Endurhannaður Kia Soul frumsýndur í Los Angeles
Kia Soul, hinn glæsilegi sigurvegari að mati margra vegna sérstæðrar hönnunar á árunum upp úr aldmótunum 2000, hefur verið fullkomlega endurhannaður sem 2020-árgerð. Hann er enn mjög „ferkantaður“, en það er jafnvel skemmtilegra útlit en áður. Stóru framljósin í fyrri gerð eru horfin og er skipt út fyrir mjög framúrstefnuleg, löng og mjó ljós sem eru innfelld í rönd undir vélarhlífinni. Þar til viðbótar eru aukaljósker í stórum „hólfum“ beggja megin neðarlega á framendanum. Neðst er svo stórt grill. Almennt sér er framendinn svolítið meira ávalur, en í heild er bíllinn jafn beinn og uppréttur og áður. Að aftan er Kia Soul alveg lóðréttur og heldur lóðréttu afturljósunum sem nú ná út fyrir hornið og mynda heilstæðan ramma í næstum hring á afturendanum. Hjólbogarnir eru ekki eins áberandi og áður en mynda samt flotta umgjörð um dekkin.
Margar gerðir í boði
Það er úr nokkrum gerðum að velja í þessum nýja Kia Soul, þar sem sumar hafa sinn eigin stíl. LX, S og EX mynda grunngerðir Soul, en síðan er EX Designer Edition, sem býður upp á tvíliti á lakki á milli þaks og yfirbyggingar og stórar 18 tommu felgur og hjólbarða. Kia Soul Turbo er nú skipt út fyrir Soul GT-Line, sem hægt er að fá með Turbó-vél eða með hefðbundinni bensínvél. Þessi gerð er með mun meira áberandi framenda með auka rauf í grilli og sílsalista í rauðum lit. Turbó-gerðin er með púströr að aftan í miðju, stærri hemla og stífari fjöðrun. Þá er ný X-lína sem gefur Soul svolítið „jeppaútlit“ með plasthúðun neðarlega á klæðningu á hliðum, plastköntum á hjólbogum og þokuljósum. Þessi gerð er einnig með tvílit á yfirbyggingu sem valkost.
Litlar breytingar á stærð
Þrátt fyrir að bíllinn hafi verið endurhannaður frá grunni þá er þessi nýi Soul næstum nákvæmlega eins og sá gamli að mörgu leyti. Nýi bíllinn er rúmlega 5 cm lengri, og bætir 2,5 cm á milli hjóla, en mál á breidd og hæð eru þau sömu. Pláss í farþegarými er næstum því sama, nokkrir millímetrar í plús eða mínus hér og þar. Bíllinn er hins vegar kominn með mun stærra farangursrými, stækkar um 141 lítra í samtals 674 lítra. Afturhlerinn er bæði breiðari og lægri en áður sem gerir það auðveldara að setja inn hluti og taka þá út. Endurhannað innanrýmið er með fullt af nýjum atriðum, til dæmis sérhannaða umhverfislýsingu, 10,25 tommu snertiskjá sem valkost og skjáupplýsingar sem varpað er upp fyrir framan ökumanninn.
Tvær mismunandi vélar í boði
Það eru tvær drifrásir í boði fyrir Kia Soul. Grunngerðin er hefðbundin 2,0 lítra bensínvél. Þessa sömu vél er einnig að finna í ýmsum öðrum bílum frá Hyundai og Kia eins og Forte. Þessi vél er 147 hestöfl og 179 Nm snúningsvægi. Það er meira en í núverandi 1,6 lítra vél, sem er 130 hestöfl, en minna en núverandi 2,0 lítra vél sem er 161 hestöfl. Þótt engar formlegar eyðslutölur liggi fyrir, þá er það óhætt að gera ráð fyrir að nýja vélin muni verða miklu skilvirkari. Þessa nýju 2,0 lítra vél er hægt að tengja annaðhvort við nýja CVT-gírskiptingu frá Kia eða sexhraða beinskiptingu.
Þá er 1,6 lítra túrbóvél, sem er gefin upp 201 hestafl og 264 Nm snúningsvægi.
Margvíslegur búnaður
Öryggisbúnaður, staðalbúnaður eða aukabúnaður er sjálfvirk neyðarhemlun, bílastæðaskynjarar, skynjun á hættu á blindum svæðum, skriðstillir með aðlögunarhæfni, akreinavarir og sjálfvirk háu ljós. Aðrir eiginleikar sem eru til staðar eru þráðlaus snjallsímahleðsla, sjálfvirk loftslagsstýring, Apple CarPlay og Android Auto-samhæfni, 10 hátalara hljóðkerfi sem er 640 vött, 18 tommu hjól, LED framljós og auðvitað andstæður litur á þaki.
Reiknað er með Kia Soul 2020 í sölu á árinu 2019. Engar upplýsingar liggja enn fyrir um verð og eldsneytiseyðslu.
?
?
Umræður um þessa grein