- Fullt af skemmtilegum eiginleikum, ekki svo stór að utan en mjög rúmgóður að innan
Við erum í dag með einn af nýrri rafbílunum í reynsluakstri – smart#1. Raunar á þessi bíll sér aðeins lengri aðdraganda, því það er liðlega eitt ár frá því að við sögðum frá „frumsýningu“ bílsins í Grósku – hugmyndahúsi nýsköpunar.
Sá bíll var að vísu aðeins „sýningareintak“ en Askja frumsýndi síðan nýja smart#1 á döfunum og núna erum við í reynsluakstri.
smart#1 er einfaldlega flottur („smart“) – það þarf í raun ekki að hafa mörg orð um það. Nafnið á bílnum er sérstakt, „smart“ með litlum staf plús myllumerki (#) og loks tölustafurinn einn, allt vísar þetta til þess að þetta sé væntanlega sá „fyrsti“ í röð fleiri bíla.
smart#1 – nettur að utan en rúmgóður að innan.
Smart á sér langa sögu, kom fyrst fram sem tveggja manna „borgarbíll“ á árunum 1998 til 2000. Þetta voru mjög litlir bílar, eiginlega svo litlir að það var hægt að leggja þeim tveimur hlið við hlið í „venjulegu“ stæði fyrir einn bíl.
Þessir bílar voru smíðaðir af fyrirtæki sem var að meirihlutaeigu Mercedes.
Þessi fyrsta gerð fékk síðar nafnið „Fortwo“ og í kjölfarið kom aðeins stærri gerð „Forfour“.
Árið 2019 fór Merecedes í samstarf við Geely í Kína og ákveðið var að bílar Smart yrðu í framtíðinni smíðaðir þar í nýrri verksmiðju, og útkoman er bíllinn sem við erum að reynsluaka í dag.
Leynir á sér
Það fyrsta sem manni kemur í hug þegar sest er inn í smart#1 er hve mikið þessi bíll leynir á sér. Fyrstu hughrif eru þegar gengið er að bílnum er að þetta „lítill“ bíll, en þegar set er inn þá kemur í ljós að það er í raun alls ekki svo.
Eitt af atriðunum sem undirstrika þetta er að þegar bíllinn er í „hvíldarstöðu“ þá rennur ökumannssætið aftur þannig að innstig í bílinn er mjög gott.
Það er nánast hægt að segja að það sé „sest inn“ í þennan bíl, ekki „niður í hann“ eins og raunin er um marga bíla af þessari stærð.
Þegar ökumaðurinn stígur á bremsuna þá „vaknar“ bíllinn, sætið rennur í þá stöðu sem það var í síðast og það eina sem ökumaðurinn þarf að gera er að velja „gír“ á litlu handfangi við stýrishjólið og aka af stað.
Eins og hér sést er gott pláss til að fara inn í bílinn og út aftur. Eina sem má finna að er að setur framsætanna eru heldur stuttar, en sleppur samt alveg.
Liprar rafstýringar gera það auðvelt að aðlaga stillingar að þörfum hvers og eins.
Sá sem þetta skrifar er enn „nýgræðingur“ að umgangast rafbíla þótt þeim hafa samt verið ekið nokkrum. Eitt sem kemur með alltaf á óvart er þetta „snögga“ viðbragð.
Sá fyrsti sem ég ók með svona viðbragð var Tesla af fyrstu kynslóð, og þetta hefur verið aðalsmerki þessara rafbíla fram að þessu.
Mér er sagt að hestöflin í þessum bíl séu 272 og þau eru vissulega öll hér til staðar! Í áranna rás hefur mér samt fundist betra að gera mér grein fyrir „afli“ bíla með því að bera saman hestöfl og tog – er er mælt tog smart#1 343 Nm og drifið er á afturhjólunum. Hámarkshraðinn er sagður vera 180 km/klst.
