„Bylting rafbílanna er nær en við höldum,“ segja þeir hjá Autovia
Í dag, 9. september, er alþjóðlegi rafbíladagurinn – „World EV Day“ – en að baki „Alþjóðadegi rafbíla“ stendur alþjóðleg hreyfing sem ýtir undir breytingar í hinu stóra samhengi. Dagurinn í dag, 9. september, er nefnilega dagur til að fagna „rafdrifnum hreyfanleika“ (e. emobility) og einmitt „dagurinn til að setja stefnuna á sjálfbærar samgöngur“, segir á heimasíðu World EV Day.
Á þessu ári, mun World EV Day spyrja fyrirtæki um allan heim hvernig þau hafi hugsað sér að leggja sitt af mörkum til átaksins er nefnist #DriveChange. #DriveChange er ákall umhverfiselskandi fólks og samtaka til bílaframleiðenda um að stöðva framleiðslu bensín- og dísilbíla fyrir árið 2030.
World EV Day er líka góður dagur til að hvetja rafbílaeigendur til að deila sögum um hvernig ferðalag þeirra til „rafknúinna samgangna“ gekk fyrir sig og eru þeir sem til eru í tuskið hvattir til að nota myllumerkið #GoEV á samfélagsmiðlum.
World EV Day og samstarfsaðilar hreyfingarinnar vinna bæði að því að ýta úr vör stafrænum herferðum ýmiss konar og rétta öðrum tækin og tólin til að leggja upp í slíkar ferðir. Þ.e. stafrænar herferðir.
Bjuggu til hinn „fullkomna rafbíl“
Autovia, útgefandi Auto Express, Carbuyer og DrivingElectric, vildi komast að því hvað það nú væri sem kaupendur rafbíla sækjast helst eftir. Hver, að þeirra mati, er uppskriftin að hinum fullkomna rafbíl!
Hvernig finnur maður þá uppskrift? Jú, með því að leita á réttum stöðum.
Autovia notaði niðurstöður úr ánægjukönnun Driver Power og markaðsupplýsingar sölusíðunnar BuyaCar.co.uk. auk reynslu sérfræðinga Autovia til að greina hvað það nú er sem kaupendur kunna best að meta þegar rafbílar eru annars vegar. Hvaða kostum væri hinn fullkomni rafbíll prýddur?
Hinn fullkomni rafbíll ársins 2021 myndi, samkvæmt því sem athuganir Autovia leiddu í ljós, státa af hleðsluhraða Porsche Taycan, hagkvæmni Citroen e-Berlingo, innréttingu BMW i3 og drægni Mercedes EQS. Þessir eiginleikar, og margir aðrir góðir, hafa nú verið sameinaðir til að búa til Autovia EV-21, sem var kynntur formlega í dag, á alþjóðlega rafbíladeginum.
Útkoman nefnist Autovia EV-21; „tilgátubíll“ smíðaður úr lykilþáttum allra bestu rafbíla sem bjóðast kaupendum í dag. Bíll sem sýnir og sannar að punkturinn sé nú þegar „yfir i-inu“: Ekkert hindri hann í að bruna út úr verksmiðjunni og beint út á þjóðveg 1.

Svona yrði hann þá: Autovia EV-21
Afköst, hagkvæmni og hagstætt verð eru grundvallaratriði þegar kemur að því að reyna að opna augu íhaldssamra og vanafastra ökumanna fyrir nýjungum á bílamarkaði – einkum og sér í lagi þegar um rafbíla er að ræða.
Í dag birti AutoExpress-vefurinn mynd af Autovia EV-21, sem innanbúðarmenn segja að færi sönnur á að allt það sem fólk sér fyrir sér í hinum „fullkomna rafbíl“ sé nú þegar til staðar í hinum fjölmörgu rafbílum sem þjóti eftir breskum vegum dags daglega.
Sneiðin með öllu kökuskrautinu
Autovia EV-21 samanstendur af þáttum rafbíla þvert á litróf rafbílanna að sögn Auto Express. Eins konar þverskurður af því besta. Kökusneið með öllu gúmmulaðinu.
