Súkkulaðibíll í fullri stærð – en ekki hvað?
Súkkulaði er það sem flæðir nánast út um eyrun á íslenskum krökkum á páskum. Fullorðnir japla á gotteríinu þegar færi gefst eða í formi „ruslatunna“, þ.e. þeir fá molana sem börnin vilja ekki. Nóg um það!
Hjón nokkur í Ameríkunni stóru, þau Jim Victor og Marie Pelton, reka sérstakt fyrirtæki. Nefnist það einfaldlega Food Sculpture og þar leika þau sér með mat! Þau búa til skúlptúra (auðvitað er orðið höggmynd réttara en skúlptúr fær að standa í þessari grein. Það eru jú páskar) úr mat; smjöri, súkkulaði, ávöxtum og svo mætti áfram telja.
Þetta hafa þau haft að atvinnu í tæp þrjátíu ár og auðvitað á maður erfitt að átta sig á hvernig það gengur fyrir sig. Svo er minnst á bíl og þá kviknar áhuginn skyndilega!
NASCAR-bíll „súkkulagður“
Áhuginn á NASCAR nær ef til vill ekki langt út fyrir Bandaríkin en flestir kannast þó við kappaksturinn.Toyota Camry sem Kyle Busch ekur er þekktur sem M&M bíllinn, enda merktur slikkeríinu í bak og fyrir.
Þann bíl hjúpuðu hjónin Jim og Marie súkkulaði og var „skúlptúrinn“ tilbúinn í janúar 2013. Tilgangurinn? Tjah, það er nú það… Þau sögðust einfaldlega hafa ákveðið að búa til súkkulaðiskúlptúr sem væri á allan hátt einstakur. Eitthvað sem enginn hafði nokkurn tíma gert.
Já, það er kannski markmið út af fyrir sig, að gera eitthvað alveg einstakt. Ef til vill var tilgangurinn að komast í heimsmetabók Guinness en þau eiga víst nokkur heimsmet.
Myndir af súkkulaðibílnum má skoða HÉR.
Það er kannski ekki alveg rétt að tala um þennan súkkulaðibíl sem skúlptúr því þau hjúpuðu bíl; þau „súkkulögðu“ bílinn. Já gott fólk! Hér varð til nýtt orð: Sagnorðið að súkkuleggja!
Sem sagt, lag eftir lag af súkkulaði, dag eftir dag og útkoman varð súkkulaðibíllinn sem hefði verið hægt að aka…ef ekki hefði verið súkkulaði yfir framrúðunni. En hvað um það! Ekki er öll vitleysan eins.
Gleðilega páska, kæru lesendur. Farið varlega í súkkulaðið og þá sérstaklega súkkulaðibílana.
Umræður um þessa grein