- Ath. myndband með þessari grein
Það er ekki á hverjum degi sem við fáum að prófa fyrsta rafbílinn frá rótgrónum bílaframleiðanda. En nú hefur Suzuki stigið sín fyrstu rafmagnsspor með nýja Suzuki eVitara – og það með glæsibrag.
Bíllinn er þróaður af Suzuki í samstarfi við Toyota og ber keim af metnaði, bæði í útliti, tæknibúnaði og aksturseiginleikum.
Við prófuðum bílinn við fjölbreyttar aðstæður í Frankfurt – allt frá torfæruslóðum til hraðbrauta – og niðurstaðan er einföld: eVitara er miklu meira en bara tilraun.

Suzuki eVitara er 100% Suzuki, hagkvæmni, notagildi og þægindi ásamt rómuðum Suzuki gæðum prýða þennan nýja rafbíl.
Stærri, sterkari og stílhreinni
eVitara hefur stækkað töluvert miðað við eldri bensínútgáfur og mætir með öllu öðruvísi yfirbragði. Lengdin er 4.275 mm, breiddin 1.800 mm og hæðin 1.635 mm.






Með hjólhaf upp á 2.700 mm fær bíllinn yfirbragð jeppa í meðalstærð og skilar sér í mun betra innanrými, ekki síst í aftursætum.
Hann stendur hátt – með 180 mm veghæð – og fæst með 18 eða 19 tommu álfelgum, sem undirstrikar útlit og getu á fjölbreyttu undirlagi.

Hátt undir lægsta punkt. Um 180 mm. Bíllinn stendur hátt og útsýnið er gott hvar sem þú situr í bílnum.
Tæknibúnaður sem skilar öryggi og þægindum
Suzuki eVitara kemur með ríkulegum búnaði, sérstaklega í GLX útfærslu. Hér er það helsta sem stendur upp úr:
- Skynvæddur hraðastillir – heldur sjálfvirkri fjarlægð við ökutæki á undan.
- Akreinavari og akreinastýring – aðstoðar við að halda bílnum í sinni akrein.
- Umferðaskiltalesari – les hraðaskiltin og sýnir í mælaborðinu.
- Rafdrifið ökumannssæti – í GLX útgáfu, með minni fyrir stillingar.
- Apple CarPlay og Android Auto – þráðlaus tenging við snjallsíma.
- Stór margmiðlunarskjár – auðvelt aðgengi að leiðsögn, tónlist og stillingum.
- Rafdrifin sóllúga – í boði sem valkostur.
- Bakkmyndavél og 360° umhverfismyndavél – auðveldar alla aðkomu.
- Full LED ljósabúnaður – lýsir vel og skapar sterkt yfirbragð.
- 19” álfelgur í GLX – setja punktinn yfir i-ið í útliti og aksturseiginleikum.
- Þráðlaus hleðsla fyrir síma.
Kraftmikill og öruggur akstur
Tvöfaldir rafmótorar (einn að framan og annar að aftan) skila samtals um 180 hestöflum og 307 Nm í togi – nóg til að skila liprum og kraftmiklum akstri í borginni sem og úti á landi.
Fjórhjóladrifið er alltaf virkt og skilar hámarksgripi í öllum aðstæðum. Fjórhjóladrifskerfi Suzuki, All Grip hefur verið í hópi þeirra bestu um langt árabil.

Hönnun bílsins hefur tekist vonum framar því þetta er fallegur gripur, bæði að innan og utan.







Rafhlaðan er 61 kWh, og styður hraðhleðslu allt að 90 kW, sem þýðir að hún getur náð 80% hleðslu á um fjörtíu og fimm mínútum. Fyrir heimahleðslu býður eVitara upp á 11 kW AC-hleðslu, sem gerir hleðslu heima einfaldari.
Bíllinn er einnig framleiddur með 49 kWh rafhlöðu en verður aðeins boðinn með þeirri stærri hér á landi og fjórhjóladrifinn skv. upplýsingum sem liggja fyrir núna.
Rafhlaðan vel varin
Verulegur kostur í nýjum eVitara er hylkið sem byggt er utan um rafhlöðuna til að verja hana hnjaski. Það gerir bílinn mun hagnýtari og hægt að nota hann meira sem jeppling en ella.

