Breski sportbíllinn Lotus Esprit var framleiddur frá 1976-2004. Hann komst almennilega á kortið eftir stórt hlutverk í Bond-myndinni The Spy Who Loved Me árið 1977. Minna hefur farið fyrir þeirri staðreynd að sami bíll er fyrirmyndin að Tesla Cybertruck.
Lotus Esprit gat breyst í kafbát „einn-tveir og þrír“. Þ.e. í Bond-myndinni. Hér er nauðsynlegt að sýna stutt myndband áður en lengra er haldið:
Þarna sást „Wet Nellie“ en það er nafnið á þessum sérsmíðaða kafbáti sem var mótaður eins og Lotus Esprit S1. Lukkaðist vel, ekki satt?
Atriðið var tekið upp á Bahamaeyjum og ók Roger Moore (sem Bond) sportbílnum sem varð að þessum líka fína kafbáti.
Þegar Elon keypti Nelly
Það er því varla hægt að tala um eiginlegan „Bond-bíl“ í þessu tilviki en kafbáturinn sem leit út eins og Lotus Esprit er nú samt einn af Bond-bílunum.
Þessi tiltekni leikmunur, Bond-bíllinn, var boðinn upp hjá RM Auctions í London þann 9. september 2013. Hæsta boðið, um 990.000 dollara boð, átti einhver ónafngreindur en ekki leið á löngu þar til í ljós kom að kaupandinn dularfulli var enginn annar en Elon Musk.
Sagði hann í skriflegu svari til USA TODAY á sínum tíma að hann hafi sem barn heillast mjög af þessum bíl:
„Mér þótti alveg ótrúlega magnað sem litlum gutta í Suður-Afríku að horfa á James Bond aka bílnum sínum, Lorus Esprit, fram af bryggjunni, ýta svo á einn takka og þar með breyttist bíllinn í kafbát undir vatnsyfirborðinu,“ skrifaði Musk.
Áformin þá þegar orðin ljós
„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum sem barn þegar mér varð ljóst að bíllinn gæti ekki breyst í kafbát í alvörunni. Það sem ég ætla mér að gera er að uppfæra bílinn með rafaflrás frá Tesla og láta hann umbreytast í raun og veru,“ sagði Musk fyrir tæpum níu árum síðan þegar hann hafði fest kaup á þessum undarlega hlut sem hvorki virtist fugl né fiskur, bíll eða bátur.
Þó að Musk hafi séð fyrir sér hvernig og hvað hann ætlaði að gera stóð blaðamaður USA TODAY alveg á gati og vissi ekki hvort maðurinn væri að fíflast eða ekki. Voru lokaorð greinarinnar eitthvað í þessa veru:
„Fleira er ekki vitað um áform Musk og hversu langt hann ætlar sér að ganga í þessari umbreytingu á bílnum. Verður bíllinn þurr að innan eins og alvöru kafbátur og Lotus-inn í myndinni, eða verður þörf á köfunargræjum við akstur?“
Auðvitað gat blaðamaðurinn, ekki frekar en aðrir á þessum tímapunkti, gert sér í hugarlund hvað koma myndi út úr þessari „umbreytingu“.
Nei, engan gat grunað neitt um framhaldið.
Þegar maður kaupir sér gám á 100 dollara
Það er ómögulegt að sleppa sögunni af því hvar bíllinn var frá því tökum lauk á Bond-myndinni uns Elon Musk keypti hann. Þannig var að maður nokkur, hvers nafni hefur verið haldið leyndu, keypti gám árið 1989 á Long Island. Hann vantaði altsvo gám.
Gámurinn var á meðal ýmissa hluta (í eigu framleiðslufyrirtækis) sem komið hafði verið fyrir á geymslusvæði. Öllu var sem sagt ruslað á svæðið og tíu ára leiga greidd fyrirfram (1978 sennilega) en þegar árin tíu voru liðin kom enginn að vitja gámsins eða neins af því sem komið hafði verið á geymslusvæðið. Reikningarnir hrönnuðust upp og enginn borgaði.
Gámurinn var seldur ásamt öðru „drasli“ á uppboði og hafði náunginn sem keypti gáminn á innan við 100 dollara ekki hugmynd um hvaða „rusl“ væri í téðum gámi. Hann hafði ekki séð eina einustu Bond-mynd um ævina, sem er sérstakt, og kom því alveg af fjöllum þegar gámurinn var opnaður. Við honum blasti eitthvert stykki, sem vafið var inn í mörg teppi. Þegar hann og bróðir hans höfðu flett teppunum utan af stykkinu horfðu þeir á dekkjalausan hvítan sportbíl með beyglu á þakinu.
Ekki þótti þeim mikið koma til þess sem þeir sáu og héldu sínu striki. Þegar hann ók heim á leið með „draslið“ á sínum vörubílspalli komu aðrir vörubílstjórar auga á Lotusinn og höfðu samband við gaurinn gegnum talstöð og sögðu honum hvaða „stykki“ hann væri með á pallinum.
Þegar heim var komið skrapp kaupandi gámsins út á vídeóleigu og leigði spólu með myndinni The Spy Who Loved Me. Þá áttaði hann sig á hvaða bíll hefði verið í umræddum gámi.
Það skiptir kannski ekki höfuðmáli hvað hann gerði við bílinn næstu árin en það er alla vega ljóst að á uppboð fór hann haustið 2013 og Elon Musk keypti bílinn á tæplega milljón dollara.
Leikmunur verður að ökutæki
Sennilega héldu flestir að Elon Musk hefði ætlað sér að búa til kafbíl (þ.e. rafbíl sem er líka kafbátur).
Haustið 2013 hafði sennilega enginn hugmynd um hvað Musk var eiginlega að spá og liðu nokkur ár þar til hægt var að átta sig á samhenginu.
Þarf nokkuð að hafa fleiri orð um það? Framleiðsla á Cybertruck hefur tafist töluvert en ljóst er að við hönnunina á Cybertruck var innblástur sóttur alla leið inn í gám nokkurn þar sem kafbátur í líki Lotus Esprit leyndist. Flókin leið en áhugaverð.
[Birtist fyrst í mars 2022]
Fleira úr sömu átt:
Sjáðu Cybertruck á ferð!
Meðan beðið er eftir Cybertruck
Fólk pantar bara alla rafpallbílana!
Cybertruck: Segir pantanir yfir þrjár milljónir
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein