Sportlegar tilfinningar
Toyota á Íslandi kynnti nýverið uppfærðan Toyota CHR. CHR bíllinn vakti strax athygli þegar hann var kynntur fyrir framúrstefnulega og sportlega hönnunn. Ekki voru gagnrýnendur á einu máli um útlitið en sitt sýnist hverjum. Það er hins vegar skoðun undirritaðra að um sérlega skemmtilega hannaðan bíl að flestu leyti er um að ræða.
Það var nú í síðustu viku að við komum við hjá Toyota og fengum einn splunkunýjan Toyota CHR til reynslu. Sá bíll var af hybrid gerð með 2.0 lítra vél sem skilar um 184 hestöflum. Strax, við að setjast inn í þægileg leðursætin fann maður sportlega tilfinningu. Þegar maður tók af stað staðfestust þær tilfinningar algjörlega.
Afl í kögglum
CHR kemur sjálfskiptur og með tveimur vélargerðum. 1.8 lítra hybrid/bensín vél sem skilar um 122 hestöflum og nægir þessum bíl þannig lagað alveg eða 2.0 lítra hybrid/bensín vél sem skilar um 184 hestöflum. Og sestur inn í slíkan bíl – ja, þá er nú gaman að lifa!
Aflið er yfirdrifið, mýktin er eftirtektarverð og þessi bíll minnir eilítið á sportbíl sem steinliggur á vegi og skríður nánast ekkert í beygjum – þrátt fyrir að hraðinn sé talsverður. Stýrið er frekar lítið og hægt að hækka og lækka og draga að sér og þanning getur maður, ásamt rafdrifnu ökumannssæti stillt nákvæmlega í þá stöðu sem manni líkar best að aka hverju sinni. Sportleg fjöðrun er frábær. Þrjár akstursstillingar eru í boði (drive mode). Fyrst ber að nefna normal stilling sem hentar venjulegum borgarakstri vel. Í henni er bíllinn mýkri og sparar eldsneyti miðað við aðstæður. Sportstillingin gerir bílinn stinnari á vegi og fjöðrunin breytist. Í eco stillingu sparar vélin orku eins og henni er framast unnt við aðstæður.
Demantslaga hönnun
Hönnun Toyota CHR ber glögg merki demantslaga lína – allstaðar í hönnun bílsins má sjá demantslaga línur, bæði að utan og innan. Innréttingin er nýtískuleg, demantslaga sætin, demantslaga klæðningin inni á hurðunum og meira að segja demantslaga lofta klæðning gera bílinn all sérstakan og skemmtilegan í útliti.
Efnisval er allt til fyrirmyndar eins og Toyota er von og visa. Mjúkt yfirborð mælaborðs, klæðninga innan á hurðum og armpúða milli sæta gera bílinn ekki einatt öruggari fyrir ökumann og farþega heldur undirstrika þægindi og fágaða hönnun.
E-CVT
E-CVT sjálfskiptingin finnst okkur alveg æði. Afl vélarinnar vinnur mikið með þessari gírskiptingu og við inngjöf, þegar snúningur vélarinnar eykst kemur CVT gírkassinn til hjálpar og dreifir orkunni þannnig á aflkúrvunni að vélarsnúningurminnkar en bíllinn heldur silkimjúkum hraðanum við minni snúning. Þá er vélin hljóðlát og eins og hún hafi ekkert fyrir því að gefa aukið afl við inngjöf. Hröðunin er því jöfn en ekki rykkjót eins og í svo mörgun kraftmeiri bílum.
Aftursæti bílsins hafa fengið hvað mesta gagnrýni fyrir að þú sitjir lágt og þaklína slútti niður fyrir sjónlínu. Við prófuðum einmitt að setjast afturí með þetta fyrir augum. Þar var hins vegar bara ágætt útsýni og fyrir smábarn í bílstól situr þannig stóll það hátt að barnið sér leikandi út um afturgluggana. Og hliðarrúður afturí fara 100% niður í hurðina.
Fjölbreytt lita- og aukahlutaúrval
Toyota CHR er til í fjölda útfærslna með mismiklum búnaði. Bíllinn sem við prófuðum er af C-HIC gerð og er tvílitur með málmlit, upphituðu stýri, skynvæddum hraðastilli, heitum reit 4G, Apple Carplay og Android Auto, bakkmyndavél, akreinavara, sjálfvirkri bremsuaðstoð og íslensku leiðsögukerfi svo eitthvað sé nefnt.
Í boði sem aukahlutur er geggjað JBL hljómkerfi en það er staðalbúnaður í dýrustu týpunni C-UORE. Að auki getur þú pantað allskyns aukahluti, litasamsetningar og liti í aukahluti sem gera bílinn að þínum.
Verðið er frá 5.130.000 og upp í 6.590.000 eftir búnaði og vélargerðum.
Helstu tölur:
Verð frá 5.130 þús. – verð á reynsluakstursbíl 6.380 þús. – maí 2020.
Vél: 2.0 rms. Hybrid.
Hámarksafl rafhlöðu: 80/kW.
Hestöfl: 184 hö.
Newtonmetrar: 190 við 4400-5200 sn.
0-100 k á klst: 8,2 sek.
Hámarkshraði: 180 km.
CO2: 119-128 g/km.
Eigin þyngd: 1485-1525kg.
L/B/H 4390/1795/1555 mm.