Hann var um ársgamall þegar hann byrjaði að tala. Og hann talaði bara um bíla. Sex ára gamall bað Patch Hurty bílaframleiðendendur um bílamerki því hann var að safna þeim. Viðbrögðin voru einfaldlega stórkostleg!
Fyrir fjórum árum síðan, árið 2018, var mamma hins sex ára gamla Patch á göngu í hverfinu þeirra i Connecticut í Bandaríkjunum þegar hún kom auga á eitthvað sem glampaði á við gangstéttarbrúnina. Jú, þetta var illa farið merki af bíl; Ford-merki. Hún stakk því í vasann því þetta var nú eitthvað fyrir bílakarlinn unga, son hennar.
Það hitti heldur betur í mark og var ungi maðurinn himinlifandi með lúið Ford-merkið. Patch var svo heillaður af merkinu að það var engu lagi líkt. Rétt eins og við var að búast fór sex ára guttinn út í þeirri von að finna fleiri bílamerki. Auðvitað!
Patch komst fljótlega að því að merki detta ekki oft af bílum. Hann fékk systkini sín tvö með sér í lið og þræddu þau götur og gangstíga í leit að merkjum en án árangurs.
Hugmyndin fer í póstkassann
Þá fékk mamman, Lindsey Hurty, þá hugmynd að hjálpa hinum sex ára gamla bíladellukarli að skrifa bréf til bílaframleiðenda. Þetta var nú aðallega gert til að hvetja Patch til að æfa sig að lesa og skrifa.
Bréfin urðu reyndar fimmtíu og undir hvert og eitt þeirra skrifaði Patch og þar sem því varð komið við fylgdi ljósmynd af drengnum við bíla af þeirri gerð sem við átti.
Í bréfunum stóð eitthvað í þessa veru: „Gæti verið að þið ættuð einhver merki sem hafa dottið á gólfið í verksmiðjunni eða orðið afgangs. Mig dreymir um að safna öllum bílamerkjum sem til eru.“
Patch vildi ekki líta út eins og sníkjudýr þannig að hann opnaði sparigrísinn og ofan í hvert umslag fór líka einn smápeningur.
Ekki nóg með að bréfin væru stíluð á alla helstu bílaframleiðendur nútímans heldur voru mörg þeirra stíluð á framleiðendur sem ekki voru lengur starfandi. Eins og til dæmis Saturn Corporation sem hætti framleiðslu árið 2009. Það stoppaði unga manninn ekki. Allir skyldu fá bréf. Og í póstkassann fóru bréfin; 50 talsins.
„Krúttlegt“ uppátæki?
Þetta er voðalega „krúttlegt“, að lítill gaur vilji senda bílaframleiðendum bréf og að mamma hans hafi hjálpað honum. Ekki grunaði móður hans að nokkurt svar bærist. Patch kíkti eflaust oft á dag í póstkassann til að athuga hvort eitthvað væri komið. Þannig liðu dagarnir.
Dag nokkurn var pakki í póstkassanum. Pakki stílaður á Patch Hurty. Það var sá fyrsti og svo bárust þeir einn af öðrum. Einlæg ósk drengsins hreyfði augljóslega við fólki og sennilega býr lítill „Patch“ í okkur öllum.
Það voru ekki bara merki í þessum pökkum heldur eitt og annað áhugavert: Póstkort, teikningar, handskrifuð bréf, lyklakippur, leikfangabíla, derhúfur og fleira merkt bíltegundinni var að finna í sendingunum.
Hvatning frá risunum
Volvo og Volkswagen voru á meðal þeirra fyrstu sem svöruðu bréfi unga safnarans. Sendingu VW fylgdi og í því stóð meðal annars:
„Kæri Patch, bréfið frá þér hefur glatt marga á vinnustaðnum. Mér finnst frábært að þú hafir sent okkur bréf því maður á að elta drauma sína. Haltu áfram að gleðja aðra og góðir hlutir bíða þín í framtíðinni.“
Í pakka frá Lincoln Motor Company var blýantsteikning af Lincoln Continental og á blaðið var skrifað: „Við hlökkum til að sjá þig stráksi! Aktu varlega og vertu nú duglegur í skólanum!“
Maður getur rétt ímyndað sér hversu jákvæð áhrif á sjálfsmynd ungs manns þessi viðbrögð höfðu.
Starfsmenn Volvo, Rolls-Royce, Bentley, Suzuki, Chevrolet og Infinity skrifuðu að sama skapi falleg bréf og sendu góss í pósti.
Glaðningur úr fortíðinni
Á meðal framleiðenda sem fengu bréf frá Patch var DeLorean Motor Company. Þá (2019) hafði lítið verið að frétta úr þeirri átt síðan 1982. Engu að síður komst bréfið í réttar hendur og er aldrei að vita nema Marty McFly úr Back to the Future hafi eitthvað hjálpað þar til.
Í það minnsta vissu foreldrar drengsins varla hvert hann ætlaði þegar hann fékk merki frá DeLorean í pósti!
CBS fjallaði um þennan skemmtilega strák í frétt þann 18. febrúar 2019 en hér er hlekkur á fréttina.
Alveg eins og maður sjálfur
Þessi stórkostlegu viðbrögð gefa vísbendingu um að margir þeirra sem starfa á þessum vettvangi hafi skilið fullkomlega hvernig veröld Patch var. Í viðtali við CBS á sínum tíma (2019) um þetta uppátæki safnarans sagði bifvélavirki nokkur:
„Eini munurinn á okkur Patch er sá að hann er enn með hár en ég er orðinn sköllóttur.“
Er þetta ekki ágæt saga í upphafi vinnuvikunnar? Magnaður mánudagur er hafinn og hver veit nema tilefni gefist til frekari umfjöllunar um Patch Hurty sem ætti nú að vera orðinn tíu ára gamall eða þar um bil. Enn er langt í bílprófið en þessi ungi maður hefur nú þegar haft eitt og annað að segja um bíla þrátt fyrir það!
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein