Það er föstudagur. Í dag er líka heimsfrumsýningardagur á fullsköpuðum Aygo X. Og við hér á Bílabloggi erum á meðal þeirra sem á sömu stundu um allan heim birta opinberlega myndir og upplýsingar um þennan bíl. Skemmtilegt leyndarmál sem gaman er að sé ekki leyndarmál lengur.

Jæja, vindum okkur nú í þetta! Við höfum beðið nógu lengi þannig að nú er ekki rétti tíminn fyrir blaðamann að teygja lopann.

Fyrsti „crossover-inn“ í krílaflokki (A-segment)
Það að vera fyrstur er oftar en ekki eftirsóknarvert. Nema kannski í grunnskóla þegar verið var að lesa upp, en það er önnur saga! Þetta „stóra kríli“ er fyrsti bíllinn í krílaflokki (A-segment) sem er búinn eiginleikum mun stærri bíla.


Ég ætla nú ekki að ganga svo langt að tala um ofurkrafta.
En honum er ætlað meira og stærra hlutverk en að vera eingöngu snattari á milli óþekktu áfangastaðanna „A“ og „B“. Hönnunin miðar að því að bíllinn sé einstaklega fimur og komist út um hvippinn og hvappinn án teljandi vandræða.

Hann er smíðaður á sama grunni (þ.e. undirvagni) og Yaris Cross sem kynntur var hér á landi sl. helgi. Veghæðin er meiri en sú sem forverinn Aygo státaði af og hjólhafið er 90 mm víðara, sem m.a. skapar meira rými aftur í bílnum.

Sætisstaða er há þannig að bílstjóri þarf til dæmis ekki að horfa upp á við til að sjá ökumenn annarra fólksbíla heldur ættu allir að vera jafn„hátt“ uppi.


Beygjuradíus sem vart gerist minni
Aygo X er hannaður fyrir Evrópumarkað. Nei annars. Hann er hannaður í Evrópu, (fyrir Evrópumarkaðinn) og smíðaður í Evrópu. Aygo X („X“ er borið fram sem „kross“, segir Toyota Europe) er sem sagt smíðaður í verksmiðju Toyota í Kolin í Tékklandi.
Hannaður til að smjúga um þrengstu götur borga Evrópu hefur hann svakalega lítinn beygjuradíus, eða 4.7. metra, sem er með því minnsta sem þekkist.
Vélin er 1.0 l. þriggja strokka bensínvél sem eyðir að meðaltali 4,7 lítrum á hundraðið og útblásturgildið er 107g/km af CO2.


Litróf kryddsins
Heiti litanna sem Aygo X fæst í eru sótt í kryddheima og sömuleiðis innblásin af kryddangan, ef svo má segja. Litanöfnin eru Cardamom, Chilli, Ginger og Juniper.



Þakið (sem er víst einhvers konar blæjuþak en fjöllum betur um það síðar) er svart og sömuleiðis afturhluti bílsins og eru andstæðurnar skemmtilegar fyrir mannsaugað.

Það sem er hljómar best
Aygo X leysir Aygo, eins og við þekkjum hann, af hólmi. Stærð og samanburður við fyrirrennarann er auðvitað eitthvað sem best er að skoða með því að skottast inn á síðu Toyota og renna yfir málin. Þar er þetta allt milliliðalaust. Aygo X er sannarlega stærri og töluvert ólíkur Aygo „gamla“ en ég hef látið aðra um að hoppa út í hina djúpu laug talna og útreikninga þannig að já, hlekkurinn er hér að ofan.
Veghljóð er mun lægra en í „gamla“ og má segja að sú fullyrðing geti „hljómað mjög vel“. Mun hann vera með þeim lágværari í flokki þeirra smæstu.
Fleira ætti að hljóma býsna vel og þá sérstaklega græjurnar en Toyota og JBL unnu í sameiningu að hljóðkerfinu sem er í Aygo. Þetta er víst eitthvert dúndur sem er sérsniðið fyrir nákvæmlega þennan bíl og engan annan.

Nú hefur maður, eðli máls samkvæmt, ekki prófað bílinn. Annars væri þetta nú furðuleg heimsfrumsýning. Bíllinn er væntanlegur á markað fyrrihluta árs 2022 en við hér á Bílabloggi munum að sjálfsögðu koma með nákvæma dagsetningu þegar hún liggur fyrir. Það sama á við um allar nánari upplýsingar um verð, búnað o.s.frv.
Leyfum nýfengnum ljósmyndum að koma fyrir allra sjónir en slíkar myndir munu víst segja meira en voða mörg orð. Samt ætla ég ekki að stroka öll orðin út!






?






Umræður um þessa grein