Sparneytinn og flottur fjölskyldubíll

TEGUND: Renault Megane Sport Tourer

Árgerð: 2021

Orkugjafi:

Bensín/tengitvinn

Sparneytinn, akstursþægindi, verð
Takki fyrir hita í stýri, kantar á setum í framsætum
142
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Sparneytinn og flottur fjölskyldubíll

Fyrir páska fengum við að prófa nýjan Renault Megane Sport Tourer, Plug-in hybrid. Þetta er bíll sem gengur fyrir bensíni og rafmagni og þú stingur í samband til að hlaða rafgeyminn.

Renault Megane Sport Tourer Plug-in hybrid árgerð 2021.

Renault Megane kom, sá og sigraði árið 1995 en hann var byggður á traustum grunni Renault 19 sem hafði notið mikilla vinsælda sem millistærðarbíll í Evrópu um árabil.

Mikið fyrir peninginn

Renault Megane Sport Tourer er vandaður og tæknilega fullkominn bíll. Frakkinn leggur mikið upp úr hönnun og útliti ásamt tækninýjungum. Þó svo að þessi nýi Megane hafi ekki fengið neina sjáanlega drastíska uppfærslu núna var hann langt á undan sinni samtíð þegar hann kom fyrst á markaðinn árið 2016 og tók þá við af afburðavinsælum forvera.

Falleg lína í nýjum og lítið breyttum Megane Sport Tourer.

Sá nýjasti kemur með LED dagljósabúnaði og LED afturljósum. Verðið er frá 4.790 þús. sem verður að teljast gott miðað við bíl í þessum stærðarflokki.

LED ljósabúnaður.

Tæknin í fyrirrúmi

Þessi Renault Megane Sport Tourer er fjórða kynslóð hins vinsæla Megane bíls. Þegar bíllinn kom fyrst á markað árið 2016 þótti tæknistig bílsins algjörlega frábært. Þar má nefna stóran og vel útfærðan miðjuskjá sem er í dag í öllum bílum Renault.

Bíllinn er stútfullur af hagnýtri og nýtísku tækni.
9.3 tommu snertiskjár.

Stafrænir mælaborðsskjáir með frábærri grafík ásamt einföldu og upplýsandi notendaviðmóti. Það er nefnilega þræleinfalt að skilja viðmót bílsins.

Afturhlerinn opnast vel og þægilegt að ganga um farangursrýmið.
Hurðir opnast vel.
Gott pláss fyrir fætur frammí og miðjustokkur truflar ekki. Þú sest aðeins ofan í bílinn enda ekki jepplingur.

Prófunarbíllinn var af Intens gerð en Megane Sport Tourer er boðinn í þremur gerðum. Zen, Intens og RS line. Grunntýpan er mjög vel búin. Í henni er til að mynda akreinavari, gardínu, hliðar og hné loftpúðar, sjálfvirk háu ljós (high beam assist), upphitaðir hliðarspeglar, vegaskiltanemi, hraðastillir, fjarlægðarskynjarar að framan og aftan ásamt blátannarbúnaði og USB tengi.

Að auki í Intens týpunni getur þú valið um mismunandi akstursstillingar, í henni er aðvörun fyrir hliðarumferð, upphitað stýri, bakkmyndavél, sjálvirk bílastæðaaðstoð og blindhornsviðvörun.

Blindhornaviðvörun er í Intens og RS line gerðinni.

RS line bíllinn er í raun eins tæknilega búinn og Intens bíllinn en með RS útliti.

Einstakir aksturseiginleikar

Bíllinn er frábær í akstri. Fjöðrunin er frönsk, þú finnur ekki fyrir henni og þannig er best að hafa hana. Hún er hvorki of stíf né of mjúk. Stýrið er létt án þess að það trufli mann við aksturinn.

Mjúk hröðun er einkennandi og það heyrist lítið inn í bílinn í akstri. Bíllinn leggst ekki í beygjurnar og stýrið nákvæmt.

Einstaklega þægileg framsæti sem halda vel við bak, rass og læri. Setur mættu ef til vill vera örlítið breiðari.

