum
Margt sérkennilegt kom upp á þessum árum „gömlu númeranna“ og má þar sem dæmi nefna þegar tveir bílar, sömu gerðar, reyndust bera nákvæmlega sama númer. Það var fleira eins í þessu tilviki og það voru nöfn eigenda bílanna. Vísir sagði frá þessu árið 1973.
„Það var nú einn vinnufélagi minn búinn að segja mér frá því, að hann teldi sig hafa séð aðra bifreið með sama númeri og mín hefur, en ég hélt, að þetta væri einhver vitleysa. En svo sást hún aftur í hádeginu í gær, og þá fór ég að svipast um eftir henni,“ sagði Ari Jónsson, bíleigandi í Kópavogi.
Þannig vildi til að sömu skráningarnúmer voru sett á tvo bíla sömu gerðar. Eigendurnir báru sama nafn; en annar sonur Karls og hinn Jóns. Þetta var vissulega óvenjuleg staða en leyst var úr málum þannig að Ari Jónsson fékk númerið Y-1786 í stað Y-1768.
Svo var það maðurinn sem „kerfið“ vildi gera að bíleiganda. Vísir greindi frá því árið 1974 að Guðmundur Steinsson prentari, sem verið hafði bíllaus í tvö eða þrjú ár hefði fengið skipun frá lögreglustjóra um að greiða stöðumælasekt. „Á kröfunni, sem ég fékk senda heim, var nafn mitt, heimilisfang og nafnnúmer rétt skráð, en bílnúmerið kannaðist ég ekki við,“ sagði Guðmundur.
Hjá Bifreiðaeftirlitinu reyndist Guðmundur skráður eigandi Fiat 127, árgerð 1974. Var honum tjáð að þessi mistök yrðu leiðrétt hið snarasta.
„En viti menn, aðeins nokkrum dögum síðar fékk ég tilkynningu um það, að ég ætti að borga bifreiðaskatt af „bílnum mínum“. Ég anzaði þessari kröfu tollstjórans engu, þar sem ég hélt, að hún yrði úr sögunni, þegar Bifreiðaeftirlitið væri búið að leiðrétta spjaldskrána.“
Þrír mánuðir liðu án tíðinda af blessuðum Fiat 127. Þá fékk Guðmundur tilkynningu um að eignir hans yrðu boðnar upp vegna vangoldins bifreiðaskatts! Enn fór Guðmundur á stjá og loks kom í ljós að réttur eigandi bílsins var alnafni Guðmundar og taldist málið þá upplýst. Að lokum sagði bíllausi maðurinn, Guðmundur Steinsson að þetta hefði verið meinlaust.
„En það hefði getað haft afdrifaríkari afleiðingar, ef t.d. það hefði skeð, að þessi bíll hefði valdið miklu tjóni og síðan fundist mannlaus.
Við handtöku hefði það sjálfsagt þótt dulítið undarlegt, ef ég hefði viljað halda því fram, að ég ætti ekki umræddan bíl….“
Endurkoma lágnúmeratískunnar í blálokin
Það hefur ekkert upp á sig í dag að falast eftir lægstu númerunum. Þeir sem vilja geta fengið sér einkanúmer en það virðist ekki lengur skipta máli hversu lágar tölur eru í bílnúmerinu, enda býður kerfið ekki upp á það. Sama gildir um bókstafina; þeir segja ekkert til um búsetu bíleigandans, stétt né stöðu.
Það er nokkuð áhugavert, að rétt fyrir númerabreytinguna sem tók gildi áramótin 1988/1989, komust lágu númerin aftur í „tísku“ ef svo má að orði komast. Áhugavert en ekki endilega undarlegt, þar sem enginn gat mögulega vitað hvenær tekið yrði upp nýtt númerakerfi. Sem fyrr segir hafði verið rætt um það fram og aftur svo áratugum skipti.
Í kringum 1980 jókst eftirspurn eftir lágum númerum á nýjan leik. „Fyrir nokkrum árum var mikill eftirspurn eftir lágum bílnúmerum í Reykjavík og menn fúsir til að greiða stórfé fyrir R-númer með tveggja eða þriggja stafa tölu.
Hin síðari ár hefur ekki eins mikið farið fyrir þessari ásókn en í Morgunblaðinu á miðvikudag ber nýrra við í auglýsingu á sjöundu síðu blaðsins.
Þar er auglýst eftir kaupum á þriggja stafa bílnúmeri, en þess þó ekki getið að númerið þurfi endilega að vera skráð í Reykjavík,“ sagði í Morgunblaðinu um þessa auglýsingu:
Verðið á lágu númerunum hækkaði bara ef eitthvað var og 1982 sagði eftirfarandi í Frjálsri verslun: „Bílnúmer í Reykjavík ganga enn kaupum og sölum. Núna síðast fréttum við af leigubílstjóra sem ók á R-númeri á bilinu 100-200, sem seldi númerið sitt fyrir 37 þúsund krónur. Bílstjórinn mun oft hafa fengið tilboð, en aldrei fyrr svo glæsilegt sem þetta. Sjálfur hafði hann enga ofurást á tölum, svo hann sló til.“
Í byrjun árs 1987 var orðið nokkuð ljóst að „ballið“ væri svo gott sem búið. Var þetta skemmtilega orðað hjá Jóhönnu S. Sigþórsdóttur í DV þann 19. febrúar sama ár:
„Þeir sem eiga eins, tveggja, og þriggja tölustafa bílnúmer geta nú líklega farið að naga sig í handarbökin fyrir að vera ekki búnir að selja þau.
Þessi númer hafa verið seld fyrir drjúgar upphæðir fram til þessa. Sumir hafa notað tækifærið og losað sig við örgustu druslur með því að láta lágt númer fylgja og þá að sjálfsögðu fyrir dágóðan skilding.“
„En nú er til meðferðar hjá Alþingi frumvarp til umferðalaga sem að líkindum verður samþykkt á öllum vígstöðvum. Þar er m.a. gert ráð fyrir breyttum bílnúmerum. Verða þau með tveim bókstöfum og þrem tölustöfum. Þar með verða þær fasteignir á hjólum, sem lágu númerin hafa verið, úr sögunni,“ skrifaði Jóhanna og rétt reyndist það.
Framhaldið þekkjum við.
[Greinin birtist fyrst í apríl 2021]
Fleira rammíslenskt frá þessum árum:
Starf leigubílstjórans fyrr og nú: Fyrsti hluti
Ökuþór á agnarsmáum bíl í Reykjavík
„Kjarval var svolítið skrýtinn“
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein