- Sala á rafmögnuðum eActros flutningabíl er hafin á Íslandi. Bíllinn er stórt stökk fram á sviði sjálfbærra flutninga og undirstrikar skuldbindingar Mercedes-Benz til umhverfisins.
- Með eActros tekur Mercedes-Benz stórt stökk fram á sviði sjálfbærra flutninga .
- Eiginleikar eActros eru lykilatriði í flutningum framtíðarinnar: enginn mengandi útblástur, hljóðlátur og skilvirkur.
Bílablogg fjallaði um komu eActros á dögunum og þar sagði meðal annars:
„Koma eActros undirstrikar að tími orkuskipta er runninn upp. Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni, hvort sem það er í hefðbundnum fólksbílum, sendi- og atvinnubílum, eða stæðilegum vörubifreiðum. Mikilvægt er að allir rói í sömu átt; innflytjendur bíla, hagaðilar og síðast en ekki síst stjórnvöld. Íslensk stjórnvöld verða að standa við bakið á alvöru orkuskiptum og gera það kleift, og rekstrarlega mögulegt, fyrir fyrirtæki að fara í orkuskipti. Það hefur verið útgefið markmið stjórnvalda að það skuli nást. Fróðlegt verður að sjá hvað gerist í þeim efnum og hvort stjórnvöld standi bak við gefin loforð og fjármagni orkuskipti,” segir Eiríkur Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Sleggjunnar.
Fjölsótt kynning
Í tilefni þess að eActros er kominn til landsins blés Sleggjan, sem er systurfélag Bílaumboðsins Öskju, til kynningar og til að fara nánar yfir helstu eiginleika þessa fyrsta alrafmagnaða vörubíls frá Mercedes-Benz.
Kynningin var haldin í hádeginu fimmtudaginn 17. ágúst í aðalstöðvum Sleggjunnar í Desjamýri 10 í Mosfellsbænum og það var greinilegt á þeim fjölda sem kom til að skoða bílinn og vera viðstaddir kynninguna að þessi nýi „rafmagnaði“ Benz var vissulega að vekja athygli.
Það gladdi líka marka gesti að Grillbíllinn var á svæðinu og bornir voru fram hamborgarar á meðan kynningunni stóð. stendur.
Hér er Eiríkur Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Sleggjunnar að kynna helstu kosti nýja eActros fyrir gestunum á kynningunni.
eActros er 100% rafdrifinn með öflugri rafdrifinni drifrás.
Eitt af því sem aðgreinir eActros frá samkeppnisaðilum er rafmagnsdrifásinn (eAxle), sem er fyrirferðarlítil og léttur, en hann hýsir 2 rafmótora sem vinna á sitt hvorum hraðanum.
Þetta einfaldar búnað bílsins þar sem enginn gírkassi er til staðar né drifskaft. Nýr eAxle stuðlar einnig að aukinni skilvirkni, minnkar orkutap og eykur drægni bílsins.
Samkvæmt upplýsingum frá Sleggjunni tryggir 2ja þrepa rafmótorinn stiglausa og átakalausa hröðun sem gerir bílinn sérstaklega þægilegan í akstri.
eActros er 100% rafdrifinn vörubíll sem er bæði afskaplega hljóðlátur og skilvirkur. Þessi bíll er hannaður frá grunni sem rafbíll, og því hefur hefðbundin drifrás vikið fyrir svokölluðum eAxle.
Í stuttu máli er eAxle er drifhásing sem hýsir 2 rafmótora sem vinna á sitt hvorum hraðanum.
Þessi drifhásing verður til þess að allur drifbúnaður er einfaldari en ella og þar af leiðandi næst betri nýting á raforku bílsins.
Rafkerfið sem er 450 volt byggir að mörgu leyti á traustum grunni og þróun á rafmagns fólksbílum frá Mercedes-Benz .
Tvær grunnútfærslur
Hægt er að fá 2 grunnútfærslur á bílnum, annars vegar eActros 300 sem er með 336kw rafhlöðum eða eActros 400 sem er með 448kw rafhlöðum.
Boðið er uppá 300 bílinn sem grindarbíl 4×2 og 6×2, tilbúinn undir t.d. vörukassa og einnig er hægt að fá hann sem dráttarbíl í 4×2 útfærslu fyrir trailervagn.
400 bílinn er svo hægt að fá sem 6×2, sem er klár undir t.d. vörukassa, krókheysi fyrir gáma eða sorphirðuílát svo eitthvað sé nefnt.
Vinnuumhverfi ökumannsins er sambærilegt við aðra vörubíla frá Mercedes Bens, en hér eru það upplýsingarnar um rafmögnuðu drifrásina sem skipta máli.
Drægni 330 til 400 km eftir gerð
Drægni 300 bílsins er allt að 330 kílómetrar og allt að 400 kílómetrar í 400 bílnum.
Hleðslugeta eActros er allt að 160kw með DC hraðhleðslu.
Með þessu er hægt að hlaða 300 bílinn á ríflega klukkutíma frá 20% í 80% og 400 bíllinn á ríflega einum og hálfum tíma.
Aðeins einu tonni þyngri en sambærilegur dísilbíll
Margir óttast að aukin þyngd komi til með að minnka burðargetu rafmagns flutningabíla. Sú er ekki raunin með eActros, því hann er einungis einu tonni þyngri en sambærilegur dísel bíll og með nýrri viðbót við reglugerð um þyngd á ökutækjum, þá fá þessir bílar eitt tonn aukalega í heildarþyngd þar sem þeir ganga fyrir 100% raforku.
Þetta þýðir að burðargeta þessa bíls er sú sama og á sambærilegum díselbíl.
Þetta gerir eActros að gífurlega sterkum kandídat til dreifingar á vörum í þéttbýli og nærsveitum, ásamt því að veita okkur skemmtilega innsýn í það sem koma skal hjá Mercedes-Benz.
Koma eActros á markað á Íslandi er fyrsta stóra stökkið af mörgum þegar kemur að orkuskiptum í flutningum hér á landi, segja þeir hjá Sleggjunni, en Sleggjan sem er systurfélag Bílaumboðsins Öskju, sér um sölu á bílnum.
Í tilefni af frumsýningunni á þessum nýja eActros hafði Sleggjan stillt upp tveimur bílum frá nýjum og eldri tíma.
Við munum fá þennan nýja Mercedes Benz eActros í reynsluakstur fljótlega og munum fjalla nánar um bílinn í framhaldinu.
Umræður um þessa grein