- Allt að 629 km drægni, endurbætur í búnaði og innréttingu
Tesla á Íslandi bauð áhugasömum gestum til sín í Vatnagarðana á þriðjudagskvöldið til að skoða nýjan og uppfærðan Model 3. Áhugi gestanna leyndi sér ekki, og mikið spurt og skoðað.
Að sögn Herjólfs Guðbjartssonar framkvæmdastjóra Tesla á Íslandi fengu þeir góðan skammt af bílum, og nokkrir eru þegar seldir.
Mikið af nýjungum
Bílablogg var á staðnum og við fyrstu sýn er allmikið af nýjungum í þessum uppfærða Model 3. Þar á meðal má nefna enn betra hljómkerfi en áður, sérsniðin umhverfislýsing, hiti og loftræsting í sætum, skjár fyrir aftursæti og innréttingin í heild endurbætt.
A utan er minna sýnilegt af breytingum, fyrir utan afturendann þar sem frágangur á afturljósum er breytt frá fyrri gerð, og opnun á farangursrými er einnig önnur.
Hér að aftan er einna mesta breytingin. Umbúnaður ljósanna er breyttur og neðst er komin ný „vindskeið“ sem á að bæta loftflæðið að mun.
Allt að 629 km drægni
Kaupendur á nýjum Model 3 þurfa ekki að vera með „drægnikvíða“ því samkvæmt WLTP-staðli er hægt að aka allt að 629 kílómetra áður en stinga þarf aftur í hleðslu.
Verð frá 6.299.788 kr
Model 3 er í boði í tveimur gerðum: Model 3 með afturhjóladrifi, sem er með drægni upp á 513 km, sem kostar frá kr. 6.299.788 og síðan Model 3 Long Range með aldrifi sem kostar frá kr. 7.539.788 kr. Báðar gerðirnar eru til afhendingar í nóvember-desember 2023.
Reynsluakstur
Bílablogg mun taka þennan nýja Model 3 í reynsluakstur næstu daga og birtist grein um hann fljótlega hér á vefnum okkar. Þar munum við gera miklu betri grein fyrir þessum nýjungum. En þangað til mælum við með að áhugasamir bregði sér til Tesla í Vatnagörðum og skoði bílinn.
Umræður um þessa grein