Stórkostlegt bílasafn dansks auðmanns endar á uppboði
Nú er eitt glæsilegasta bílasafn Danmerkur á leið á uppboð. Safnið var í eigu fasteignasalans Hennings Meyer sem nú er látinn. Bílarnir sem um ræðir eru ekki beint það sem maður myndi flokka sem hversdagsbíla.
Hinn látni fasteignasali, Henning Meyer, safnaði lúxusbílum um ævina og það magn af peningum, fyrirhöfn og tíma sem Henning lagði í safnið sitt sést vel við fyrstu sýn. Nú á að bjóða allt safnið upp og verður það gert þann 30. ágúst í uppboðshúsinu Campen Auktioner í Randers.
Bandaríkjamenn gera allt stærra og betra
Þessi tilkomumikli Cadillac árgerð 1958 er einn af áhugaverðari bílum safnsins. Cadillac rúmar allt að níu manns, sem fyrri eigandi naut oft með fjölskyldu sinni. Þessi tiltekni bíll á líka áhugaverða sögu að baki; áður en Henning Meyer fékk þetta dæmi í hendurnar var bíllinn í eigu stjórnenda sænska kjarnorkuversins Barsebäck, sem nú er hætt, þar sem hann gegndi hlutverki forstjórabíls.
Sjaldgæfur Cadillac prýðir safnið
Þessi Cadillac Eldorado Brougham er einn af stóru gimsteinunum í glæsilegu safninu. Hann var smíðaður árið 1958 og aðeins 704 eintök voru framleidd!
Á þeim tíma var þessi tiltekna gerð búin til gagngert til að sýna kraftinn í Cadillac, enda sýndi bíllinn allt sem hægt var að gera í bílaheimi þess tíma. Það er einmitt ástæðan fyrir því að þessi gerð, sem var dýrasti bíll Bandaríkjanna árið 1958, er líka mjög eftirsótt meðal safnara í dag – bíllinn gæti líka endað sem dýrasti bíllinn á uppboðinu.
Þrír glæsilegir bandarískir í röð
Aftast til vinstri er hinn sjaldgæfi Cadillac Brougham sem er við hlið Dodge Coronet sem fangar athyglina með græna litnum. Lengst til hægri er eldri Chevrolet Impala og í stíl við restina af fokdýru safninu er þessi Impala búin of stórri vél. Í forgrunni er Excalibur með gylltum mælum og margt, margt fleira. Þessir fjórir bílar eru aðeins lítill hluti af öllu safninu.
Bíll drottningar bandarísku sveitatónlistarinnar
Áður nefndur Cadillac var hlutur Bandaríkjamanna í keppni við breska lúxusmerkið, Rolls-Royce. Og það er einmitt einn Rolls-Royce sem er hluti af hinu ægilega safni og hann er ekkert minna en Rolls-Royce Phantom með rauðu leðuráklæði.
Upplýsingarnar um þann breska eru af skornum skammti og því ekki um annað að ræða en að skoða hann með eigin augum. Sögusagnir hafa þó verið um að bíllinn hafi einu sinni tilheyrt engum öðrum en sjálfri drottningu bandarískrar sveitatónlistar, Dolly Parton.
Margir óbreyttir bílar í safninu
Í hinu glæsilega safni hafa nokkrir bílanna verið endurnýjaðir eða þeim sinnt með öðrum hætti. Þetta á þó ekki við um þennan rauða Lincoln Town Car, sem er nákvæmlega eins og hann var þegar hann fór úr verksmiðjunni árið 1979. Það er því engin ástæða til að óttast að of mikið hafi verið fiktað við klassíkina.
Alvöru „kaggar“ án lágmarksverðs
Á uppboðinu má sjá raðir af alvöru „köggum“ eins langt og augað eygir – og hugmyndaflugið leyfir. Og ef það dugar ekki til að laða að safnara alls staðar að af landinu má því bæta við að bílarnir seljast án lágmarksverðs! Það er því tækifæri til að gera góð kaup sé ferðinni heitið á Campen Auktioner í Randers þann 30. ágúst.
Kominn tími á nýja eigendur
Frá ökumannssætinu á Cadillac Fleetwood hans hefur Henning Meyer getað fylgst með safninu. Óviðjafnanlegt safn sem á skilið aðdáun og viðurkenningu. Nú er hins vegar komið að því að hin flottu farartæki fari í hendur nýrra eigenda og því hefur erfinginn Marie Therese Meyer valið að bjóða allt safnið upp.
Litlir bílar eru ekki alltaf með samsvarandi verðmiða
Hinn sjaldgæfi níu sæta Cadillac og fyrrum Rolls-Royce sveitadrottningarinnar vitna um safn fullt af stórum, íburðarmiklum farartækjum, en það er ekki allur sannleikurinn. Henning Meyer safnaði líka örbílum frá fimmta áratugnum.
Þótt smáir séu þá má það ekki rugla mann. Verðið er ekki endilega í takt við stærðina. Þetta er vegna þess að sjaldgæfir örbílar hafa orðið mjög vinsælir meðal safnara í dag.
Til margs að hlakka þann 30. ágúst
Alls tókst Meyer að safna yfir 50 lúxus, sjaldgæfum og sérkennilegum bílum. Það þýðir að það er margs að vænta þegar uppboðið fer fram 30. ágúst hjá uppboðsfyrirtækinu Campen Auktioner í Randers. Uppboðið hefst klukkan 18:30 og er opið öllum sem vilja eignast safngripi eða einfaldlega fylgjast með áhugaverðu bílunum sem boðnir verða upp. Allir bílar eru boðnir án lágmarksverðs og því næg tækifæri til að gera góð kaup. Kannski hefur einhver áhuga að skella sér til Danmerkur og kíkja á þetta uppboð – hver veit?
(grein á vef Bil Magasinet – myndir frá Campen Auktioner)
Umræður um þessa grein