Öll þessi hestöfl og dágott togið skila líka bílnum á 6,7 sekúndum í 100 km/klst (þar sem slíkt er leyfilegt).
Auðvitað er þessi knái og „snjalli“ bíll ekki eins sprækur í „upptaktinum“ eins og Tesla eða Polestar (sem kemur í raun undan sömu „regnhlíf“ hjá Geely, en „hröðunin“ í þessum bíl ætti að duga nær öllum í daglegri notkun íslenskri „bæjarumferð“.
Kvikur og nákvæmur í stýri
Það fer vel um ökumanninn þegar sest er undir stýri í smart#1. Að vísu „rammar“ stór miðjustokkur í þessum bíl ökumanninn vel af.
Ég er almennt ekki hrifinn af því að vera með svona stóran miðjustokk í bíl, og í rafbíl sem þessum ætti hann að vera óþarfur í raun, því ekki þarf á því að halda hér að vera með gírkassa og drifskaft, sem í gömlu bílunum kallaði á svona „miðjustokk“.
En hér er stokkurinn hluti af „hönnun“ innanrýmisins.
Fremst á stokknum er hólf með hleðslutengjum og slíku, með fyrirtaks plássi fyrir farsímann (þó án þráðlausrar hleðslu að því að ég komst næst) og síðan er aftast hólf sem kom í ljós að er með „kælingu“ (hægt sem sagt að vera með kalda drykki í langferðinni).
Miðjustokkurinn – fremst er hólf með usb-tengjum fyrir hleðslu og raftengi.
Í miðjunni er annað ágætt geymsluhólf, og undir aftasta lokinu (næst á myndinni) er geymsluhólf með kælingu.
Stýrishjólið er frekar lítið, ekki alveg kringlótt, því það er „flatkantur“ á því að neðan. Og stýrið er einstaklega nákvæmt og svarar vel – eiginlega alveg samstundis.
Það vottar ekki fyrir því að ójöfnur í malbikinu finnist upp i stýrið, og akreinavarinn virkar vel – hann lætur ökumanninn vita af því ef bíllinn ætlar að yfirgefa sína akrein.
Stór miðjuskjár og annar minni fyrir ökumanninn
Það vekur strax athygli hve 12,8 tommu „miðjuskjárinn“ í mælaborðinu er stór og áberandi. Hann er líka með að því að mér finnst með frekar ruglingslegt „viðmót“ svo ég einbeitti mér að aka bílnum og gefa skjánum einfaldlega „frí“.
Tengdi samt símann minn og skoðaði það sem er í boði aðeins nánar, en lét þar við sitja.
Hins vegar virkar skjárinn fínt í akstri, og myndavélar, bæði fram og aftur, sýna umhverfið vel og sama á við um 360 gráðu myndavélina.
Beint fyrir framan ökumanninn er síðan mjór og aflangur 9,2 tommu skjár með upplýsingar fyrir ökumanninn, alveg nógu stór og ágætlega læsilegur.
Þægilegt innanrými
Í heildina er innri hönnun smart#1 góð. Áferð á klæðningum virkar vel á mann og saumar og frágangur er með ágætum.
Það fer vel um ökumann og farþega í framsætum, og það er einnig dágott pláss í aftursæti og mjög gott höfuðrými, enda sér „kúpulaga“ hönnun á yfirbyggingunni til þess.
Sé aftursætisbekknum rennt fram til að búa til meira farangurspláss er að vísu aðeins gott fótapláss fyrir farþega af „yngri kynslóðinni“.
Skemmtilegur „viðbótarbúnaður“ er í smart#1 – en það er risastór „þakgluggi. Með því að draga til hnapp þá opnast þessi stóri gluggi og hlífin (sem er jafnframt loftklæðningin í bílnum) aftur þannig að það birtir mikið í bílnum og í myrkri er hægt að njóta stjörnubjarts himins.
Líkt og algengt er með rafbíla eru felgur á smart#1 hannaðar til að veita sem minnsta loftmótstöðu, en ná samt að kæla hemlana nóg.
Einnig til að minnka loftmótsstöðu þá falla hurðarhandföngin að þegar bíllinn er í akstri, en um leið og ökumaðurinn nálgast bílinn með lyklastyringuna í vasanum þá spretta handfngin út.
Ágætt pláss fyrir farangur og dót
Í staðalstillingu er farangursrýmið í smart#1 um 323 lítrar en með því að renna aftursætisbekknum fram er plássið stækkanlegt í 411 lítra.
Afturhlerinn opnst vel upp (með rafdrifnum lyftibúnaði), þannig að ekki er hætta á að reka hausinn í hlerann í opinni stöðu. Til að loka er bara ýtt á hnapp á brún hlerans.
Ef loki í botni farangursrýmisins er lyft upp kemur „viðbótarhólf“ sem hér nýtist til að geyma hleðslukaplana.
Að framan undir „vélarhlífinni“ er síðan annað geymsluhólf, sem er 15 lítrar.
Dágóðir aksturseiginleikar
Það kom mér nokkuð á óvart hve aksturseiginleikar bílsins eru almennt góðir.
Bíllinn er 4.270 mm á lengd og breiddin er 1.822 (2.025 út fyrir spegla). Hjólhafið er hins vegar dágott á svona litlum bíl eða 2.750 mm, sem kemur sér greinilega vel í akstrinum, því bíllinn liggur mjög vel, og af því að hann er afturdrifinn þá fylgir hann sér vel í beygjum, því kraftmikill framhjóladrifinn bíll í þessari stærð mundir „rífa sig upp“ þegar gefið væri inn í beygju.
Eitt atriði í viðbót sem undirstrikaði hve bíllinn er „snjall“ því margir nýir bílar í dag eru með skynvæddan skriðstilli/hraðastilli, og hér virkaði þetta sérlega vel, því alla leiðina frá Reykjanesbæ inn á höfuðborgarsvæðið, var þessi „smart cruise control“ stillt þegar ekið var á bílnum sem var á undan, og alla leiðina hélst sama vegalengd að bílnum fyrir framan, sama hvor hann ók hratt eða hægt.
Viðvörunarkerfi fyrir ökumanninn virka vel og eru til þæginda, jafnt þegar verið er að skipta um akrein, nálgast bíl fyrir framan eða þegar verið er að leggja í stæði
Bíll sem hægt er að mæla með fyrir flesta
Stutta útgáfan eftir þennan reynsluakstur er að þetta er bíll sem hægt er að mæla með fyrir flesta.
Bíllinn er góður í umgengni, gott pláss bæði í fram- og aftursætum, breytanlegt farangursrými
Eins og hér sest er verðið á bílnum sem við vorum með í reynsluakstrinum kr. 6.390.000, sem er sennilega alveg raunsætt miðað við hönnun og búnað.
Fjórhjóladrifin útgáfa er væntanleg síðar á árinu að því að við vitum best, og þá á ágætu verði og loks er síðan von á Brabus-útgáfu.
Myndband
smart#1 nokkrar tölur
Rafhlaða (lithium-ion): 66,0 kWh (nothæft 62,0 kW) 400 volt
Heildarafl: 272 hö
Aksturssvið: 335 km – 440 km (eftir mæliaðferð)
Drif á afturhjólum
Hámarkshraði: 180 km/klst
Lengd: 4270 mm
Breidd: 1822 mm (2025 út fyrir spegla)
Hæð: 1536 mm
Hjólhaf: 2750 mm
Þyngd (óhlaðinn): 1863 kg (brúttóþynd: 2213 kg)
Farangursrými: 323 lítrar (stækkanlegt í 411 lítra)
Framhólf: 15 lítrar
Dráttargeta: 750 kg án hemla – 1600 kg með hemlum.