Hleðsluhraðinn kemur frá Audi e-tron GT og Porsche Taycan, með 800 volta rafkerfi þeirra. Audi getur bætt um 100 km drægni fyrir hverjar fimm mínútur sem hann fær í hraðhleðslu. En það er Mercedes EQS sem beinlínis gefur Autovia EV-21 aksturssvið sitt. Með tæplega 770 kílómetra drægni á rafmagninu getur bíllinn komist frá London til Glasgow á einni hleðslu.
Og það er Mercedes EQS, auk hins magnaða Hyundai Ioniq 5, sem leggja EV-21 til þægindin í akstri. Það eru fáir rafbílar betur fallnir til langferða en þeir.
Þegar kemur að frammistöðu, er það Rimac Nevera sem hefur upp á að bjóða einstaka hröðun: Innan tveggja sekúndna kemst sá bíll úr 0 í 100 km/klst og 406 km/klst er hámarkshraðinn. En það er þó Porsche Taycan sem bíll Autovia tekur mið af í þessum efnum.
„Ljótasti bíll í heimi“
Vefurinn Autoevolution skefur ekkert utan af því og kallar þennan „tilgátubíl“ þann „ljótasta í heimi“ frá því að menn gerðu tilraun árið 1957 sem gekk út á að búa til öruggasta bíl í heimi og útkoman var Aurora hugmyndabíllinn.
Autoevolution segir: „Hugmyndabíllinn, sem er kallaður Autovia EV-21, er útkoma rannsóknar sem gerð var á aukinni hlutdeild rafbíla á breskum bílamarkaði og er tilraun til að blanda saman bestu eiginleikum vinsælustu rafbílanna.
Því miður er bíll þessi líka samsuða ýmissa hönnunarhluta úr þessum rafknúnu ökutækjum, og úr verður algjör Frankencar [hryllingsbíll] sem er líklega það ljótasta á hjólum síðan Aurora öryggishugmyndabíllinn var kynntur til sögunnar árið 1957.“ Svo mörg voru þau orð.
En skoðum nánar forsendur Autovia:
„MINI Electric sér um skemmtilegu hliðina; ögrandi útlitið og slörkulegan undirvagninn. En Honda e leggur til græjurnar sínar – þar á meðal „sýndarfiskabúr“ sem hægt er að varpa á skjái bílsins. BMW i3 er mögulega elsti bíllinn hér, en fagurhönnuð innrétting hans, með blöndu af ljósum viði og efnum úr plöntutrefjum, lítur ekki bara vel út heldur undirstrikar umhverfisvottorð bílsins.
Að lokum er það Citroen e-Berlingo sem kemur hér inn með sína hagkvæmni. Einkenni hans, kassinn, gefur til kynna að þar megi koma fyrir sjö manns en með því að leggja niður öll sætin skapast 4.000 lítra rými.“
„Rafbílabyltingin er nær en við höldum“
Steve Fowler, aðalritstjóri Autovia, sagði: „Að koma fram með okkar eigið fullkomna rafknúna ökutæki með því að sameina það besta úr núverandi ökutækjum er besta leiðin til að sýna fram á að rafbílabyltingin er nær en margir gera sér grein fyrir.
Við íhuguðum alla þætti sem fólk elskar varðandi bestu rafbílana á markaðnum í dag; allt frá verði eða rekstrarkostnaði, skoðuðum hleðsluhraða og aksturssvið, hagkvæmni, þægindi og tegundir tæknilegra íhluta í bílunum.
Þetta leiddi í ljós að flest vandamál sem hindra fólk í að taka af skarið og fá sér rafbíl er þegar búið að leysa og að næsta skref er að sameina allar þessar lausnir í næstu kynslóð rafbíla.
Við erum fullviss um að þetta mun gerast fyrr en margir vilja trúa og þessi ímyndaði fullkomni rafbíll okkar mun ekki vera tilgátubíll mjög lengi.“
(Grein þessi er byggð á fréttum og greinum Auto Express, Autoevolution og heimasíðu World EV Day)
Umræður um þessa grein