Þægindi á þægindi ofan
Volvo XC40 er nýjasta trompið úr smiðju Volvo Cars. Í einu orði sagt: Frábær á alla vegu. Þessi flotti bíll virkar mun stærri en hann í rauninni er. Þægileg sæti, einföld en vönduð innrétting með frábæru margmiðlunarkerfi.
Það sem kom mest á óvart að það fer vel um stóran blaðamann með nokkur aukakíló í ökumannssætinu. Það heldur vel um mann og fótaplássið er nægt. Aðgengið er líka gott og maður sest inn í þenna bíl en ekki ofan í hann. Það er alveg satt, hann er minni en XC60 en maður bara hreinlega tekur varla eftir því – allavega ekki við almenn not í borgarakstri.
Ríkulegur staðalbúnaður
Volvo XC40 kemur í þremur útgáfum Momentum, Inscription og R-Design. Grunnútgáfan, sem við prófuðum lítur ekki út fyrir að vera sú „ódýrasta“ því staðalbúnaðurinn er ríkulegur. Reynsluakstursbíllinn skilaði heilum 262 hestöflum sem verða til við framleiðslu orku úr tveimur aflgjöfum bílsins, rafmagnsmótor og bensínvél.
Momentum bíllinn kemur með 18 tommu álfelgum með 1.5 lítra turbó, bensín, tengitvinn vél. Sú vél er að skila um 262 hestöflum við 425 nm. Tengitvinnbílarnir eru framdrifnir og með 7 gíra sjálfskiptingu. Útblástur á CO2 gr/km. er um 45-55 gr. og eyðslan við bestu aðstæður um 2 lítrar á 100 km.
Drægni á rafmagni er uppgefin um 51-56 kílómetrar. Volvo Momentum T5 bíllinn uppfyllir kröfur um CO2 gildi til lækkunar opinberra gjalda og er án vörugjalda og ber lægri virðisaukaskatt.
Munur milli gerða bílanna er einungis falinn í mismunandi búnaði. Momentum bíllinn er ríkulega búinn staðalbúnaði svo sem SIPS árekstrarhliðarvörn, WHIPS bakhnykksvörn, veglínuskynjara, nálægðaskynjara að aftan, Webasto vélahitara með tímastilli, tauáklæði LED aðalljósum, LED lýsingu í innréttingu, upphitanlegu leðurstýri, Volvo high performance hljóðkerfi og rafmagnshandbremsu svo eitthvað sé nefnt.
Öryggi og aftur öryggi
Inscription bíllinn kemur að auki með leðurinnréttingu, 19 tommu álfelgum, leiðsögukerfi með Íslandskorti, Apple Carplay og Android Auto og rafdrifinni opnun á afturhlera. Bíllinn er stútfullur af öryggisbúnaði ættuðum úr smiðju Volvo.
R-design útfærslan er mjög sportleg og er komin með 19 tommu R-design álfelgur, sportfjöðrun, sportsæti ásamt allskyns flottum aukahlutum utan á bílinn eins og R-design afturstuðara með Glossy Black listum, R-design grilli og svo mætti lengi telja.
Frábær akstursbíll
Eftirtektarvert er hversu gott er að aka Volvo XC40. Bíllinn er sérlega lipur og stýrið létt en þó ekki of létt. Stýrið er nákvæmt og aksturseiginleikar skemmtilegir í snjó og ófærð. Sætin halda vel utan um ökumann og farþega og nægt pláss er bæði frammí og afturí. Sætin eru nýstárleg að því leitinu að bökin í framsætunum eru talsvert þunn og því næst meira pláss afturí.
Sjö þrepa sjálfskiptingin vinnur sína vinnu án þess að ökumaðurinn þurfi að hafa einhverjar áhyggjur, þú finnur vart fyrir skiptingunni og það sem meira er bíllinn er nánast hljóðlaus. 9 tommu Volvo margmiðlunarskjárinn er einn af okkar uppáhalds og er næmur og snöggur að svara. Svo getur maður fylgst með Íslandskortinu í mælaborðinu sjálfu á milli stafræns hraða- og snúningsmælis.
Þú spólar lítið á Volvo XC40. Tengitvinntæknin gerir það að verkum að það þarf að endurhugsa aðeins ef bílinn festist í snjó.
Það þýðir ekkert að ætla að hjakka svona tækniundri út úr snjóskafli. Það fyrsta sem þarf að gera er að slökkva á spólvörn bílsins og moka svo frá hjólum eins og hægt er. Við reyndar fundum ekki út úr því hvar þá stillingu var að finna í stjórnkerfi bílsins fyrr en við vorum búnir að ná okkur út úr skaflinum á gamla mátann – með því að ýta.
Við hreinlega gleymdum okkur í „jeppaleik“ frekar en að gúggla okkur í gegnum stjórnkerfi bílsins.
Kraftur í kögglum
Upplifun í akstri á Volvo XC40 var frábær. Að okkar mati er þetta mjög vel búinn sportjeppi sem fáanlegur er í fjölda útfærslna. Hægt er að fá bílinn með 150 hestafla díselvél og með aldrifi.
Mjúkur en þéttur, mikil akstursþægindi og nægilegt pláss eru helstu kostir þessa glæsilega nýja Volvo tengtvinns bíls. Og ekki spillir verðið fyrir – mjög hagstætt verð er á bílnum.
Helstu mál:
Plúsar: Hönnun, aksturseiginleikar, tæknibúnaður
Mínusar: Djúpt á sumum stillingum í stjórnkerfi
Helstu tölur:
Verð frá: Volvo T5 PHEV: 5.350.000 til 6.150.000.
Verð á sýndum bíl: Momentum Pro (kr. 5.650.000).
Hestöfl: 262.
Tog: 425NM.
WLTP Drægni á rafhlöðu: 51-56 km. í borgarakstri.
Eyðsla: 2,0 l/100km
L/B/H: 4.425/2.034/1.652mm