Skandinavískur slædari
Cyan Racing er nafnið á keppnisliði Volvo. Þeir settu saman eitt stykki ofurbíl en það er Volvo P1800 Resto Mod bíll sem gerir bara meira en að líta vel út.
Það sem þeir gerðu með þennan flotta Volvo var að taka bíl sem gerði það ansi gott í kringum 1960 og uppfæra hann með nútíma tækni. Þeir fengu til liðs við sig sérfræðinga í mótorsporti og létu þá vinna með sér í þróuninni.
Algjör ruddi
Sú yfirlýsing að þeir hjá Cyan Racing hafi sagst ætla að gera bílinn „snoturlega” upp er maður nú ekki alveg viss um að passi neitt sérlega vel við. Bíllinn er mun breiðari en orginallinn, með stærri felgum og enginn lúxus hjálparkerfi eins og ESP, ABS og engin vökvaaðstoð í bremsukerfinu. Sem sagt, alvöru sportari, algjör ruddi.
Það er ekki annað hægt en að dást að útlitinu á þessum bíl en Volvoinn er búinn 420 hestafla, 2 lítra, fjögurra strokka túrbó vél (sem fengin var að láni úr Volvo S60 TC1 racer).
Cyan Racing ákvað að reynsluaka bílnum í upphaflegum heimahögum sínum en þeir fóru með Volvoinn á eitt kaldasta svæðið í Sviþjóð en þar léku þeir sér með bílinn og létu hann slæda í 20 stiga frosti.
Keppnislið Volvo
Eins og áður sagði á Cyan racing einmitt rætur sínar að rekja til keppnisliðs Volvo en verkfræðingurinn Matt Evensson og hans teymi báru ábyrgð á endurgerð þessa Volvo P1800. Bærinn Are í Jämtlandi í norður Svíþjóð er einmitt heimabær Matt.
Þar var að hans mati nægur sjór og fullt af frosnum stöðuvötnum til að leika sér með svona bíl.
„Hann er mjög skemmtilegur í akstri, mjög auðveldur viðureignar og ekki þarf nokkur átök til að hann geri það sem þú vilt að hann geri. Hugmyndin með þróun bílsins virðist ganga vel upp. Það skiptir ekki máli hvort þú ert á skraufþurri spyrnubraut, blautum og krókóttum sveitavegi eða á brakandi ís hérna upp í norður Svíþjóð, sagði Evensson eftir túrinn.”
Ofangreindar lýsingar koma kannski ekki á óvart þar sem bíllinn er undir tonni og ökumaðurinn getur spilað á gírkassann og snúning vélarinnar eins og hann sé að hamast á spilakassa þangað til að snúningsmælirinn fer á rautt.
Byggt á grein af vefnum Autoevolution. Myndir: Cyan Racing.
Umræður um þessa grein