Sætin í Intens gerðinni eru þægileg og vel formuð en seturnar mættu ef til vill vera örlítið breiðari. Lærin liggja pínu á hliðarupphækkun sætanna.

Gott fótapláss er eftirtektarvert og enginn stór og klossaður miðjustokkur sem truflar pláss til hliðanna í framsætum.

Þægilegur íverustaður – aftursæti á Renault Megne Sport Tourer eru vel formuð og í þeim eru Isofix festingar fyrir barnabílstóla.

Eina sem okkur fannst skrítið var að takkinn fyrir stýrishitann var neðst til vinstri í mælaborðinu. Eins og staðsetning hans hefði verið ákveðin í flýti.

Þú kemst lengra á Plug-in hybrid

Uppgefin eyðsla framleiðanda er um 1.3 ltr. á hverja hundrað kílómetra. Og þú getur ekið bílnum allt að 54 kílómetra skv. WLTP mælingunni. Í raunaðstæðum eru þessar tölur ef til vill aðeins öðruvísi.

Við gætum trúað að drægnin á rafmagni einu saman sé um 40 kílómetrar. Það fer allt eftir því hvernig við ökum, veðri, vegyfirborði og notkun búnaðar í bílnum. Svo er CO2 ekki nema um 28 gr. á hvern ekinn kílómetrar.

Lítill sem enginn munur er á útliti á milli árgerða – enda sérlega vel heppnuð fjórða kynslóð bílsins mjög vinsæl.

Bensínvél og tveir rafmótorar

Renault Megane Sport Tourer er búinn 1.6 lítra bensínvél og tveimur rafmótorum. Sá minni hjálpar brunamótornum en sá stærri býður upp á sjálfstæðan rafmagnaðan akstur.

Saman vinna þeir að hagkvæmum og sparneytnum akstri. Þú getur síðan valið um þrjár akstursstillingar Eco, Sport og My Sense sem er í raun þín eigin samsetning á akstursstillingu.

LED ljósatækni í dagljósum en halógen í aðalljósum. Takið eftir þokuljósinu neðst í stuðaranum.

Að sjálfsögðu færðu mesta aflið í Sport stillingunni en hún eyðir mestri orku en í henni er bíllinn ákaflega skemmtilegur í akstri. Multi sense kerfið gerir mögulegt að breyta stillingu stýris, snerpu vélar og skiptingar ásamt lýsingu í bílnum til að skapa þá stemningu sem þú vilt í akstrinum.

Allt til að gera aksturinn þægilegri og skemmtilegri.

Fjölnota eiginleikar

Renault Megane Sport Tourer er frábær fjölskyldubíll. Hann rúmar mikið, hann er þægilegur í umgengni og fullkomlega fjölskylduvænn bíll. Mengar lítið, er sparneytinn og hagkvæmur.

Renault Megane er öruggur bíll með gott orðspor og lága bilanatíðni. Bíllinn er með Isofix festingum fyrir barnastóla og getur því hentað fyrir fjölskyldufólk með lítil börn.

Framendi hefur fengið uppfærslu og gefur bílnum sterkan svip.

Þú getur einnig fengið gott úrval aukahluta til að breikka notkunarmöguleikana. Til dæmis er í boði hundagrind, skíðaklemmur, hjólafestingar og farangursbox. Þannig hentar bíllinn í vinnuna eða ferðalagið ásamt því að henta vel í borgarakstri.

Helstu tölur:

Verð frá: 4.790.000 kr. (Verð á reynsluakstursbíl Intens 5.190 þús. kr.)

Vél: 1,6 lítra. PEHV (Plug-in hybrid).

Hestöfl: 160.

Rafhlaða: 9.8 kWh.

Drægni á rafmagni: 54 km.

Hámarkstog: 144 Nm.

0-100 k á klst 9.8 sek.

Dráttargeta: 750 kg.

CO2: 28 gr/km.

Eigin þyngd: 1.600 kg.

L/B/H 4625/1870/1446 mm.

Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar