Mikill rafbílameistari í Bretlandi sem sérhæfir sig í að rafvæða fornbíla, er núna með óstjórnlega spennandi verkefni í vinnslu. Þetta verður svo mikil snilld að… Afsakið! Leyfum manninum að fletta ábreiðunni af því sem hann fullyrðir að muni taka 1000 hestafla Teslu Plaid í nefið.
Dagsdaglega vinna karlarnir (sem við sjáum í meðfylgjandi myndbandi) að breytingum á bílum, allt eftir óskum viðskiptavina. Þetta er aftur á móti einkaverkefni sérfræðingsins Richards hjá ECC (Electric Classic Cars) sem hann dundar við þegar tími gefst til.
Stóri munurinn er sá að í þessu verkefni getur hann búið til öflugra tryllitæki en maður þorir að ímynda sér. Tryllitæki sem getur verið fislétt og ekki þarf að lúta takmörkunum götuskráðra bíla: þetta tryllitæki ætlar nefnilega ekki út í umferðina heldur í kappakstur!
Markmiðið að „mala“ Teslu Plaid
Fullyrt er í myndbandinu að Tesla Model S Plaid megi hreinlega vara sig þegar þessi verði kominn á ról. Plaid er rúmlega 1000 hestöfl og er í sannleika sagt algjört hröðunar-ofur-sega-mega-fyrirbæri! Ef þið hafið ekki heyrt um slík fyrirbæri þá er það skiljanlegt en 2021 Tesla Model S Plaid er innan við 2.2 sekúndur úr kyrrstöðu upp í 100 km/klst og hefur sá bíll farið kvartmíluna á 8.944 sekúndum sem gerir bílinn að hraðasta rafbíl veraldar, ef ég skil þetta rétt.
Það er því stór fullyrðing þegar Richard segist ætla að „mala“ Teslu Plaid en í myndbandinu útskýrir hann meðal annars hvað þurfi (5:41) til að gera það! Virkilega fræðandi og snjallt!
Mig langar að fylgjast með þessu verkefni frá byrjun og það mun ég gera. Spurningin er aftur á móti sú hvort þið, kæru lesendur, hafið áhuga á því líka? Endilega skrifið athugasemdir eða „lækið“ þetta á Facebooksíðunni svo ég hafi einhverja hugmynd um hvort áhugi sé fyrir frekari umfjöllun!
En hér er myndbandið og ég stillti það þannig að spilun hefst á þeim tímapunkti sem ábreiðan er tekin af (en áhugasamir geta byrjað á byrjuninni):
Umræður um þessa grein