Sætin eru þægileg, halda vel við og seturnar nægilega djúpar. Í þessum bíl eru rafstillanleg sæti.
Flestir rafbílaeigendur hlaða annaðhvort við vinnustað eða heima yfir nóttina. Suzuki skilar vel heppnaðri uppsetningu á hleðsluhraða með því að bjóða 11 kWh hleðsluhraða úr heimahleðslustöð, eitthvað sem er bæði hagkvæmt og skynsamlegt.

Plássið aftur í er ljómandi (sjá myndband). Höfuðpláss sleppur fyrir hávaxnari einstaklinga og vel fer um tvo fullorðna aftur í, ef til vill þrjá í styttri ferðum.
Suzuki eVitara fylgir vandað app sem þú getur talað við bílinn í gegnum. Þú getur forhitað bílinn með einföldum hætti, stillt hleðslutíma ásamt mörgu fleiru. Appið er sérlega einfalt og aðgengilegt og hefur verið lögð vinna í að hafa það sem skilvirkast fyrir notendur.
Innanrými, hugsað fyrir fólk
Plássið inni í eVitara kemur skemmtilega á óvart. Hönnun innanrýmis er bæði stílhrein og notendavæn, með góðum efnisgæðum, einföldum stýringum og góðu útsýni.

Skottið mætti alveg vera stærra en það er lítið mál að fá meira pláss með niðurfellingu sæta eftir því hve margir þurfa sæti. Hér er skiptingin 40/20/40 sem þýðir að hægt er að fella niður miðjuna fyrir lengri farangur, skíði eða gardínustangir til dæmis.
Farangursrýmið: Smærra en hjá keppinautum – en með sveigjanleika
Þó Suzuki eVitara bjóði upp á rúmgott innanrými fyrir farþega, er farangursrýmið í grunnstillingu um 320 lítrar, sem er minna en hjá helstu keppinautum eins og Kia EV3, Ford Puma Gen-E og Hyundai Kona Electric.
Hins vegar er eVitara hannaður með sveigjanleika í huga – með því að renna aftursætunum fram má auka plássið í allt að 310 lítra, sem getur skipt máli þegar ferðalög eða innkaup eru framundan.

Í fjórhjóladrifsbílnum eru tveir rafmótorar á sitthvorri drifrásinni. Samtals gefa þeir um 181 hestafl og toga um 307 Nm. Bíllinn er virkilega snarpur og gott að aka. Fjöðrunin var fín á því yfirborði sem við prófuðum bílinn – en prófað var á misgrófum vegaköflum og „drullubraut” þar sem var reynt að líkja eftir grófu vegyfirborði.

Niðurstaða: eVitara er kominn til að vera
Suzuki eVitara er glæsilegur inngangur Suzuki inn í rafbílaheiminn – og það með látum. Með hárnákvæmu fjórhjóladrifi, háþróuðum búnaði, rúmgóðu innanrými og fágaðri hönnun er hann bæði skynsamur og stílhreinn kostur fyrir þá sem leita að traustum rafbíl með jeppaeiginleika.
Eins og málin standa í dag verða tvær útfærslur í boði á Íslandi – GL og GLX – svo hver og einn getur valið eftir sínum þörfum og óskum.

Myndband
Helstu tölur:
Hestöfl: 181hö.
Tog: 307 N⋅m.
Rafhlöðustærð: 61 kWh
Hraðhleðslugeta (DC): 90 kW
Heimahleðslugeta (AC): 11 kW
Hleðslutími á hraðhleðslu: uþb. 40 mín.