Úti er frost og snjór
Það er vetur. Á það vorum við rækilega minnt um nýliðna helgi. Úti er frost og snjór, allir vegir á korti Vegagerðarinnar eru gulir eða bláir sem þýðir snjór og hálka. Þegar ég fór á fætur á laugardagsmorguninn blast við mér innkeyrsla full af snjó og gatan fyrir framan hana líka. HiLuxinn stóð að vísu uppúr skaflinum en Kian eiginlega ekki.
Og gatan var gersamlega ófær að sjá. En ég varð að komast að heiman. Það þurfti að bjarga einum unglingi fjölskyldunnar á og af handboltaæfingu. Framtíð íslensks handbolta var í húfi. Og með hið íslenska “þetta reddast” hugarfar að vopni tókst mér að böðla pickuppinum út á götu þar sem nágranni minn á stóra, breytta jeppanum sínum var búinn að marka slóð í skaflana alla leið upp á næstu stofnbraut.
Án hans hefði ég aldrei komist þangað. Hvar værum við án hins séríslenska jeppa?
Á svona dögum duga engir venjulegir fólksbílar til neins nema að skreyta innkeyrslur. En dagana á eftir, þó búið sé að ryðja götur, alla vega þær helstu þá
Eru sumir bílar einfaldlega hentugri en aðrir. Í mínum huga er það einkum eitt, sem skilgreinir hentugleika bíla við þannig aðstæður og mér þykir hreinlega vera spurning um umferðaröryggi. Fjórhjóladrif (eða fjagradekkjadrif eins og dóttir mín kallaði það þegar hún var lítil).
Jepplingur
Nú er ég ekki að segja að allir þurfi að eiga jeppa, lítt eða óbreyttan, hvað þá tröllvaxna breytta jeppa, það er bara fyrir þá sem vilja fara rauðu vegina eða snæviþakið hálendið (nú eða brjóta leiðina út úr íbúðargötum fyrir okkur hin). Hér koma helst til hjálpar hinir sívinsælu “sportjeppar” eins og bílaumboðin vilja mörg kalla þá.
“Jepplingur” hefur einnig verið notað yfir þessa gerð bíla og kom fyrst fram í íslensku ef ég man rétt einhvers staðar um eða uppúr 1990 þegar hingað barst fyrsta kynslóð Toyotu Rav4. Þar birtist ný gerð bíla.
Leit út eins og lítill jeppi búinn fjórhjóladrifi en ekki í hinni þá hefðbundnu jeppaskilgreiningu. Engar heilar hásingar, engir millikassar, í raun ekki torfærutæki heldur fjórhjóladrifinn fólksbíll sem þóttist vera jeppi. Fjórhjóladrifnir fólksbílar höfðu verið í boði áður og nægir þar að nefna sem dæmi fyrstu Subarubílana sem hingað komu undir 1980 og slógu rækilega í gegn; hóflega stór stationbíll (langbakur) með fjórhjóladrifi.
Og ekki má gleyma AMC Eagle sem ég hef fjallað um áður hér á vefnum.
Og svo kom Lada Sport
Fram til þess tíma vorum við bundin við galmaldags “alvöru” jeppa að mestu. Í mínum uppvexti voru þetta Land Rover, Rússajeppar og Willys jeppar, Bronco og Scout, Wagoner og Cherokee og einhverjir fleiri. Land Cruiser var kominn til sögunnar og svo kom Lada Sport.
Lada Sport, sem hét raunar Lada Niva (Sport viðhengið var algerlega sér íslenskt, en ég kann ekki söguna á bak við það).
Þessi litli, netti jeppi (já, Ladan var það) er í mínum huga forveri jepplinganna en við bara föttuðum það ekki þá. Það hugtak varð ekki til fyr en með RAVinum eins og áður sagði.
Margir aðrir fólksbílaframleiðendur stukku síðar á þann vagn að bjóða fjórhjóladrifna fjórhjóladrifi; Audi, BMW, Benz og Volvo koma upp í hugann; Toyota bauð Corollur þannig útbúnar um tíma og ég veit að marga aðra mætti nefna, ég nenni bara ekki að rifja þá alla upp.
Alla vega; fjórhjóladrifið heillaði Íslendinga skiljanlega vegna þess hvernig vegakerfið okkar var og þess plagsiðar veðurguðanna að ausa yfir okkur snjó í tíma og ótíma. Um miðjan áttunda áratuginn, þegar téður Subaru kom til sögunnar
Og síðan eru liðin mörg ár, eins og skáldið sagði
Og hvar erum við í dag? Jepplingurinn, hóflega stóri fjórhjóladrifni fjölskyldubíllinn hefur eiginlega verið heitasta söluvaran á íslenskum bílamarkaði undanfarin allmörg ár. Enda, búandi í landi sem reglulega er ausið snjó og hálku er klárlega ekkert vit í öðru en fjórhjóladrifi.
Það er einfaldlega öryggisatriði, auk þess að auðvelda okkur að komast leiðar okkar þegar færð þyngist. Sem betur fer þarf ég ekki að eiga fullvaxinn jeppa til að uppfylla þá öryggisósk. Þeir eru fyrir fólk sem ætlar eitthvað meira og lengra en ég, þessi venjulegi meðalmaður.
En nú eru kannski blikur á lofti. Hvað með rafbílana? Þeir bjóða vissulega sumir upp á fjórhjóladrif og orkuskiptin ættu því engu að breyta hvað varðar fjórhjóladrifsnotkun okkar. Hvernig þeir síðan munu reynast í samanburði við bensín- eða olíubrennandi forfeður sína á eiginlega eftir að koma í ljós.
En þangað ætla ég ekki að sinni, kannski síðar. Alla vega; niðurstaðan (sem var svo sem augljós strax í upphafi greinar) er, að fjórhjóladrifnir bílar eru miklu betri við okkar aðstæður en eindrifsbílar.
En þessarri fullyrðingu má auðvitað andmæla með þeim rökum að það séu nú ekki nema nokkrir dagar á ári sem það skiptir máli og það sé fullkomin heimska að nota þyngri og eyðslufrekari bíl alla hina dagana bara til að dekka þessa örfáu.
Og svo fáum við hér suð-vestanlands snjólausa vetur inn á milli. Svo, enda á ég ekkert með að reyna að hafa vit fyrir fólki frekar en hver annar, ætla ég ekkert að kveða upp endanlegan dóm þar um (þó ég sé samt eiginlega búinn að því).
Mér bara finnst þetta.
Umræður um þessa grein