Tesla Model 3 fyrsti rafbíllinn til að toppa söluna í Evrópu
Bíll sem notar aðeins rafhlöður seldist meira en Renault Clio og VW Golf
Tesla Model 3 var söluhæsta ökutækið í Evrópu í síðasta mánuði, í fyrsta skipti sem fullrafmagnsbíll fer fram úr keppinautum með brunavélum.
Með 24.591 bílum skráðum í september jókst salan á Model 3 um 58 prósent milli ára. Næst mest seldi bíllinn var Renault Clio, þá kom Dacia Sandero og síðan Volkswagen Golf, samkvæmt JATO Dynamics.
Frammistaða Model 3 endurspeglar að hluta „ákafa sölusókn Tesla í lok ársfjórðungs,“ sagði rannsóknarfyrirtækið í skýrslu sem gefin var út á mánudag.
Að ná mánaðarlegri „sölukórónu“ er stór áfangi fyrir rafbíla og enn eitt merki þess að bílaiðnaðurinn er að flýta snúningi sínum frá brunavélinni.
Ríkisstjórnir bjóða upp á rausnarlega hvatningu til að tæla kaupendur til að skipta út bílum með brunahreyfla, og taka í staðinn rafknúna og tengitvinnbíla, átak sem skilaði um 23 prósentum af markaðnum í september, sem er nærri tvöföldun frá 2020.
Samt sem áður kemur þessi þróun á sama tíma og bakgrunnur bílasölu í Evrópu er erfiður vegna þess að skortur á hálfleiðurum á heimsvísu dregur úr framleiðslu og seinkar afhendingum til viðskiptavina.
Nýskráningum bíla fækkaði um fjórðung í síðasta mánuði og umboðsaðilar eiga í erfiðleikum með að fylla á lagerinn.
„Vaxandi vinsældir rafbíla eru uppörvandi, en salan er ekki enn nógu mikil til að vega upp á móti miklum samdrætti sem sést í öðrum flokkum,“ sagði JATO.
Þessar tímamótasölutölur koma þegar Tesla bíður lokasamþykkis fyrir fyrstu evrópsku gigaverksmiðjuna sína í Gruendheide nálægt Berlín, en Elon Musk forstjóri vonast til að framleiðsla á Model Y geti hafist á þessu ári.
Í flokki rafbíla voru Tesla Model 3 og Y í fyrsta og öðru sæti í september, með Volkswagen ID3 í þriðja sæti.
(Bloomberg – Reuters – Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein