Sum nöfn eru verri en önnur
Þeir urðu nú til nokkrir brandararnir þegar hinn ágæti bíll Volkswagen Bora kom á markað hér á landi. Ótrúlegasta fók fór að segja brandara og sumir raunar reyttu þá af sér.
Þetta man ég vel því fyrrum tengdafaðir minn átti svona bíl og einhvern daginn þegar ég vildi gleðja gamla manninn tók ég bílinn, þvoði hann og bónaði. Þá áttu leið hjá margir „fyndnir“ karlar og þótti ungri stúlkunni nóg komið af BORU-gríni.
BORAT skýtur sprellikörlum ref fyrir rass
Þar sem við hér á Bílabloggi erum kurteist fólk verður ekkert farið nánar út í þetta grín hér.
Svo var það sonur kunningja míns sem eignaðist VW Bora og varð skjótt þreyttur á gríninu sem elti tegundina hvert sem hún fór. Hann gerði sér lítið fyrir og skeytti stafnum T fyrir aftan BORA og var þá kominn með gott grín sem væntanlega skrúfaði niður í borubröttum sprellikörlum. VW BORAT vakti athygli þar sem hann fór og ekki amalegt að búa þar til hugrenningartengsl við karakterinn Borat Sagdiyev sem grínarinn Sasha Baron Cohen skapaði.
Ford Kuga eða Kjúka?
Þú ræður framburðinum en hér á landi er oftar sagt KJÚGA en KUGA. Sumir segja KJÚKA sem er nú ágætt og merkir fremsti fingurliður. Það er fínt. Þetta er eldfimt umræðuefni þannig að ég hreinlega þori ekki að fjalla meira um Ford Kuga.
Hvað sem framburði og öðru líður hefur bíllinn notið mikilla vinsælda hér á landi.
Æj, notum bara tölustafi…
Nafn bíltegundar sem í upphafi þótti saklaust getur á öðru tungumáli gjörsamlega gert allt vitlaust. Af einhverjum ástæðum virðist tengingin oft vera við nöfn yfir úrgang eða kynfæri. Það er afleitt og ákaflega vandræðalegt en einnig skýringin á því að tegundir fá stundum annað heiti í löndum þar sem bagaleg orðafarsleg skörun verður.
Audi, Mercedes-Benz og BMW (svo dæmi séu tekin) hafa lengi notast við tölustafi og einstaka bókstafi til að skilgreina sína bíla: Q7, A4, 518, 540, E-Class, G500 og fleira í þeim dúr kemur sennilega í veg fyrir að blygðunarkennd kaupenda verði særð alvarlega. Hvað sem tungumálum líður.
Pútur og Nóvur
Talið er að tæp átta prósent jarðarbúa, eða eitthvað um 600 milljónir manna séu spænskumælandi. Það er einmitt mjög algengt að heiti tegunda komi illa út í löndum þar sem spænska er mál málanna. Blessaðir bílaframleiðendurnir þurfa að vanda sig til að blása ekki um koll við fúkyrðaflaum móðgaðra Spánverja.
Laputa hét bíll nokkur sem Suzuki framleiddi undir merkjum Mazda. Það var ekki gott nafn því La puta hefur á spænsku merkinguna portkonan.
Nafnið var, að því er fram kemur á hinum mistæka veraldarvef, fengið úr Reisbók Gúllivers eftir Jonathan Swift. Þar var Laputa nafn á eyju en sem nafn á bíl hefur það verið talið eitt það óheppilegasta sem um getur.
Chevrolet Nova þekkja margir en á spænsku má hluta nafnið „nova“ í tvennt og er þá komið „no va“ og þýðir „fer ekki“ eða hreinlega „gengur ekki“. Þetta er ekki vettvangur fyrir beygingarmyndir spænskra sagnorða svo ég læt hér staðar numið í málvísindum.
Ósætti innan Picasso-fjölskyldunnar
Árið 1999 kom á markað Citroen Xsara Picasso. Sonur listamannsins mikla, Pablo Picasso, hafði gert samkomulag við bílaframleiðandann en það breytti því ekki að aðrir í fjölskyldunni voru lítt kátir. Í það minnsta var Marina Picasso alveg foxill út af þessu uppátæki frænda síns að bendla nafn og list afa hennar við bíltegund.
Einn hauslaus og öðrum vorkennt
Það er frekar vafasamt að vísa til merkingar orða á tungumálum sem maður kann ekki sjálfur. Frönsku kann ég ekki en ég greiði fyrir aðgang að orðabókinni Snöru (óviðeigandi tenging því ég er að fara að skrifa um afhöfðun…) og þar gat ég fegið staðfest að TT Coupè (Audi) væri óheppilegt nafn á bíl á meðal frönskumælandi.
Framburðurinn á TT Coupè mun vera afar áþekkur því þegar sagt er á frönsku „Tete coupè“ sem ku vísa til afhöfðunar. Óheppilegt. Ítreka að ég tala sjálf ekki frönsku og vísa í Snöruna!
Chrysler PT Cruiser er umdeildur bíll, einkum hefur það verið útlit bílsins sem skiptar skoðanir eru um. Burtséð frá fagurfræðinni hefur nafnið verið haft í flimtingum, t.d. í Bandaríkjunum. PT vísar til „personal transportation“ en PT hljómar áþekkt orðinu „pity“ sem merkir á okkar ástkæra og ylhýra vorkunnsemi, samúð eða meðaumkun.
Hafa margir sprellikarlar og grínarar eflaust hent að því gaman þegar ekið er framhjá biluðum „PT“ úti í vegkanti.
Spaugsamir bílaframleiðendur?
Með nútímatækni ætti að vera hægt að fyrirbyggja eitt og annað hvað merkingu nafna áhrærir. Þ.e. að merking nafnsins sé ekki voðaleg t.d. í því landi sem gert er ráð fyrir að bíllinn verði seldur.
Þess vegna er máski sérstakt hugsa til þess að tengitvinnbílar Audi kallist „e-tron“ þegar „ètron“ á frönsku þýðir hvorki meira né minna en „skítaköggull“ samkvæmt Snöru.
Kannski er þetta einkahúmor hjá bílaframleiðendum sem gengur stundum of langt.
Ekki er þó allt vont!
Nú var ekki ætlunin að vera með einhvern gálgahúmor út í eitt né heldur að rakka tegundir niður. Síður en svo. Tungumál heimsins eru, samkvæmt nýlegri „talningu“ málvísindamanna í Ameríkunni stóru, á bilinu 6.500 til 7.000.
Það er því ekkert undarlegt að hin ýmsu nöfn geti komið herfilega illa, kindarlega og jafnvel ruddalega út á einhverjum tungumálum. Annað væri ámóta ólíklegt og að vinna stóra vinninginn í EuroJackpot.
Sonur minn sagði mér í óspurðum fréttum í sumar að kunningi okkar væri „búinn að fá sér nýja konu“ og mér dauðbrá enda maðurinn nýgiftur og allt virtist í lukkunnar velstandi. „Já,“ sagði sonur og bætti við: „þetta er 100% rafmagnsbíll.“
Nöfnin Hyundai Kona og Opel Karl koma held ég bara vel út á íslensku.
Steinum kastað úr glerhúsi
Svona í blálokin er vert að líta aðeins á sitt eigið nafn. Hvað er ég, Malín Brand, að skrifa um svona lagað? Á ýmsum tungumálum heiti ég Malín Eldur, Bruni, Eldsvoði eða Eldibrandur. Svo ekki sé kafað dýpra í Malínarnafnið… Mal- er forskeyti á ýmsum tungumálum í merkingunni vont. Og ekki orð um það meir!
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein